Bændablaðið - 14.08.2014, Blaðsíða 10

Bændablaðið - 14.08.2014, Blaðsíða 10
10 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. ágúst 2014 Radisson Blu hótelunum á Íslandi, Hótel Sögu og 1919, hlotnuðust þrenn verðlaun á World Travel Awards sem haldið var í Aþenu, í Grikklandi þann 2. ágúst síðastliðinn. Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstýra á Hótel Sögu, segir að verðlaunin staðfesti gæði Yes I Can – þjónustunnar sem hótelin leggi sinn metnað í að veita gestum. „World Travel Awards hafa verið veitt árlega frá árinu 1993 en tilgangur þeirra er að viðurkenna og verðlauna framúrskarandi gæði á öllum sviðum ferðaþjónustunnar og WTA er í dag heimsþekkt merki hótela, flugvalla og annarra fyrirtækja í greininni. Radisson Blu 1919 er að vinna „Iceland´s Leading Hotel“ í sjötta sinn en Radisson Blu Hótel Saga fékk verðlaun sem „Iceland´s Leading Business Hotel“ og „Iceland´s Leading Resort“. Hótelin sem voru tilnefnd til verðlaunanna í ár eru öll mjög glæsileg og viðkenningin því kærkomin og sigurinn sætur,“ segir Ingibjörg. /VH Fréttir Radisson Blu á Íslandi hlýtur þrenn World Travel Awards-verðlaun Radisson Blu Hotel Saga. Kokkalandslið Íslands hefur borið hróður íslenskrar matargerðar og matvæla víða um lönd. Formlegur samstarfssamningur við Íslandsstofu er nú í höfn. Mynd / Rafn Rafnsson Kokkalandsliðið kynnir íslenskan mat og matargerð Íslandsstofa og kokkalandsliðið hafa tekið höndum saman og gert með sér samning um að efla kynningu á Íslandi sem áfangastað og íslenskum matvælum á erlendum mörkuðum. Samstarfið mun tengjast markaðsverkefninu „Ísland – allt árið“ og almennri markaðsvinnu fyrir íslenska ferðaþjónustu, segir á vef Íslandsstofu. Samkvæmt samningnum mun kokklandsliðið taka þátt í verkefnum tengdum komu erlendra blaðamanna til Íslands sem og einstökum verkefnum Íslandsstofu á erlendum mörkuðum, líkt og vöru- og sölusýningum. Þá munu matreiðslumeistarar kokkalandsliðsins veita aðgang að uppskriftum til notkunar í þematengdum verkefnum tengdum Íslandi, til dæmis á samfélagsmiðlum. Samkvæmt samningi verður merki Inspired by Iceland á öllu kynningarefni og á fatnaði kokkalandsliðsins. Ferðaþjónusta bænda: 80 til 90% nýting yfir háannatímann Nýting á gistirýmum hjá Ferða- þjónustu bænda hefur verið mjög góð það sem af er árinu enda hefur metfjöldi ferðamanna heimsótt landið. Pöntunum á gistinóttum beint til bænda hefur fjölgað talsvert auk þess sem einstaklingar bóka í auknum mæli sjálfir í gegnum ferðaþjónustuna. „Bókanir hafa verið mjög góðar í sumar og nýtingin milli 80 og 90% yfir háannatímann,“ segir Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda. „Í dag bjóðum við upp á 5.000 uppbúin rúm hjá 185 aðilum um allt land auk margs konar möguleika á afþreyingu.“ Norðurljósin trekkja „Nýtingin hefur verið mest frá seinni hluta júní og út ágúst en undanfarið höfum við orðið vör við talsverða aukningu á haustin og tímabilið er því að lengjast. Á ákveðnum svæðum eins og til dæmis í kringum Jökulsárlón er nýtingin einnig góð á veturna og þá sérstaklega yfir norðurljósatímann frá áramótum og fram í apríl.