Skólavarðan - 01.09.2005, Blaðsíða 3
3
FORMANNSPISTILL
SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 5. ÁRG. 2005
Það hefur varla farið fram hjá neinum að í haust hafa síður dag-
blaðanna verið þaktar auglýsingum frá leikskólum. Það er ekki
í fyrsta skipti sem skólastjórar í leikskólum standa frammi fyrir
því að illa gengur að ráða kennara og annað fólk til starfa. Allt
of stór hluti starfsmanna leikskóla er leiðbeinendur sem margir
staldra stutt við og því er vandinn jafn mikill og raun ber vitni.
Af þessum sökum hefur þurft að skerða þjónustu við börn og
foreldra í mörgum leikskólum í Reykjavík og nágrannasveitar-
félögum og sér ekki fyrir endann á því.
Nú sem endranær vekur þessi staðreynd athygli og hafa fjöl-
miðlar gert málinu nokkur skil á undanförnum vikum. Hver stjórn-
málamaðurinn á fætur öðrum er dreginn að hljóðnemanum til
að ræða vandann og svara fyrirspurnum um orsakir og hvað sé
til úrbóta. Þar hamast þeir við að ásaka hver annan um aðgerða-
og stefnuleysi í leikskólamálum og á þetta sérstaklega við um
Reykjavík. Umræðan ber keim af því að kosningar eru á næsta
leiti, minnihluti og meirihluti saka hvor annan um vandræða-
gang og rangar áherslur.
Þessi umræða hefur að mati undirritaðrar verið afskaplega
einlit, metnaðarlaus og vægast sagt leiðinlegt pólitískt þras.
Enginn stjórnmálamaður þorir að viðurkenna umbúðalaust í
hverju vandinn liggur. Sennilega er ástæða þess ótti við að þurfa
að standa við orð sín eftir næstu kosningar. Þeir minnast jú á
þensluna margumtöluðu og kenna ríkisvaldinu um! Ódýr afsökun
sem allt leikskólafólk hristir höfuðið yfir og veit að er ekki rót
vandans.
Það vita allir sem til þekkja að aðalvandinn liggur í því að
launin standast ekki samanburð. Þegar hörð samkeppni er um
vinnuafl verður sá undir sem verst býður kjörin, það er ekki flókið
að skilja það. Þeir sem ábyrgðina bera þurfa að spyrja sig þeirrar
spurningar hvort þetta sé sæmandi þjóð sem vill státa sig af því að
leikskólinn sé fyrsta skólastigið og þar hefjist formleg menntun
barna. Vonandi svara þeir spurningunni neitandi og aðhafast
í málinu svo að til bóta verði til frambúðar. Skóli er ekki bara
hús, skóli er vinnustaður þar sem starfsemin snýst um fólk, þ.á m.
ung börn sem eru afar viðkvæm fyrir breytingum og óvissu. Þess
vegna er mjög mikilvægt að stöðugleiki ríki og sem minnst sé um
rask og mannabreytingar.
Við stjórnmálamenn vil ég segja: Tvennt þarf að gera.
Annars vegar átak í því að fjölga leikskólakennurum þar sem rót
vandans liggur í því hve margir starfsmenn eru ófaglærðir og
starfa tímabundið. Hins vegar þarf að muna það næst þegar sest
verður að samningaborði að laun kennara og annarra sem starfa
í leikskólum þarf að leiðrétta og það verulega.
Við leikskólastjóra, leikskólakennara og annað starfsfólk leik-
skóla vil ég segja: Þið eruð hetjur og eigið hrós skilið fyrir að
takast á við það álag og áreiti sem þessu fylgir. Það eruð þið sem
takist raunverulega á við vandann og standið daglega frammi
fyrir börnum og foreldrum sem treysta á leikskólann.
Það er tími til kominn að stjórnvöld grípi til aðgerða og komi
þannig í veg fyrir að ófremdarástand ríki í fjölda leikskóla á
hverju einasta hausti. Eiga leikskólabörn það ekki skilið?
Björg Bjarnadóttir
Leikskólakennarar óskast