Skólavarðan - 01.02.2007, Page 22

Skólavarðan - 01.02.2007, Page 22
22 MENNTAVERÐLAUN SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 7. ÁRG. 2007 Íris Róbertsdóttir kennari við Hamarsskóla í Vestmannaeyjum tekur við íslensku menntaverðlaununum úr hendi forseta Íslands þann 7. júní 2006. Í vor verða Íslensku menntaverðlaunin afhent í þriðja sinn. Verðlaun þessi voru stofnuð af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni en þau ásamt Íslensku bókmenntaverðlaununum og Útflutningsverðlaununum eru helstu verðlaun sem forseti Íslands veitir ár hvert. Íslensku menntaverðlaunin eru einkum bundin við starfið í grunnskólunum. Veitt eru fern verðlaun og þau eru eins og segir í 2. gr. reglna um Íslensku mennta- verðlaunin veitt: 1. Skólum sem sinnt hafa vel nýsköpun eða farsælu samhengi í fræðslustarfi. 2. Kennurum sem skilað hafa merku ævistarfi eða á annan hátt hafa skarað framúr. 3. Ungu fólki sem í upphafi kennsluferils hefur sýnt hæfileika og lagt alúð við starf sitt. 4. Höfundum námsefnis sem stuðlað hafa að nýjungum í skólastarfi. Í 4. gr sömu reglna segir: „Auglýsa skal eftir tilnefningum og hafa allir rétt til að senda inn tilnefningar, þ.e. skólar, kennarar, foreldrafélög, nemendur, einstakir for- eldrar, sveitarfélög, áhugafólk og allir aðrir sem áhuga hafa á skólastarfi.“ Mikilvægt er að allir þeir sem unna farsælu skólastarfi taki þátt í því að tilnefna þá sem skarað hafa framúr í íslensku grunnskólunum hvort sem það eru einstaka skólar, kennarar eða námsefnishöfundar. Undirritaður telur mikilvægt að skólafólk kynni verðlaun þessi fyrir nærumhverfi sínu sem leið fyrir foreldra og aðra til að vekja athygli á því sem vel er gert í hverjum skóla. Það er nú einu sinni þannig að í nánast hverjum skóla á Íslandi eru kennarar og starfsfólk skólanna að gera frábæra hluti sem vert er að segja öðrum frá. Þá hefur einnig verið mikil gróska í útgáfu á góðu námsefni fyrir grunnskólana. Það hefur verið ánægjulegt að sjá og finna fyrir þeim mikla áhuga sem þjóðin hefur sýnt Íslensku menntaverðlaununum. Það sannar að þjóðinni er annt um grunnskólana sína og vill halda því á lofti sem vel er gert innan þeirra. Því það er nú einu sinni þannig að öll eigum við minningar úr grunnskólanum frá eigin skólagöngu eða við tengjumst skólanum í gegnum grunnskólagöngu barna okkar. Öll höfum við skoðanir á því hvað sé góður kennari, frábært námsefni ellegar góður skóli. Ekki eru endilega allir á sömu skoðun og eiga ekkert að vera það. En við eigum öll að taka þátt í því að tilnefna þá sem skarað hafa fram úr og þannig efla grunnskólana enn frekar í því markmiði þeirra að verða enn betri skólar en þeir eru nú þegar. Undirritaður vill með þessum línum hvetja þig lesandi góður til að kynna verðlaun þessi sem víðast og gefa þjóðinni þannig tækifæri til að tilnefna þá sem skarað hafa framúr í íslenskum grunnskólum. Með því móti eflum við enn frekar grunnmenntun þjóðarinnar og erum því betur í stakk búin til að takast á við hin krefjandi verkefni 21. aldarinnar sem bíða handan við hornið. Tilnefningar skal senda hvort sem er til skrifstofu forseta Íslands, Staðastað, Sóleyjargötu 1, 150 Reykjavík eða á menntaverðlaun@forseti.is Síðasti skiladagur er föstudagurinn 23. mars 2007. Verðlaunin verða síðan afhent vinningshöfum á glæsilegri verðlaunahátíð sem haldin verður í lok maí. Varðandi tilnefningarnar þá er ekki nauðsynlegt að skrifa langar greinargerðir með þeim, einungis að benda á nöfn þeirra sem skarað hafa framúr að þínu mati og hvers vegna þú telur að viðkomandi eigi að fá verðlaunin. Síðan er það verk dómnefndanna að kynna sér þá sem tilnefndir eru sem og aðra þá sem til greina koma. Ágæti lesandi, hafðu þökk fyrir þinn þátt í því að vekja athygli á því sem vel er gert í íslenskum grunnskólum og hafa þannig jákvæð áhrif á uppbyggingu grunnskólanna við upphaf 21. aldar. Guðbrandur Stígur Ágústsson verkefnisstjóri Íslensku menntaverðlaunanna stigur@spar.is - Vekjum athygli á því sem vel er gert - Íslensku menntaverðlaunin Mikilvægt er að allir þeir sem unna farsælu skólastarfi taki þátt í því að tilnefna þá sem skarað hafa framúr í íslensku grunnskólunum hvort sem það eru einstaka skólar, kennarar eða námsefnishöfundar. Guðbrandur Stígur Ágústsson Lj ós m yn di r fr á hö fu nd i

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.