Skólavarðan - 01.06.2008, Blaðsíða 3
3
FORMANNSPISTILL
Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa
formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag
framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara
(FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT),
Skólastjórafélag Íslands (SÍ).
SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 8. ÁRG. 2008
Á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum fer fram mikil umræða um skóla-
og menntamál og þýðingu þeirra fyrir vöxt og viðgang þjóða. Þar ber
hátt umræðu um kennara, kennaramenntun og kennarastarfið. Sérlega
mikilvægt er talið að laða hina hæfustu að kennaranámi og búa þeim
síðan góð starfsskilyrði þannig að þeir geri kennslu að ævistarfi sínu.
Víða er unnið að endurskoðun kennaramenntunar, bæði til þess að
styrkja þekkingu í faggreinum og kennarafræðum og til að bregðast við
breytingum á hlutverki og störfum kennara. Gagnrýnin skoðun fer fram á
tækifærum kennara til starfsþróunar, símenntunar, þátttöku í rannsóknum
og fræðistarfi. Þessir þættir eru mikilvægir til þess að efla kennara í starfi
og til framdráttar fyrir menntun í hverju landi.
Fremur dökk mynd er dregin upp af símenntun kennara í Evrópu og
tilgreint að stórauka þurfi fjárframlög hins opinbera og bæta aðstöðu
kennara til að sækja sér símenntun samhliða starfi. Íslands sker sig ekki
úr í þessum samanburði og hefur KÍ fullan hug á að leita samstarfs við
háskóla, vinnuveitendur og yfirvöld menntamála um úttekt á símenntun
stéttarinnar, fjármögnun, framboði, aðgengi og gæðamálum.
Kennarastarfið er almennt ekki metið að verðleikum þrátt fyrir að
kannanir sýni að kennarar sem starfsstétt njóti mikils trausts almennings.
Nýleg rannsókn OECD á launakjörum kennara í aðildarlöndunum sýnir að
Ísland er nálægt botninum sem er skammarlegt í okkar ríka landi. Þing KÍ
í apríl síðast liðnum krafði stjórnvöld um að gera betur við félagsmenn KÍ
í skólum landsins, láta kennarastarfið fá þann sess sem því ber og bæta
starfsskilyrði náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda.
Ný lög um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og menntun og
réttindi kennara byggja á endurskoðun og stefnumótunarvinnu sem
KÍ hefur tekið þátt í. Eitt mikilvægasta markmið breytinga á lögum um
skólastigin er að miða þau og framkvæmd þeirra við nemandann, nám
hans, þroska, skólagöngu, hagsmuni, velferð og réttindi. Jafnframt þarf
að tryggja góðan fjárhagslegan og faglegan umbúnað um skólastarfið og
Elna Katrín Jónsdóttir
Varaformmaður KÍ
Lj
ós
m
yn
d
:
ke
eg
efla virka þátttöku starfsmanna í stjórnun, stefnumótun og þróun. Það
olli sérstökum áhyggjum hversu lítill vilji virtist vera til þess að breyta
þeim efnisatriðum frumvarps til laga um framhaldsskóla sem KÍ gerði
alvarlegustu athugasemdirnar við svo sem um að skýrari rammi yrði
settur um námstíma og einingafjölda til lokaprófa í framhaldsskóla og um
fyrirhugaða breytingu á mati náms til eininga.
Ný lög um menntun og ráðningu kennara eru metnaðarfull og tímabært
að meistaragráðu eða sambærileg námslok þurfi til að fá leyfisbréf
til kennslu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Miðað er við að efla
menntun í faggreinum og í kennarafræðum. Í kennarastarfi reynir á
samskiptahæfni, færni í að miðla þekkingu og laða fram getu og hæfileika
hvers nemanda. Þróun nýrrar kennaramenntunar, efling og endurnýjun
starfsþjálfunarþáttar námsins, umbætur í kerfisbundinni leiðsögn nýrra
kennara í starfi og aukið lýðræðislegt samstarf þeirra sem móta stefnu og
fylgjast með gæðum kennaramenntunar eru spennandi og brýn verkefni
þar sem KÍ býður fram krafta sína.
Huga þarf að fleiru en grunnmenntun kennara. Í kennarastarfi
reynir á aðlögun að breytingum, frumkvæði og hæfni til að taka þátt í
nýsköpun, þróun og stefnumótun. Því heitir KÍ á yfirvöld menntamála og
vinnuveitendur félagsmanna að tryggja þeim betri réttindi og möguleika
til símenntunar, bæði á starfstíma skóla og utan hans, og til launaðra
námsorlofa. Félagsmenn KÍ afla sér í vaxandi mæli viðbótarmenntunar og
taka þátt í fræðastarfi og rannsóknum. Því þarf að auka möguleika þeirra
til þess að stunda rannsóknir samhliða störfum sínum í skólunum.
Til þess að kennarar verði áfram kennarar og nýir bætist greiðlega í
hópinn þarf að mæta þörfum starfsins og stéttarinnar með sanngjörnum
og tímabærum aðgerðum sem snúa að menntun þeirra, starfsaðstæðum
og mati á starfinu til launa. Ísland á ekki að gera verr við sína kennarastétt
en önnur lönd.
Elna Katrín Jónsdóttir
Áfram kennarar!