Skólavarðan - 01.06.2008, Blaðsíða 10

Skólavarðan - 01.06.2008, Blaðsíða 10
10 KYNNISFERÐ TIL SvíþjóÐAR SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 8. ÁRG. 2008 Í nóvember sl. fór þrjátíu manna hópur kennara við Grunnskólann á Egilsstöðum og Eiðum til fundar við kennara og nemendur í Helsingjaborg í Svíþjóð. Helsingjaborg er hundrað og fimmtíu þúsund manna borg við Eyrarsund og eru skólayfirvöld þar í fremstu röð hvað varðar einstaklingsmiðað nám, en skólar borgarinnar hafa unnið að því verkefni í þrettán ár. Alls kynntu kennararnir frá Íslandi sér sex sænska skóla og var skipt í þrjá hópa eftir aldri nemendanna sem þeir heimsóttu. Hver hópur fór í tvo skóla og dvaldi heilan skóladag í hvorum þeirra. Kennurum gafst færi á að ræða við nemendur, kennara og stjórnendur í skólunum og fylgjast með daglegu skólastarfi. Í lok hvers heimsóknardags hittist allur hópurinn í ráðhúsi Helsingjaborgar með starfsfólki skólayfirvalda. Þar var kynnt skólaþróun síðustu ára og stefnumörkun borgarinnar, auk þess sem spurningum var svarað. Fjórir þættir skólastarfsins voru einkum rannsakaðir í þessari heimsókn, en þeir eru einstaklingsmiðað nám, feril- möppur nemenda, teymisvinna kennara og þemanám. Einstaklingsmiðað nám Í öllum skólunum er unnið með ein- staklingsbundin markmið nemenda sem þeir setja sér í samráði við foreldra og kennara. Markmiðin eru til umræðu í foreldraviðtölum tvisvar til þrisvar sinnum á ári. Hver nemandi setur sér tvö til þrjú markmið á önn og kennarinn aðstoðar svo við að skipta þeim niður í undirmarkmið. Markmið nemenda eru mismunandi, félagsleg, hegðunarleg og námsleg, og þau eru mjög sýnileg á skólaborðum, uppi á veggjum og í leiðarbókum sem nemendur halda. Nemendur eru einnig sjálfir mjög meðvitaðir um markmið sín og ígrunda vikulega í leiðarbók hvernig þeim hafi gengið að nálgast þau. Í nokkrum skólum nota nemendur marglita hatta Edwards de Bonos (sjá mynd) til þess að aðstoða sig við að ígrunda. Hattarnir eru einnig notaðir í annarri vinnu, eins og við að rýna í blaðagreinar. Það sem vakti athygli okkar var að engin áhersla virtist lögð á að duglegir nemendur færu hraðar yfir námsefnið og styttu þannig grunnskólagöngu sína. Meiri áhersla var lögð á að leggja fyrir nemendur misþung verkefni í sama viðfangsefni. Ferilmöppur nemenda Ætlast er til þess að allir nemendur í Hels- ingjborg eigi ferilmöppur um nám sitt og skólagöngu. Skólarnir sem íslenski hópurinn heimsótti voru mislangt komnir í vinnu við að innleiða og þróa möppurnar. Hópur stjórnenda og kennara hafði heimsótt skóla á Nýja Sjálandi nokkrum árum áður til þess að kynna sér sérstaklega ferilmöppur og notkun þeirra, auk einstaklingsmiðunar. Möppurnar eru mikið notaðar í sumum skólanna og mikil vinna hefur verið lögð í ýmiss konar matsgögn, svo sem sóknarkvarða, marklista, sjálfsmat og fleira. Annars staðar er vinnan auðsjáanlega ekki jafn langt á veg komin. Nemendur setja ýmis persónuleg verkefni í möppurnar sem gefa upplýsingar um þá sjálfa, hvað þeim þykir gaman að gera og fleira í þeim dúr. Einnig eru snældur og myndbönd hluti af sumum möppunum. Það vakti athygli okkar að í ferilmöppunum voru ekki ljósmyndir af nemendum og lítið af skapandi verkefnum. Mest var af skriflegum verkefnum, ýmiss konar matsverkefnum og matslistum. Teymiskennsla Eitt af því sem við höfðum sérstakan áhuga á að skoða var teymisvinna kennara. Nokkrir af þeim skólum sem við heimsóttum höfðu tekið þátt í þróunarverkefni frá árinu 2000 um að leggja hefðbundnar stundaskrár á hilluna. Þess í stað var tekin upp teymiskennsla. Þrír til fjórir kennarar kenna hverjum árgangi (40-60 börnum). Þeir mynda teymi um nemendahópinn og taka ábyrgð á kennslu Fjárhæð fylgir hverjum nemanda LJósmyndir frá höfundum Kennarar við Grunnskólann á Egilsstöðum og Eiðum heimsækja skóla í Helsingjaborg og kynnast marglitum höttum, ferilmöppum og frímínútum sem eru teknar þegar hentar. Í öllum aðstæðum er hægt að beita mismunandi sjónarhornum og ýmiss konar nálgun. Edward de Bono þróaði aðferð sem hann kallaði „sex hattar hugsunar“ til að auðvelda fólki að þjálfa með sér ýmsar aðferðir til að fást við hlutina. Græni hatturinn er til að mynda hattur skapandi hugsunar og sá svarti er táknmynd fyrir að íhuga hindranir og takmarkanir.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.