Skírnir - 01.01.1973, Blaðsíða 53
SKÍRNIR
HVAR ERU ÞÍN STRÆTI?
51
fundar viö hann. Frá því er greint hversu þessi gamli vinur kemur
hinum fyrir sjónir, svo og myndir sem hann hefur málað í einver-
unni og afhjúpa sálarstríí) hans. Verður nú bert að þessi maður er
orðinn geðsjúkur, og er samverustund þeirra vinanna lýst meló-
dramatískt og dularljóma brugðið yfir sviðið. Ekkert minnir þar
hið minnsta á Sorg, hvorki efnið né stíllinn, og ekkert er þar heldur
sem bendir til raunverulegra atvika, þetta riss ber öll einkenni
hreinnar hugsmíðar.
Toldberg lætur alveg ósagt, með hvaða rökum hann tengir Sorg
þessu ófullgerða prósaljóði. Þó svo að sálsýki hefði gripið einhvern
ónefndan vin skáldsins og Sorg lýsi, óbeinlínis, áhrifum þeirrar
vitneskju á Jóhann — eins og Toldberg segir fullum fetum — þá fer
því víðs fjarri að „notesb0gerne“ styðji þá ályktun að maðurinn
hafi verið „en dansk gr0nlandsmaler“. Ég hygg raunar, þar til ann-
að kemur upp, að hinn ónefndi maður í skýringu Toldbergs á ljóð-
inu sé tilbúningur, hvernig sem í honum liggur.
Það má rétt vera, að enginn sé reiðubúinn að bera fram „endan-
lega skýring“ á Sorg, en svo er um margt í skáldskap og listum og
í lífinu sjálfu, að „endanlegar skýringar“ láta á sér standa, ef þær
eru þá blátt áfram til. En fyrr má skýra en fullskýrt sé. Og Sorg á
ekki heima með þess konar ljóðum sem aðeins eru, en merkja ekk-
ert. Ef svo væri, þarfnaðist það vissulega engrar skýringar, því
það sem enga merkingu hefur, býður ekki upp á ráðningu, það ligg-
ur í hlutarins eðli.
Enda þótt Sorg standi einstök í Ijóðagerð Jóhanns Sigurjóns-
sonar, formfræðilega skoðuð, bundin biblíulegum stíl og minnum
úr ritningunni, þá hvílir Ijóðið samt í miðjum hugmyndaheimi
skáldsins og birtir hann, þá póla tvo sem á honum eru: líf - dauða,
lífsþorsta - biturleika dauðans. Nánar sagt lýsir það þeirri stund
þegar „fögnuður hjarta vors er þrotinn, gleðidans vor snúinn í
sorg“. (Harmljóðin 5, 15). En þetta þarf ekki að merkja að sú
stund hafi verið runnin upp í lífi Jóhanns Sigurjónssonar sjálfs, þá
er hann orti ljóðið, heldur fjallar það um komu hennar í eðli sínu,
umskiptin sem þá verða frá fögnuði til sorgar, frá lifi til sorgar
(sbr. niðurlagslínurnar); þetta tvennt skiptist á sífelldlega - stjörn-
urnar fæða nýtt líí og nýja sorg á víxl, er þær hrynja gegnum tím-
ann í dropatali.