“ Aukin sala á netinu Ferðaþjónusta bænda er hlutafélag í eigu bænda og starfar að markaðssetningu og sölu á þjónustu fyrir þá. Hlutverk ferðaskrifstofunnar er einkum að bóka gistingu fyrir einstaklinga og hópa ásamt heildarskipulagningu á bílaleigupökkum. Ferðaskrifstofan er í viðskiptum við um 150 ferðaskrifstofur og ferðaheildsala um allan heim. Sævar segist verða var við aukningu á því að bændur bjóði sjálfir gistingu á netinu og að ferðamenn bóki hana þannig. „Netið býður upp á óþrjótandi möguleika og auk þess sem bændur eru sjálfir að selja gistingu í gegnum það hefur salan hjá okkur einnig aukist verulega. Það er enginn bundinn af því að selja eingöngu í gegnum okkur og margir eru í samvinnu við fleiri en eina ferðaþjónustu. Kosturinn við að vera hluti af Ferðaþjónustu bænda felst meðal annars í því að við gerum úttekt á þjónustunni á tveggja ára fresti og tryggjum því ákveðin gæði. Við ábyrgjumst einnig greiðslur á öllum bókunum sem fara í gegnum okkur og borgum stundum fyrir fram á vorin fyrir gistingu á komandi sumri ef lítið er í kassanum hjá gistisölum eftir veturinn.“ Aukin afþreying í boði Sævar segir Ferðaþjónustu bænda sífellt stefna að því að bæta þjónustuna. „Viðskiptavinir okkar koma alls staðar að og ég verð ekki var við að þeir komi meira frá ákveðnum löndum en öðrum. Undanfarið hefur til dæmis orðið mikil aukning í sölu á afþreyingu samhliða gistingu. Göngu- og skoðunarferðir í nágrenni gististaðanna eru mjög vinsælar. Við bjóðum einnig upp á pakka með gistingu og bílaleigubíl og vinsældir slíkra ferða hafa aukist mikið. Auk einstaklingsbókana erum við með stóra hópadeild sem selur erlendum ferðaskrifstofum ferðir og skipuleggur skoðunarferðir og aðra afþreyingu fyrir þær,“ segir Sævar. /VH Sala á afþreyingu hefur aukist samhliða gistingu. Göngu- og skoðunar- ferðir í nágrenni gististaðanna eru mjög vinsælar. Norðurland vestra: Unnið að gerð Fuglastígs Undanfarnar vikur hefur Selasetrið á Hvammstanga leitt verkefni um gerð fuglastígs á Norðurlandi vestra fyrir hönd Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra. Markmið verkefnisins er að undirbúa uppbyggingu fugla- skoðunarstíga á Norðurlandi vestra þar sem ferðamönnum er auðveldað aðgengi að hinum ýmsu fuglaskoðunarstöðum víðs vegar um landshlutann. Ellen Magnúsdóttir líffræðingur var ráðin til verksins og hefur frá því í byrjun júní skoðað vænlega fuglaskoðunarstaði í landshlutanum og kortlagt tegundir á hverjum stað. Á vef Selasetursins segir að verki hennar sé við það að ljúka og í framhaldinu muni verða gert kort af stöðunum ásamt því að sett verði upp heimasíða fyrir stíginn. V e r k e f n i ð er liður í eflingu náttúrutengdrar ferðaþjónustu á svæðinu og er það samstarfsverkefni Selasetursins, Ferðamálafélags V-Hún., Ferðamálafélags A-Hún., Félags ferðaþjónustunnar í Skagafirði, Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum og Náttúrustofu Norðurlands vestra. Verkefnið hófst formlega í lok síðasta árs og verður fyrsta áfanga lokið í lok árs. Verkefnið hlaut styrk frá Vaxtarsamningi Norðurlands vestra. Landeigendur í Vogum í Mývatnssveit takmarka aðgengi að Grjótagjá: Hætta á grjóthruni og slæm umgengni ferðafólks Fyrirhugað er að hefja fram- kvæmdir til að bæta mjög aðstöðu á svæðinu við Grjótagjá í landi Voga í Mývatnssveit. Landeigendur gripu til þess ráðs nýverið