Skírnir - 01.01.1973, Blaðsíða 273
SKIRNIR
RITDOMAR
271
an kveðskap fram á 12. öld og geti því ekki verið Gísli Súrsson, en hins vegar
að hvort tveggja, vísur og saga, sé verk sama höfundar. Þótt ekki verði bornar
brigður á sögulega tilvist Gísla, sé vafasamt, að hann hafi verið skáld.
Hér skal ekki lagður dómur á þessar niðurstöður, einungis bent á, að flestir
fræðimenn munu nú aðhyllast þá skoðun, að vísur Gísla sögu séu yngri en at-
burðir hennar eiga að vera, en hitt hefur verið dregið í efa, að þær geti verið
frá 13. öld eins og sagan. Síðan ritgerð GTP birtist fyrst (1944), hefur Peter
Foote ritað um þetta efni (Notes and an Essay on the Saga of Gisli) og bent á
fjölda orða og orðasambanda í vísunum, sem virðast einkennandi fyrir 12. ald-
ar íslenzku. Svipuð var niðurstaða Björns K. Þórólfssonar um endanlegt forrn
vísnanna (Islenzk fornrit VI). Sé þetta rétt, hljóta býsna mikil drög að sög-
unni að hafa verið til á 12. öld annaðhvort munnleg eða skrifleg.
Rannsókr.araðferð sú, sem GTP beitir í þessari ritgerð (og raunar fleirum
í bókinni) byggist á samanburði rita. Má segja, að hér komi bæði kostir og
gallar samanburðaraðferðarinnar allvel í Ijós. Með þvf að nota hana er unnt
að sýna áhrif eins verks á annað, afla vitneskju um vöxt og þróun bókmennta,
útbreiðslu hugmynda o.s.frv. En aðferðin er ekki til þess fallin að skýra hina
innri gerð hvers verks og meta „áhrif“ hinna einstöku efnisatriða á önnur í
sama riti, kanna sérleik þess. Af þeim sökum er einatt hætta á, að könnuður-
inn einangri ákveðin fyrirbæri verksins og leiti að hliðstæðum þeirra í öðrum
verkum og skýri þau án tillits til þeirrar heildar, sem þau eru hluti af. Þessu
bregður fyrir hjá GTP, enda þótt hann beiti samanburðaraðferð af meiri skyn-
semi en flestir aðrir. Skal ég nefna tvö dæmi.
GTP telur aðstöðu Þórdísar Súrsdóttur sambærilega við kringumstæður
Guðrúnar Gjúkadóttur, þegar bræður hennar höfðu drepið Sigurð. Hann segir:
„Guðrún had no greater reason to love her brothers than Þórdís had to love
Gísli. Gunnar and Högni had caused the death of Guðrún’s first husband, Sig-
urðr, just as Gísli had caused Þorgrímr’s death.“ Þrátt fyrir þetta skiptir í
tvö horn um atferli þeirra Guðrúnar og Þórdísar. Guðrún olli dauða manns
síns og sona til að hefna hræðra sinna, en Þórdís tók mágsemdina fram yfir
ættarböndin og afhjúpaði bróður sinn til að koma fram hefndum eftir Þorgrím.
Gísli skýrir breytni systur sinnar (12. vísa) með því að bera saman ólíkt skap-
lyndi þeirra Guðrúnar, og má það vera eðlileg skýring frá sjónarmiði hans. En
eigi að síður er hún alls ófullnægjandi ritskýring, og vekur furðu, að GTP
skuli ekki komast lengra en árétta hana. Orsökin virðist vera sú, að hann
kippir þessu atriði út úr samhengi sínu í Gísla sögu og skýrir það með sam-
anburði við önnur bókmenntaverk. Þótt það sé í sjálfu sér sambærilegt við
minningarnar um Guðrúnu Gjúkadóttur, eru önnur atvik í sögu Þórdísar það
ekki, en einmitt í þeim liggja rökin fyrir atferli hennar. Hvað sem um skap-
lyndi þessara kvenskörunga má segja, þá voru forsendur þeirra ólíkar. Lítum
nánar á. Ekki þekki ég heimildir um það, að þeir Gunnar og Högni hafi drepið
ástmenn fyrir Guðrúnu utan bónda hennar, en hins vegar hafði Gísli gengið
hart fram í að eyða þeim mönnum, sem leitað höfðu eftir ástum Þórdísar. Fyrst
vó hann Bárð, æskuunnusta hennar, þá Hólmgöngu-Skeggja, sem hafði beðið