Bændablaðið - 14.08.2014, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 14.08.2014, Blaðsíða 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. ágúst 2014 Málgagn bænda og landsbyggðar Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 7.200 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.600. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279 Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is og Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Sími: 563 0339 Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is Blaðamenn: Freyr Rögnvaldsson fr@bondi.is – Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður M. Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is Auglýsingastjóri: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is – Sími: 563 0303 – Myndvinnsla og frágangur: Prentsnið. Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621 LEIÐARINN Í liðinni viku fór umræða um upprunamerkingar á kjöti eins og eldur í sinu um netheima. Rangar og villandi merkingar á kjöti urðu til þess að árvökulir neytendur tóku upp myndavélasímana sína og sendu myndir af umbúðunum á samfélagsmiðlana. Innan skamms voru almennir fréttamiðlar búnir að taka málið upp og allir voru að tala um uppruna nautahakks og grísakjötsspjóta, var hann spænskur eða íslenskur? Á sama sólarhringnum kom formaður Neytendasamtakanna fram í fjölmiðlum ásamt niður- lútum forsvarsmönnum kjöt- iðnaðarfyrirtækja og tjáði sig um hinn óljósa uppruna. Allt endaði vel að lokum og sú skýring sem hljómaði hvað víðast var sú að hér væru mannleg mistök á ferðinni. Kjötið hafði verið ranglega merkt og þeir sem báru ábyrgð báðust afsökunar. Athyglin og umtalið sem þetta mál fékk er hið besta mál. Það sýnir að neytendur vilja fá greinargóðar upplýsingar um þann mat sem við kaupum úti í búð eða annars staðar. Ef söluaðilar, framleiðendur eða aðrir standa sig ekki í stykkinu er þeim refsað. Neikvæð umræða spillir viðskiptum og letur fólk til að kaupa vörurnar. Orðsporið er fljótt að fara veg allrar veraldar ef menn verða uppvísir að því að blekkja eða villa um fyrir neytendum Eins og fram kemur í viðtali hér í blaðinu við Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við Háskóla Íslands, skiptir máli hvað fólk lætur ofan í sig. Upplýstir neytendur vilja ekki kaupa köttinn í sekknum. Þeir vilja vörur sem hægt er að treysta. Þess vegna er rík ástæða til að kynna sér upprunann og framleiðsluhætti í viðkomandi framleiðslulandi. Á síðustu mánuðum hafa Samtök atvinnulífsins, Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin unnið sameiginlega að því að útbúa kynningar- og fræðsluefni um upprunamerkingar matvara. Í fyrsta lagi er ætlunin að standa fyrir kynningu inn á við til fyrirtækja og allra þeirra sem standa að framleiðslu matvara. Í öðru lagi verða neytendur hvattir til þess að kynna sér málin í hörgul og gera kröfur um að upprunamerkingar séu í lagi. Þegar nógu margir neytendur láta í sér heyra hljóta menn að hlusta – það á að vera hafið yfir vafa hvað er í kjötpakkanum. /TB Ég vil vita hvað er í pakkanum LOKAORÐIN Íslenska geitin Undanfarnar vikur hafa fjölmiðlar fjallað talsvert um íslensku geitina. Það er vel þótt það komi ekki til af góðu. Stærsta geitabú landsins, sem hýsir tæplega fjórðung stofnsins, á í miklum rekstrarerfiðleikum. Geitfjárstofninn hefur líklega aldrei verið stór og frá fyrstu áreiðanlegu talningu árið 1703 hefur fjöldinn nær alltaf verið innan við 1.000 gripi. Undantekning eru þó árin frá 1914 og fram undir 1940, en stofninn komst í nærri 3.000 gripi árið 1930. Stofnstærð fór lægst undir 100 gripi á síðustu áratugum 19. aldar og aftur árið 1960. Þá hófst sérstök skráning á geitum og komið var á stofnverndarstyrkjum í fyrsta sinn. Eftir það fór geitum að fjölga aftur og í lok árs 2012 voru 849 vetrarfóðraðar geitur til í landinu. Fjölgunin hefur verið stöðug það sem af er 21. öldinni. Geitfjáreign er hins vegar afar dreifð. Hátt í 60% stofnsins samanstanda af 81 hjörð þar sem eru 20 gripir eða færri. Aðeins sjö hjarðir eru með fleiri en 20 geitum og þar af er ein langstærst, eins og framan er nefnt. Meðalfjöldi gripa hvers eiganda er rétt undir 10 gripum. Afurðir geitarinnar eru eftirsóttar Geitabúskapur hefur því miður ekki náð þeirri stærð hérlendis að hann standi undir búrekstri einn og sér. Kjötframleiðsla árið 2013 var ríflega 1,8 tonn alls en ekki liggur fyrir hversu mikið féll til af mjólk eða geitafiðu (þ.e. geitaull). Eftirspurn