Skólavarðan - 01.03.2006, Blaðsíða 26
26
ÞÆTTIR ÚR SKÓLASÖGU
SKÓLAVARÐAN 2.TBL. 6. ÁRG. 2006
Óttar Einarsson dönskukennari er einn
fárra sem veit hvers vegna Barnaskóli
Akureyrar var kallaður Barnaskóli
Íslands. Lesið áfram ...
Hvers vegna hefur Barnaskóli Akureyrar
– sem núna heitir víst Brekkuskóli – verið
kallaður „Barnaskóli Íslands“ manna á
meðal um árabil og flestir vita við hvaða
skóla er átt? Það er verðug spurning!
Þannig vill til að ég veit hvernig þetta
er tilkomið. Faðir minn, Einar Kristjánsson,
var húsvörður við skólann frá 1947 til 1981
og fjölskylda mín bjó í húsvarðaríbúð á
neðstu hæð skólans fram undir 1970.
Einhverju sinni vill svo til að faðir
minn á eitthvert erindi við Karl Hjaltason,
smíðakennara, og hringir heim til hans.
Dóttir Karls kemur í símann. Faðir minn
spyr hvort Karl sé heima. „Nei,“ segir hún,
„hann er niðri í barnaskóla!“ og bætir svo
við eftir smáhik, „Barnaskóla Íslands!“
Rétt er að hér komi fram að Barna-
skólinn á Akureyri hafði verið eini skólinn
í fræðsluumdæminu um áratugi en þegar
hér var komið var Oddeyrar-skólinn tekinn
til starfa og Glerárskólinn sennilega líka
þannig að henni hefur sennilega fundist
hún þurfa að þrengja hringinn.
Föður mínum fannst þetta tilsvar
skemmtilegt og kom því á flot. Þess vegna
er Barnaskóli Akureyrar – Brekkuskóli
– enn þann dag í dag kallaður „Barnaskóli
Íslands“, bæði í gamni og alvöru af þeim
sem til þekkja og reyndar einnig þeim
sem þekkja ekki til hvað sem síðar kann
að verða.
Til fróðleiks má geta þess að gamla
skólahúsið mun hafa verið byggt um 1930,
stílhrein, traustleg og vönduð bygging
.Viðbyggingin kom svo til á árunum
1950-1951 þegar erfitt var um öll aðföng
eftir stríðið og allt skorið við nögl. Hún
er stílbrot og nánast eins og æxli út frá
gamla húsinu. Nú mun skólahald aflagt
í hinum gamla Barnaskóla Akureyrar og
hann hefur víst fengið nýtt hlutverk.
Þegar faðir minn lét af störfum við
skólann og fjölskylda okkar hafði flutt
þaðan, reyndar nokkrum árum áður, orti
hann þessa vísu:
Við blessun mikla bjó ég hér,
með börnin mín og frúna.
Barnaskóli Íslands er
orðinn stekkur núna.
Ekki veit ég til þess að nafngiftin „Barna-
skóli Íslands“ komi fram í kveðskap nema í
þessari stöku og því er hún látin fljóta hér
með þessum línum.
Óttar Einarsson
Sögumaður er kennari við
Menntaskólann að Laugarvatni
HVAÐA STARFSEMI ER NÚNA
Í BARNASKÓLA ÍSLANDS?
Menntasmiðjan á Akureyri, Alþjóða-
stofan - Akureyri Intercultural Center,
Húsið - menningarmiðstöð Norður-
lands og loks Punkturinn sem er almenn
handverks- og tómstundamiðstöð. Nýtt
nafn hefur verið valið á bygginguna sem
hýsti Barnaskóla Akureyrar (Barnaskóla
Íslands) frá árinu 1930 og þar til hann
sameinaðist Gagnfræðaskóla Akur-
eyrar árið 1997. Úr þeirri sameiningu
varð Brekkuskóli, sem nú hefur flutt í
nýtt húsnæði en hið nýja nafn hússins
er Rósenborg - möguleikamiðstöð.
HÚSVÖRÐURINN OG SNJÓTITTLINGURINN
Veturinn 1961-1962 skiptust þeir Einar Kristjánsson, faðir Óttars, og Kristján
frá Djúpalæk á vísum sem oftar en þeir voru miklir vinir. Tilefnið var það að
skólabörn höfðu rekist á lasburða snjótittling úti á lóðinni og komu með hann til
Einars húsvarðar. Einar tók við fuglinum og fór með hann inn til sín og fjölskyldan
sameinaðist um að hjúkra honum og koma honum “til fugls” á nýjan leik.
Snjótittlingurinn hresstist furðufljótt og var þá látinn spóka sig úti í stofuglugga
hjá húsverðinu. Skapaðist þá oft mikil ös skólabarna utan við gluggann að
fylgjast með fuglinum. Einar fullyrti í bréfi sem hann sendi sonum sínum suður
til Reykjavíkur að snjótittlingur þessi hefði a.m.k. um tíma verið „einn vinsælasti
tittlingur bæjarins og þótt víðar væri leitað“. Þetta frétti Kristján frá Djúpalæk
og sagði:
Einar greyið ótal sorgir hrjá
ekkert má skáldið hugga.
Inni í stofu tyllir sér á tá
með tittlinginn úti í glugga
Einar svaraði:
Aumkva ég og allvel skil
öfundina þína.
Þú átt engan tittling til
sem tekur því að sýna.
Barnaskóli Íslands
Kennarar:
Sendið okkur sögur úr skólalífinu.