Skólavarðan - 01.03.2006, Blaðsíða 24

Skólavarðan - 01.03.2006, Blaðsíða 24
24 FRÉTTIR AF FAGFÉLÖGUM SKÓLAVARÐAN 2.TBL. 6. ÁRG. 2006 Hlutverk Samtaka móðurmálskennara, sem stofnuð voru árið 1978, er að vinna að vernd og viðgangi íslenskrar tungu á öllum sviðum og efla samstarf íslenskra móðurmálskennara auk þess að fylgjast með og beita sér fyrir nýjungum í móðurmálskennslu. Stærstu verkefni samtakanna eru útgáfa fagtímaritsins Skímu, Stóra upplestrarkeppnin sem grunnskólabörn taka þátt í, sumar- námskeið fyrir framhaldsskólakennara og norræn samvinna. Fundað að vori og hausti Árlega halda Samtök móðurmálskennara tvo meginfundi. Annar er vor- og aðal- fundur. Venjan er að fá fyrirlesara til þess að ræða það sem efst er á baugi hverju sinni í kennslubókaútgáfu og öðrum faglegum málum. Skammdegisfundurinn er haldinn í nóvember. Þá lesa rithöfundar úr nýút- komnum verkum sínum og félagsmönnum gefst tækifæri til þess að njóta upplesturs og blanda geði í notalegum stofum Skóla- bæjar. Samtökin standa einnig að málþingum og ráðstefnum ein og sér eða í samstarfi við aðra þegar tilefni finnst til. Nú í febrúar stóðu samtökin fyrir málþingi um styttingu námstíma til stúdentsprófs og afleiðingar hennar fyrir íslenskukennslu, í samvinnu við Félag íslenskra fræða og Íslenska málfræðifélagið. Blómleg útgáfa Samtök móðurmálskennara eru eitt fárra fagfélaga sem gefa út veglegt fagtímarit en Skíma kemur út tvisvar á ári. Í ritnefnd Skímu sitja fulltrúar af grunn-, framhalds- og háskólastigi, Efnið í blaðinu kemur frá fræðimönnum í þeirra röðum eða háskólunum og kennaranemar hafa þar einnig vettvang fyrir ritverk sín. Auk blaðsins gefa samtökin út fréttabréf tvisvar á ári. Nú er verið að vinna að tímabærum endurbótum heimasíðunnar og verður nýtt netfang SM modurmal.is. Árið 2000 átti málnefnd Norrænu ráðherranefndarinnar frumkvæði að því að undirbúa útgáfu norrænnar málsögu fyrir framhaldsskólakennara, Norræn mál með rótum og fótum. Nú hefur bókin litið dagsins ljós og verður hún uppistaðan á námskeiði Nordspråk sem ber sama nafn og verður haldið í Danmörku í haust. Námskeiðahald um móðurmálskennslu Endurmenntunarnámskeið SM eru ætluð framhaldsskólakennurum eftir að rekstur grunnskólans var fluttur til sveitarfél- aganna. Menntamálaráðuneytið styrkir námskeiðin en sveitarfélögin hafa veg og vanda af námskeiðum fyrir grunn- skólakennara. Grunnskólakennurum gefst kostur á að sækja námskeiðin ef þau fyllast ekki. Næsta námskeið SM verður haldið á Snæfellsnesi í ágúst. Samtök móðurmálskennara eiga þrjá fulltrúa í Nordspråk sem eru samtök norrænna tungumála- og móðurmáls- kennara. Fulltrúar landanna hittast á hverju ári til þess að skipuleggja námskeið sem haldin eru í löndunum á víxl. Fjölbreytt samstarf Samtök móðurmálskennara eru aðilar að Stóru upplestrarkeppninni og eiga fulltrúa í héraðsnefndum um allt land. Keppnin er nú haldin í tíunda sinn og fer fram í yfir 150 skólum víðs vegar um landið. Fjölmargir aðilar koma að Stóru upplestrarkeppninni eins og lesendum Skólavörðunnar er kunnugt um. Þá eiga samtökin fulltrúa í dómnefnd Smásagnasamkeppni grunn- skólanna í Hafnarfirði. Mjólkursamsalan hefur leitast við að styrkja íslenska tungu og koma ábend- ingum um það á íslenskar mjólkurfernur. Nefnist verkefnið Fernuflug. Samtök móðurmálskennara eru samstarfsaðilar Mjólkursamsölunnar og koma að undir- búningi Fernuflugsins. Félagsmenn Félagsmenn SM eru nú ríflega 500 talsins. Stjórn félagsins skipa tveir grunnskóla- kennarar, tveir framhaldsskólakennarar og einn háskólakennari. Í lögum félagsins segir að allir starfandi móðurmálskennarar geti orðið félagsmenn þótt þeir kenni aðrar námsgreinar jafnframt. Stjórn SM vill hvetja íslenskukennara til þess að gerast félagsmenn séu þeir það ekki nú þegar. Félagsgjöldin eru 2500 krónur á ári og fyrir þau fæst tækifæri til þess að sækja fundi og námskeið auk áskriftar að Skímu. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemina betur eða skrá sig í Samtök móðurmálskennara geta gert það á netfangið bjorkeinis@aslandsskoli.is Björk Einisdóttir Höfundur er formaður Samtaka móðurmálskennara Fagfélag kennara sem kenna íslensku sem móðurmál Samtök móðurmálskennara Björk Einisdóttir

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.