Skírnir - 01.01.1943, Síða 162
160
Jakob Jónsson
Skírnir
efni. Önnur er eftir Helga biskup Thordersen, hin eftir
séra Pál Sigurðsson, og eiga báðar við 4. sd. í föstu, þar
sem guðspjallið er mettun fimm þúsunda manna.
Hugsanaferill Helga biskups er á þessa leið: Allt, sem
dýrin þurfa með, hefir guð tilbúið í náttúrunni óbreytt,
bæði á jörð og í sjó og vötnum. Flest af því, sem maður-
inn þarfnast, að undanteknum jarðarávexti og vatni, þarf
einhvern undirbúning, áður en hægt er að neyta þess. Er
auðsjáanlega ætlazt til þess, að maðurinn hafi vit fyrir
sér, og sé að umhyggju og atorku dýrunum æðri. „Með
þessu hefir guð lýst yfir því, að vér skyldum neyta vorra
krafta til að hagnýta oss gæði náttúrunnar".1) En til þess
að tryggja framfarir mannanna enn betur, kenndi guð
þeim að bindast félagsskap sín í millum. Svo sterka löngun
til félagsskapar innrætti guð manninum, að „hann lét sér
eigi lynda að vera bundinn við héruð, sveitir eða lönd“, en
„vildi tengja alla menn, sem í heiminum eru, einu bróður-
bandi, og gera alla veröldina að einu sameiginlegu föður-
landi“.2) Þessu takmarki þjónar allur léttir í ferðalögum
og siglingar landa á milli.
Hin langa bernska mannsins, og líkamlegur vanmáttur
hans, í samanburði við önnur dýr, bendir til hins sama,
að honum beri að hagnýta vitsmuni sína og andlega at-
gervi, því að „ándinn er því það, sem veitir mestu yfir-
burðina“. „Þannig“, segir Helgi biskup, „má af sjálfri
náttúrunni ráða, að í tímanlegum efnum ætlast guð til
fyrirhyggju og dugnaðar, í andlegum til skynsamlegrar
þekkingar og guðrækni“.3)
Nú skulum vér hverfa til séra Páls. Hann er að gera
grein fyrir skoðun sinni á því, hvernig skortur á lífsnauð-
synjum verði samræmdur trúnni á algóða forsjón. Hann
talar um dýrslegar þarfir mannsins, sem hann og dýrin
hafa sameiginlegar, og svo aftur mannlegar þarfir fram
yfir dýrin. „Þetta dýralíf, sem vér lifum, er einungis
meðal fyrir annað og æðra líf“. „Höfuðmark og mið for-
sjónarinnar er að láta menn koma fram á jörðinni, menn
í eiginlegum skilningi, gædda vitsmunum, kærleika, krafti,