Skírnir - 01.01.1943, Síða 102
100
C. A. C. Brun
Skírnir
in orðin svo mjög við þetta bendluð, að hún átti ekki ann-
ars úrkostar, til þess að hætta ekki velferð sinni og alls
ríkisins, en að ganga í berhögg við prinsinn, svo að ekki
yrði um villzt.
Hinn 19. júní skrifaði því Friðrik VI. frænda sínum
mjög harðort og ákveðið bréf. Þegnarnir í Danmörku
máttu ekki ímynda sér, að ríkisarfinn gæti öðrum fremur
leyft sér að óhlýðnast konungi sínum. Því var hann nú
formlega settur af landstjórn, en honum var skipað að
leggja niður konungstign þá, sem hann hafði hrifsað til
sín, og yfirgefa Noreg á hálfs mánaðar fresti. Þennan
hálfa mánuð átti hann að nota til þess að leiða Norðmenn
aftur á rétta braut og til þess að selja vald sitt í hendur
nýjum dönskum umboðsmönnum, sem Friðrik VI. hafði
skipað til þess að taka við af honum, en þeir komust reynd-
ar ekki til þess að rækja starf sitt, meðan Kristján Frið-
rik hélt velli. Ef þessu væri ekki hlýtt, myndi prinsinn
verða dreginn fyrir lög og dóm samkvæmt konungslögun-
um. Bréfinu lýkur á þessa leið:
„Að því er sjálfum Oss viðvíkur, látum Vér það duga,
að senda yðar tign síðustu skipanir Vorar. Það er undir
yðar tign sjálfri komið, hvort Vér getum litið á yður sem
fursta, er sé þess verður síðar meir eftir Vorn dag að
setjast að völdum í Danmörku — eða hvort Vér verðum
að snúa hug Vorum og hjarta frá prinsi, sem full ástæða
er til að telja uppreisnarmann gegn föðurlandi sínu og
konungi".
Kristjáni Friðriki er þá nú gefið í skyn, að hann verði
sviptur erfðarétti, ef hann enn færist undan því að yfir-
gefa Noreg. Þetta fullnægði Bandamönnum. Það var viður-
kennt, að danska stjórnin hefði nú gert það, sem af henni
yrði krafizt, til þess að koma á sameiningu Noregs og
Svíþjóðar. Stórveldin kröfðust þess aldrei, að hótuninni
um að draga Kristján Friðrik fyrir lög og dóm yrði fram-
fylgt, enda var bláber hugsunin um það að höfða sakamál
á móti prinsi af einvaldskonungsætt í rauninni svo bylt-