virðist þó allnokkur, sérstaklega eftir geitamjólk og afurðum úr henni. Framleiðsla er þó líklega enn of lítil til að hún standi undir því magni sem nauðsynlegt er til að þróa og markaðssetja vöru til almennrar sölu. Til þess þarf fleiri og stærri bú. Til samanburðar hefur Norðmönnum tekist ágætlega að byggja undir sína framleiðslu. Þar er lögð mest áhersla á mjólkurframleiðslu og meðalfjöldi gripa á hverju búi er ríflega 100, eða 10 sinnum meira en hér. Á sama tíma eru sauðfjárbú hérlendis að meðaltali meira en tvöfalt stærri en í Noregi. Skylda okkar að varðveita búfjárstofna Við Íslendingar höfum skyldu til þess að varðveita okkar einstöku búfjárstofna. Umfjöllun um geitina undanfarið sýnir að verulegur áhugi er fyrir því á meðal almennings og jafnvel erlendis. Rekstrarvandi einstakra búa er sérstakt úrlausnarefni en það skiptir jafnvel enn meira máli að byggja upp stuðning við geitfjárræktina til framtíðar litið. Starfshópur á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skilað tillögum þess efnis. Bændasamtökin áttu aðild að þeirri vinnu. Í skýrslu hópsins má finna tillögur um aðgerðir bæði til skemmri og lengri tíma. Byggjum upp sterkari undirstöður fyrir geitfjárræktina Í fyrsta lagi er lagt til að auknu fé verði veitt til stofnverndar geitastofnsins með sérstöku framlagi ríkisins. Framlagið verði nýtt til að hækka verulega og afnema takmarkanir á því hversu margar geitur á hverju búi njóta stuðnings (nú er hámarkið 20). Þessi tillaga er hugsuð til að bregðast við bráðasta vandanum og til þess þarf aukið fjármagn. Opinber framlög til landbúnaðarins eru vissulega veruleg en um ráðstöfun allra þeirra fjármuna gilda reglur og ekki er hægt að ráðstafa þeim til verkefna sem ekki er gert ráð fyrir í búvörusamningum og þeim lögum sem þeir byggja á. Stjórnvöld verða því að útvega nýtt fjármagn til stuðnings geitinni ef bregðast á við strax. Til lengri tíma litið leggur hópurinn til að við næstu endurskoðun sauðfjársamnings verði innleitt sérstakt stuðningsform fyrir geitfjárrækt, sambærilegt þeim stuðningi sem veittur verður í sauðfjárrækt. Í stuðningsaðgerðum þarf að vera hvati til þess að geitfjárræktarbú verði af þeirri stærð að vinnsla afurða sé möguleg. Þannig verði reynt að byggja upp styrkari undirstöður greinarinnar. Þá eru í niðurstöðum hópsins nokkrar tillögur til stuðnings markvissara ræktunarstarfi, svo sem með skipulegri uppbyggingu á sæðisbanka með frystu hafrasæði, rafrænni ættbók og auknum rannsóknum á geitastofnunum og afurðum hans. Lagt er til að þær tillögur komi til skoðunar við næstu endurskoðun búnaðarlagasamnings. Það skiptir máli að byggja upp sterkari undirstöður fyrir geitfjárræktina. Það er greinilegur áhugi fyrir því og hann er einnig fyrir hendi hjá samtökum bænda. En minna má á að það eru fleiri stofnar sem við þurfum að varðveita með skipulegum hætti, þó að þeir hafi ekki fengið jafn mikla athygli undanfarið og geitin. Íslenska kýrin, sauðkindin, forystuféð, hesturinn, hundurinn og landnámshænan eru allt erfðaauðlindir sem okkur er skylt að standa vörð um. Gleymum því ekki. /SSS Nýr og glæsilegur keppnisvöllur Hestamannafélagsins Trausta í Laugardal, Grímsnesi, Grafningi og Þingvallasveit var tekinn í notkun fimmtudaginn 31. júlí. Völlurinn er á móts við hjólhýsahverfið við Laugarvatn, hinum megin við veginn. Fjöldi sjálfboðaliða gaf vinnu sína við gerð vallarins, en heildarkostnaður við hann er um átta milljónir króna og er þá átt við efnis- og vélakaup. Skeiðbraut í fullri lengd er á vellinum, auk tilheyrandi hringvalla. „Draumur félagsmanna er að í nágrenni vallarins í framtíðinni rísi þar hesthúsahverfi samkvæmt skipulagi og fjarlægur draumur er auðvitað reiðhöll eða skemma þar sem hægt er að athafna sig við frumtamningar og þegar veður gerast válynd,“ segir Guðmundur Birkir Þorkelsson, formaður Trausta. Völlurinn fékk nafnið Þorkelsvöllur til heiðurs Þorkeli Bjarnasyni heitnum, fyrrverandi hrossaræktarráðunaut á Laugarvatni. /MHH Þorkelsvöllur á Laugarvatni – nýr keppnisvöllur Hestamannafélagsins Trausta Guðmundur Birkir, formaður Trausta, heldur ræðu við vígslu nýja vallarins. Bjarni Þorkelsson, hrossaræktandi á Þóroddsstöðum, og Sigurbjörn Bárðarson dást að nýja vellinum. Bjarni fagnaði einmitt 60 ára afmæli sínu þennan dag. Samhliða vígslunni fór fram gæðingamót Trausta, en hér er Sigurbjörn Bárðarson að keppa á vellinum og sýnir hér hægt tölt. Myndir / MHH

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.