Skólavarðan - 01.09.2005, Blaðsíða 13

Skólavarðan - 01.09.2005, Blaðsíða 13
13 SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 5. ÁRG. 2005 Í maímánuði 2004 tók Ólafur Loftsson við formennsku í Kennarafélagi Reykjavíkur. Ekki er hægt að segja að Ólafur hafi fengið að kynna sér nýja starfið í rólegheitum. Fyrir dyrum stóð harðvítug kjarabarátta, sjö vikna verkfall með hausti, lagasetning á grunnskólakennara sem lyktaði með hálfgerðum neyðarsamningum og mörgum þungt í sinni. Á aðal- fundi Félags grunnskólakennara síðastliðið vor, með hækkandi sól en jafnframt í skugga atburða undangengins vetrar, var Ólafur svo kosinn formaður þessa stærsta aðildarfélags Kennarasambandsins. Ólafur ólst upp í Svíþjóð fram á fimmta aldursár. Faðir hans, Loftur Ólafsson tannlæknir, var þar við nám og bjó fjölskyldan bæði í Stokkhólmi og norður í Lapplandi. Móðir Ólafs er Hrafnhildur Höskuldsdóttir. „Ég man lítið eftir þessum árum,“ segir Ólafur, „en það hefur stundum hvarflað að mér að fara til Svíþjóðar og dvelja þar í mánuð eða svo og athuga hvort málið komi ekki aftur. Skólasálfræðingur sagði mér eitt sinn að við notuðum aðferð í bernsku til að geyma upplýsingar á borð við málakunnáttu sem við hefðum svo ekki lykilinn að á fullorðinsárum, en með því að fara aftur til landsins ætti þetta að opnast fyrir manni.“ Eftir heimkomuna kynnti Ólafur sig gjarnan sem Olof Palme fyrir fólki, „enda frægur maður, Palme, og mér þótti þetta víst við hæfi á þeim tíma.“ Fjölskyldan flutti á Bergstaðastræti 72, heimili móðurafa hans og ömmu. Leiksvæði Ólafs í bernsku var á slóðum Kennarahússins og Landspítalans, sem þá var í byggingu. „Kennarahúsið var draugahúsið í hverfinu. Við lékum okkur oft á lóðinni, þar var nokkurs konar upphækkuð skeifa með rifsberjatrjám sem þótti mjög góð sem virki í byssuleik. Á sumrin var ég svo í sveit undir Eyjafjöllum og undi mér vel. Mér finnst dýrmætt að hafa verið í sveit, það er talsverð sveitarómantík í mér en hún tengist ekki húsdýrahaldi. Það er óhætt að segja að það blundar ekki bóndi í mér og djúpt á framsóknartauginni. En mér hefur alltaf fundist gott að vera úti í náttúrunni.“ Engan sérstakan áhuga á námi ... Ólafur var í Austurbæjarskóla en sótti um nám við Menntaskólann í Reykjavík að því loknu. „Ég hafði að vísu engan sérstakan áhuga á námi en þetta gerðu allir og MR var hverfisskólinn minn. Þeir urðu því að taka á móti mér þótt einkunnirnar væru ekki glæsilegar.“ Fyrstu árin í menntó vann Ólafur á sumrin á Úlfljótsvatni. „Í sumarbúðunum kviknaði áhugi minn á barna- og unglingastarfi. Það er athyglisvert að margir fyrrverandi skátafélagar mínir í Landnemum hafa síðar farið í uppeldisgeirann. Skátahreyfingin var mikil uppeldisstöð fyrir kennara og fleiri í skyldum störfum.“ Samhliða menntaskólanáminu starfaði Ólafur með Hjálparsveit skáta í Reykjavík af miklum krafti og átti það hug hans allan. Hjálparstarfið kom niður á náminu og Ólafur var að sjálfsögðu kallaður á teppið fræga hjá Guðna heitnum Guðmundssyni. „Rektor tók mig einu sinni á teppið og hundskammaði mig fyrir slælegan námsárangur. Hann lét mig standa úti í horni lengi vel, steinþagði sjálfur og ég átti að þegja sömuleiðis, sem ég og gerði. Loks rýfur hann þögnina og segir: „Ólafur. Hvern djöfulinn eruð þér að leita að öðru fólki þegar þér finnið ekki sjálfan yður!“ Viðtal við Ólaf Loftsson formann Félags grunnskólakennara Sóknarfæri framundan KYNNING FORYSTUMANNA

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.