Skólavarðan - 01.09.2005, Blaðsíða 29

Skólavarðan - 01.09.2005, Blaðsíða 29
29 SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 5. ÁRG. 2005 „Einsetning grunnskólans“ er sú kennisetning sem hljómaði hvað háværast í eyrum mínum og jafn- aldra minna á ungdómsárum. Ég held að stjórnmálamenn allra flokka hafi aldrei verið jafn sammála um nokkuð og þetta slagorð og eru þá kærleiks- boðorðið og gullna reglan ekki undanskilin. Mikið fannst mér þetta líka hljóma vel, þar til ég kynntist skuggahliðunum. Skuggahliðarnar eru tvær helstar. Sú fyrri er að einsetning grunnskólans kemur námshagsmunum og velferð nemenda lítið við en kemur þeim mun meira við hagsmunum hinna fullorðnu, ekki síst atvinnurekenda. Það er ómögulegt að sjá að börnin hafi hag af því að vera öll í skólanum á sama tíma, heldur er líklegra að þrengsli og takmarkaðri aðgangur þeirra að tækjum skólans sé þeim í óhag. Hin hliðin, og ekki síður skuggaleg, er sú að einsetningin veldur því að húsnæði grunnskólans er gjörnýtt fyrri hluta dags en húsnæði tónlistarskóla, íþróttafélaga og félagasamtaka gjörnýtt seinni hluta dags og fram á kvöld. Á öðrum tímum er vannýting á aðstöðu beggja. Það er nemendum mjög í óhag að þurfa að berjast um tíma og pláss og vera að störfum langt fram eftir kvöldi. Undanfarið hefur námshraði verið mikið til umræðu. Að manni læðist sá grunur að hér sé að fæðast ný kreddukennisetning í menntamálum. Þá er ég ekki að tala um hversu fljótur hver og einn er að læra heldur hversu hratt hann kemst í gegnum framhaldsskóla, lýkur stúdentsprófi og fer að sérhæfa sig í ákveðnum greinum. Menn benda á Tævan og hin og þessi ríki þar sem fólk lýkur háskólanámi áður en unglingabólurnar eru grónar. Þetta þykir sumum voða fínt, skilvirk framleiðni í skólakerfinu og fólk orðið allskyns fræð- ingar og verðmæti á vinnumarkaðnum mörgum árum á undan jafnöldrum sínum á Íslandi. Auðvitað er þetta sjónarmið. Það byggist á þeirri hugmynd að menntun sé fyrst og fremst, og jafnvel aðeins, tæki til að framleiða verðmæta starfskrafta á sem hagkvæmastan hátt. Fyrir mitt leyti verð ég að segja að mér finnst sú tilhugsun að þessi sjónarmið verði ofan á beinlínis óhugnanleg. Framhalds- skólaárin eru í mínum huga gullin ár þar sem fólk hefur tíma til, í vernduðu umhverfi, að prófa hluti í félagslífi og fjölbreyttum námsgreinum fyrir þær sakir að eðlilegt þykir að ljúka námi á fjórum árum. Þeir sem áhuga hafa á, og getu til, geta lokið stúdentsprófi á skemmri tíma og þó nokkrir gera það. Mér datt það ekki í hug, til þess fannst mér of gaman í skólanum og kannski hafði ég ekki vitsmuni til þess. Einhverjum þykir sjálf- sagt engin ástæða til að halda fólki inni í rándýrum skólum bara til að skemmta því, enda er engin ástæða til þess. Út úr þessum framhaldsskólaskemmtilegheitum, félagslífi og fíflagangi koma iðulega einstaklingar með opinn huga og mikið hugmyndaflug sem er stórkostleg auðlind á margan hátt og mjög mikilvægur þáttur í að skapa efnisleg gæði sem og önnur. Ég stundaði nám á tónlistarbraut til stúdentsprófs við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Á seinni hluta námsins fékk ég æði fyrir líffræði og