Skólavarðan - 01.03.2006, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.03.2006, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL SKÓLAVARÐAN 2.TBL. 6. ÁRG. 2006 Undanfarnar vikur hafa samkomulagspunktarnir tíu, sem KÍ og ráðuneyti skrifuðu undir, verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Háværar raddir heyrast um að með þessu hafi KÍ samið af sér og samþykkt skerðingu náms til stúdentspróf. Þegar ljóst var að hugmyndir um „styttingu náms til stúdentsprófs“ lágu fyrir ákvað KÍ að leggja málinu lið, hafa áhrif á atburðarásina og hvernig að framkvæmdinni yrði staðið. Geta jafnframt þokað að einhverju leyti fram þeim málum, sem vissulega er líka barist fyrir á vegum samtakanna, svo og að fá því framgengt að seinka framkvæmdinni. Það var samþykkt og fyrri áformum um að hefja aðgerðir styttingar með nýrri námskrá í 8. bekk haustið 2006 hefur nú verið frestað um ár, áður var búið að fresta áformum í framhaldsskólum um ár. Gefst því tími til að vinna betur að undirbúningi undir styttingu námsins sem þó á ekki að skerða. Lítið hefur verið fjallað ennþá um þau mál sem hafa brunnið lengi á kennarasamfélaginu og komast nú til raunverulegrar umræðu en það er lenging kennaramenntunar og lögverndun heitisins leikskólakennari. Ég ætla ekki að tíunda hér frekar punktana tíu en vona að senn komi þeir tímar að KÍ og ráðuneytið fái næði til að vinna að framgangi þeirra. Annað mál hefur ekki farið jafn hátt en hefur mikla þýðingu fyrir grunnskólann. Lagt hefur verið fram frumvarp til breytinga á grunnskólalögum frá 1995. Þar eru nokkrir ágætir og eðlilegir þættir sem þarf að breyta, m.a. vegna þess að síðan þá hefur skólinn færst frá ríki til sveitarfélaga. Einn þáttur er þó þar sem við skólastjórnendur erum afar ósátt við og verður vonandi breytt í meðferð þingsins. Frá árinu 1974 hefur verið tryggð viðbótarstjórnun í grunnskóla, umfram skólastjóra, miðað við ákveðinn starfsmannafjölda. Með síðari lögum var kveðið enn frekar á um þetta og í kjarasamningum 2001 var ekki aðeins samið fyrir skólastjóra og aðstoðarskólastjóra heldur einnig deildarstjóra og þar með enn frekar viðurkennd þörfin á milli- stjórnendum. Varla er umdeilt að þörfin á viðbótarstjórnun hefur aukist mikið undanfarin ár og áratugi, á það ekki bara við á Íslandi heldur í öllum hinum vestræna heimi. Það er því að mínu mati stórt skref afturábak þegar gert er ráð fyrir því í áðurnefndum frumvarpsdrögum að slá striki yfir þá litlu viðbótarstjórnun sem þó hefur verið lögfest í rúmlega þrjátíu ár. Hanna Hjartardóttir Tíu punkta samkomulagið og breyting á grunnskólalögum Hanna Hjartardóttir

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.