Bændablaðið - 14.08.2014, Blaðsíða 34

Bændablaðið - 14.08.2014, Blaðsíða 34
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. ágúst 2014 Eygló Gunnlaugsdóttir og maður hennar Reynir Ásberg Jómundsson tóku formlega við búskap á jörðinni Ásthildarholti áramótin 2014. Þá keyptu þau af foreldrum Eyglóar, þeim Gunnlaugi Vilhjálmssyni og Sigrúnu Sigurðardóttir. Áður höfðu þau þó verið með í allri ákvörðunartöku um rekstur búsins og séð alfarið um kynbótastarfið í sauðfjárræktinni síðustu fimm árin. Býli: Áshildarholt. Staðsett í sveit: Skarðshreppi hinum forna í Skagafirði. Ábúendur: Reynir Ásberg Jómundsson og Eygló Gunn- laugsdóttir ásamt heimasætunni Sigrúnu Sunnu. Á jörðinni búa einnig Gunnlaugur Vilhjálmsson fyrrum bóndi jarðarinnar og kona hans Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur. Einnig býr systir Eyglóar, Lilja, maður hennar Valur Valsson og dóttir Ásrún (2011) á landareigninni en þau hafa nýlokið uppgerð á gamla íbúðarhúsi jarðarinnar. Fjölskyldustærð (og gæludýra): Þriggja ára dóttir okkar og bústýra hún Sigrún Sunna. Hundarnir Sunna, íslenskur blendingur, og Lappi, Border Collie og fjárhundur með meiru. Svo eru kettirnir Moli og Snælda. Stærð jarðar? 406 hektarar. Gerð bús? Sauðfjárbú. Fjöldi búfjár og tegundir? 320 vetrarfóðraðar kindur og um 20 hross til að smala lopapeysunum (eins og bóndinn kallar það). Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Mjög misjafnt eftir árstíðum. Nú er heyskapur aðalmálið, ásamt öðru tilfallandi eins og girðingarvinnu og tiltekt. Á veturna er farið í fjárhúsin kvölds og morgna til gegninga, en bæði Reynir og Eygló vinna fulla vinnu utan búsins og því geta dagarnir verið langir. Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Sauðburðurinn er tvímælalaust skemmtilegasta bústarfið þegar vel gengur og eins að sjá lömbin þegar þau koma af fjalli, en þau leiðinlegustu eru almennar gegningar á snjóþungum vetrum og þegar illa gengur, til dæmis vegna vélabilana. Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir 5 ár? Áframhaldandi uppbygging húsa með bættri vinnuaðstöðu og vonandi búið að fjölga búpeningnum. Hvaða skoðun hafið þið á félagsmálum bænda? Þau eru í réttum farvegi, en eins og annars staðar er alltaf pláss fyrir úrbætur og þarf ávallt að hafa vakandi auga fyrir nýjum og betri lausnum. Þarf m.a. að tryggja og auðvelda nýliðun bænda sem eru að reyna að komast inn í greinarnar. Hvernig mun íslenskum landbúnaði vegna í framtíðinni? Íslenskur landbúnaður mun blómstra ef rétt er haldið á spilunum, svo framarlega að við göngum ekki inn í ESB. Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara? Á flytja út á litla en dýra markaði þar sem íslenskar vörur geta haldið sinni sérstöðu og íslensk framleiðsla ræður við. Hvað er alltaf til í ísskápnum? Smjör, skagfirskur Sveitabiti, lýsi, mjólk, egg og AB súrmjólk. Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Svar heimasætunnar er tvímælalaust grjónagrautur og skyr, en ætli fullorðna fólkið taki ekki grillaða folaldakjötið með öllu tilheyrandi fram yfir það. Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þegar maður sá loks árangur áralangrar vinnu í kynbótastarfinu þegar fyrstu lömbin skiluðu sér í efsta gæðaflokk í haustslátrun. Einnig þegar við tókum formlega við rekstrinum. Líf og lyst BÆRINN OKKAR Ærinnralæri með íslenskum jurtum Gott ærkjöt stendur alltaf fyrir sínu. Það er bragðmikið og með réttri eldun vekur það alltaf góða lukku í veislum. Nú er um að gera að nýta sér þær fjölbreyttu kryddjurtir sem vaxa í íslenskri náttúru og leyfa hugmyndafluginu að ráða við kryddun kjötsins. Með kjötinu er síðan kjörið að útbúa bragðgóða sósu. Fyrir 4 › 800 g ærinnralæri › 1 dós maltöl (soðið niður um ¾) › 2 msk. hunang › Krydd: Blóðberg, hvönn, birkilauf, te › 1 stk. ristuð sellerírót › safi úr 1 sítrónu › 2 marin hvítlauksrif og 50 ml ólífuolía Aðferð Innralæri kryddað. Kryddið með íslensku te sem inniheldur, birki, hvönn og blóðberg eða öðru kryddi, helst kvöldið áður. Fyrirtækið Íslensk hollusta er með tilbúið bragðgott te sem er tilvalið sem krydd. Það er líka hægt að tína fersk krydd úti í náttúrunni eða nota það sem ræktað er heima við. Grillið á vel heitu grilli í tvær mínútur á hvorri hlið eða þar til kjötið er orðið fallega brúnt. Kryddið með salti og pipar og ögn af hvítlauk í ólífuolíu. Lækkið þá hitann á grillinu eða hækkið grillgrindina og grillið í 8-10 mín. í viðbót. Passið að snúa kjötinu reglulega á meðan. Penslið með niðursoðnu maltöli með ögn af hunangi, látið hvíla. Setjið á fat með kartöflum að eigin vali eða jafnvel grillaðri sellerírót sem er búið að pensla með olíu. Hana þarf að grilla þar til hún er hálfelduð í gegn, þá er hún skorin í þunna strimla og borðuð eins og hrásalat með ögn af salti og sítrónu og hvítlauksolíunni góðu. Vorlauks engifer- og sveppasósa › 150 g sveppir › 1 lítið knippi vorlaukur › 250 ml rjómi › 1 msk. smjör › 1 cm engifer › salt og pipar › ferskur graslaukur Stilkur af vorlauk og sveppir saxaðir smátt. Steikt á pönnu með smjöri í nokkrar mínútur. Rjóma bætt við og þegar suða kemur upp er slökkt undir og hrært í sósunni. Saltað og piprað eftir smekk. Rífið ferskan engifer og fínsaxaðan graslauk í sósuna (best er að taka hýðið af engifernum áður með skeið, það er auðveldlega skafið af). MATARKRÓKURINN – BJARNI GUNNAR KRISTINSSON MATREIÐSLUMEISTARI Sigrún Sunna á hestinum Hilmari. Eygló, Reynir og Sigrún Sunna. Ásthildarholt

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.