að banna böðun og loka hluta svæðisins fyrir almennri umferð. Það var, að sögn Jóhanns F. Kristjánssonar formanns Landeigendafélags Voga, gert annars vegar vegna hættu á grjóthruni í gjánni og hins vegar var umgengni á svæðinu mjög slæm. Hann segir landeigendur telja sig í fullum rétti til að takmarka aðgengi að gjánni, en vonandi sé um tímabundna aðgerð að ræða. „Fólk hefur sótt í Grjótagjá í marga áratugi og við landeigendur höfum ekki haft neitt við það að athuga,“ segir hann. Til aðgerða var hins vegar gripið vegna hættu á grjóthruni og talið að baðgestir væru í hættu af þeim sökum. Borið hefur á því að menn hamist ofan á gjánni og því fylgir hætta á að grjót hrynji ofan í hana og yfir baðgesti. Ekki hafa þó enn orðið slys á fólki af þeim sökum. Landeigendur hafa brugðist við þessu ástandi með því að setja upp skilti þar sem takmarkanir eru lagðar á umferð um svæðið og baðferðir í Grjótagjá. „Það hefur skilað árangri, átroðningur hefur snarminnkað.“ Aukin umferð fylgir verri umgengni Getið er um Grjótagjá í landi Voga á vefsíðum eins og Trip Advisor og eðlilega hafa ferðalangar áhuga á að skoða hana. Aukinni umferð hefur fylgt slæmur umgangur og segir Jóhann að mjög hafi borið á bjórdósum og brotnum flöskum, pappír sem og öðru almennu rusli. „Það segir okkur að fólk er að fara ofan í á kvöldin og um nætur og hefur þá gjarnan áfengi um hönd. Það kann ekki góðri lukku að stýra, menn þurfa að vera allsgáðir þarna ofan í og sýna fyllstu aðgát,“ segir hann. Önnur náttúrugjá er einnig á svæðinu, Vogagjá, og hefur fólk sótt töluvert í hana. „Það hefur aldrei staðið til að almenningur væri að baða sig í þeirri gjá, aðgengi að henni er stórhættulegt, snarbratt ofan í hana og ekki á allra færi að fikra sig þar niður. Við höfum reynt að setja þar upp girðingar síðustu vikur en þær eru rifnar upp jafnóðum og bannskilti fjarlægð,“ segir Jóhann. „Við höfum grun um hverjir hafa verið þar að verki en getum ekki annað en vonast til að þeir sjái að sér og virði tilraunir okkar til að koma í veg fyrir slys.“ Framkvæmdir fyrirhugaðar í haust Landeigendur bættu aðstöðu á svæðinu síðasta sumar, en á komandi hausti er ætlunin að halda framkvæmdum áfram, svo það beri þann fjölda sem inn á það sækir. Fyrst þarf þó að klára og fá samþykkt deiliskipulag. Óljóst er að sögn Jóhanns hvort sótt verður um styrki vegna framkvæmda eða tekin upp gjaldtaka í einhverju formi. Raunar hugnist mönnum sú leið ekki, en vera megi að það sé eina færa leiðina til að standa undir aukinni ásókn og kostnaði sem fylgir. Ólíkir hagsmunir togast á „Það getur farið svo að við neyðumst til að taka upp gjaldtöku inn á svæðið, ef við t.d. verðum að koma upp eftirliti eða vakt,“ segir Jóhann. Aðilar að Landeigendafélagi Voga í Mývatnssveit eru fimm lögbýli og einstaklingar, blandaður hópur, bændur sem stunda búskap eða ferðaþjónustu og eins aðilar sem hvorki stunda búskap á jörð sinni né ferðaþjónustu. „Þarna togast á ólíkir hagsmunir og því eru mismunandi sjónarmið uppi. Vandi af þessu tagi á að mínu mati eftir að aukast á næstu misserum og bændur, landeigendur og sveitarfélög verða að ræða hvernig best er að bregðast við,“ segir hann. /MÞÞ

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.