tengdum greinum. Þar opnaðist fyrir mér nýr heimur og minnstu munaði að ég veldi líffræði umfram tónlist. Mér eru sérstaklega minnisstæðir tveir áfangar sem ég tók í þessu æði mínu og þurfti alls ekki að taka. Þetta voru erfðafræði 103 og líf- og lífeðlisfræði 103. Sá síðarnefndi var sérstaklega mikilvægur þar sem að hann snýst um mannslíkamann og starfsemi hans. Þessi áfangi hefði átt að vera algjör skylda á öllum brautum því að þarna komst maður að því, nítján ára gamall, að maður vissi ekki einu sinni hvernig piss verður til. Að vísu er ég nú eiginlega búinn að gleyma því núna en mikið var gott að vita það á sínum tíma. Ég er viss um að fjölmargt fólk með stúdentspróf hefur aldrei vitað hvernig piss verður til. Á hinn bóginn var maður neyddur í einhverja vektorastærðfræði sem ég er löngu búinn að gleyma og fékk enga ánægju út úr að kunna þann stutta tíma sem á því stóð. Í stærðfræði vilja ýmsir herða enn tökin og virðast telja hana móður allra vísinda og merkilegasta greina. Ég leyfi mér að fullyrða að stærðfræði er sú grein sem nýtist fæstum í hlutfalli við kennslumagn og gleymist helst án þess að nemandinn sjái nokkru sinni tilganginn með að læra hana. Tungumálum er gert hátt undir höfði í íslenskum skólum enda er kennsla í þeim algjörlega nauðsynleg lítilli þjóð með forna tungu. Listum er á hinn bóginn ekki sinnt sem skyldi í grunnskólum og æpandi lítið sem ekkert í framhaldsskólum. Lögboðin kennsla í tónmennt fer mjög víða ekki fram vegna skorts á kennurum til starfans og þykir ekki stór synd. Við erum jú bara að tala um drottningu listanna og eitt helsta tjáningarform mannsins. Ég er hræddur um að skortur á stærðfræðikennslu yrði ekki liðinn með sama hætti enda stærðfræðin mikilvæg, ekki skal neita því, en hvort er í raun mikil- vægara? Framhaldsskólarnir útskrifa í löngum röðum stúdenta sem kunna ekki skil á helstu hugtökum listanna og þekkja ekki nöfn helstu listamanna sögunnar hvað þá verk þeirra. Þeir útskrifa langar raðir stúdenta sem hamast við að gleyma vektorafræðinni hafi þeir ekki gleymt henni þá þegar. Það má alls ekki skilja mig sem svo að mér sé eitthvað sérstaklega uppsigað við vektora. Fjarri fer því. Sann- færing mín er amt sú að vektorar ættu að tilheyra sérhæfingu en lágmarksþekking á listum ætti að vera skylda. Það er mín skoðun að fólk sem nær stúdentsprófi eigi að kunna skil á helstu listamönnum sem mannkynið hefur alið. Framhaldsskóli sem útskrifar stúdenta sem þekkja ekkert til Mozarts, Michelangelos og Dostojevskís hefur að mínu mati brugðist hlutverki sínu. Slíkur skóli er þekkingarveita en ekki menntastofnun. Einhverjum þykir þetta kannski snobbað viðhorf en svo er alls ekki ef betur er að gáð. Að kunna skil á heim- inum sem við lifum í og hafa þekkingu á fjölbreytilegustu hlutum, þó að lítil sé, er ákaflega mikilvægt. Án slíkrar þekkingar er hætt við að stór hluti heimsins og gæða hans fari fram hjá fólki óskoðuð. Gunnar Kristmannsson Höfundur er skólastjóri Tónlistarskóla Grindavíkur „Einsetningartrú“ og mikilvægi námsgreina SMIÐSHÖGGIÐ Gunnar Kristmannsson Lj ós m yn d fr á hö fu nd i

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.