Tölvumál - 01.11.2015, Qupperneq 25
25
Frá því að verkfræði varð til sem sérstök faggrein á 19. öldinni og fram
yfir miðja 20. öld, byggði kennsla verkfræðigreina á hagnýtri nálgun.
Helstu kennarar í faginu voru verkfræðingar með mikla reynslu af rekstri
eða hönnun sem fóru inn í háskólana og miðluðu af reynslu sinni til
næstu kynslóðar. Á sjötta áratug síðustu aldar hófst sú þróun að lögð
var aukin áhersla á vísindalegar undirstöður verkfræðinnar. Þetta varð til
þess að tækniþróun fleygði fram en þýddi um leið að tengingin við
iðkendur í faginu minnkaði, þar sem minna varð um að kennarar hefðu
unnið í iðnaði, en sífellt fleiri lögðu stund á rannsóknir.
Við menntun verk- og tæknifræðinga takast gjarnan á tvö sjónarmið
sem bæði eiga rétt á sér. Nemendur þurfa sannarlega að innbyrða
sívaxandi magn vísindalegrar þekkingar til að verða góðir sérfræðingar.
Hins vegar þurfa þeir að ná yfirsýn yfir uppbyggingu flókinna kerfa,
tengja fræðin við praktíkina og hafa samskiptafærni til að ná árangri í
hópavinnu með öðrum sérfræðingum. Vinnuveitendur hafa þær
væntingar að verkfræðingar og tæknifræðingar séu góðir í samskiptum
og ráði við að greina flókin verkefni, bera kennsl á aðalatriði og skorður,
hanna hagnýtar lausnir og koma þeim í framkvæmd og rekstur. Þessa
hæfni er æskilegt að nemendur öðlist á meðan á skólagöngu stendur.
Á tíunda áratug síðustu aldar fengu kennarar við verkfræðideildir tveggja
virtra háskóla, MIT og Chalmers, skýr skilaboð frá samstarfsfyrirtækjum,
m.a. Boeing flugvélaverksmiðjunum og Volvo bílaverksmiðjunum, um
að ungir verkfræðingar sem skólarnir útskrifuðu réðu ekki við einföld
verkfræðileg viðfangsefni. Þótt þeir kynnu fræðin þá réðu þeir ekki við
raunhæfar lausnir, hagnýta hönnun né hópvinnu. Fyrirtækin kvörtuðu
undan því að það tæki óásættanlega langan tíma að kenna nýút-
skrifuðum nemendum að að vinna. Prófessorar við skólana ræddu
þetta sín á milli og hófu samstarf um hvernig bæta mætti tæknimenntun.
Samstarfsnetið hlaut nafnið „The CDIO initiative“ þar sem CDIO er
skammstöfun fyrir „Conceive, Design, Implement and Operate“, sem
útleggst á íslensku sem Hugmynd, hönnun, framkvæmd og rekstur, sjá
www.cdio.org
Stofnun CDIO árið 2000 var svar við áhyggjuröddum atvinnulífsins, en
meðal þess sem þátttaka í CDIO felur í sér er árangursmiðað samráð
háskóla og hagsmunaaðila á borð við atvinnulíf og fagfélög. Mótun
námsbrauta í anda CDIO á að tryggja að nemendur fái þessa
lausnamiðuðu verkfræðilegu færni sem vinnuveitendur sækjast eftir, án
þess að slegið sé af fræðilegum kröfum.
Í dag eru um 70 háskólar frá öllum heimshornum þátttakendur og vinna
þeir kerfisbundið að því að bæta skipulag námsbrauta og þróa
námsbrautir í verkfræði og tæknifræði með áherslu á þarfir atvinnulífsins.
Háskólarnir í CDIO netinu hafa í sameiningu mótað ramma sem nýta má
við að þróa námsbrautir þannig að nemendur fái djúpa fræðilega
þekkingu í verkfræðilegu samhengi, og öðlist á sama tíma hæfni til að
fylgja verkefnum eftir frá hugmynd og hönnun yfir í framkvæmd og
rekstur. Lögð er áhersla á kennslu í litlum hópum, verklega kennslu,
tengingu námsins við atvinnulífið og lærdómsferli nemandans frá
frumhugmynd allt til verkloka. Mótun námsbrauta samkvæmt þessari
hugmyndafræði tryggir að nemendur fá þessa lausnarmiðuðu
verkfræðilegu færni sem vinnuveitendur sækjast eftir, án þess að slegið
sé af fræðilegum kröfum. Yfirlýst markmið samstarfsskólanna er að
mennta nemendur sem:
• Hafa djúpa þekkingu á fræðilegum undirstöðum verkfræðigreina
• Geta verið leiðandi í sköpun nýrra vara og rekstri nýrra ferla og
kerfa
• Skilja mikilvægi rannsókna og tækniþróunar fyrir samfélagið
Háskólinn í Reykjavík (HR) gerist aðili að CDIO samstarfsnetinu
Tækni- og verkfræðideild HR er aðili að samstarfsneti um að þróa og
bæta kennslu í verkfræði og tæknifræði, CDIO (Conceive, Design,
Implement, Operate). Fyrirkomulag kennslu við tækni- og verkfræðideild
HR hefur frá upphafi fylgt hugmyndafræði CDIO að nokkru leyti en frá
2013 hefur verið unnið að því að rýna nám við deildina og taka með
formlegri hætti mið af markmiðum og gæðakröfum CDIO. Samstarfs-
netið hefur skilgreint áhersluatriði sem eiga að gera háskólum kleift að
ná settum markmiðum í námi og kennslu, 12 „boðorð“ (The 12 CDIO
Standards) og er nú unnið að innleiðingu þeirrar aðferðafræði við
námsbrautir HR í verkfræði og tæknifræði.
CDIO – HUGMYNDAFRÆÐI
Í MENNTUN VERK OG
TÆKNIFRÆÐINGA
Ingunn Sæmundsdóttir, dósent og forstöðumaður grunnnáms, Tækni- og
verkfræðideild Háskólans í Reykjavík