Skólavarðan - 01.06.2008, Blaðsíða 6
6
SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 8. ÁRG. 2008
gerði. Himnafeðgarnir, hún og skólastjórinn
voru á sömu hillu hvað virðinguna varðaði.
Hún og hinir kennararnir náðu líka góðum
árangri með þennan hóp. Ég man ekki betur
en að meðaleinkunn okkar krakkanna hafi
verið tæplega 8,5 upp úr 6. bekk.
Andrúmsloftið í bekknum var ótrúlega
vinalegt og traust. Ég man varla eftir að mér
hafi nokkurn tíma liðið eins vel í félagslegu
samhengi og einmitt í þessum 6. bekk. Við
vorum í góðum bekk með góðan kennara
og stolt af hvoru tveggja. Sigga og ég held
flestir aðrir kennarar í skólanum náðu
að skapa í bekknum andrúmsloft sem
einkenndist af metnaði til náms. Eiginlega
öllum bekkjarfélögunum hefur vegnað vel
á fullorðinsárum þannig að skólinn skilaði
hlutverki sínu sem uppeldisstofnun fyrir
samfélagið vel. Auðvitað voru líka skugga-
hliðar á þessu kerfi eins og gengur. Til
dæmis man ég ekki betur en að þeir tveir
sem neðstir voru í bekknum hafi verið færðir
niður um bekk og tveir efstu í bekknum fyrir
neðan okkur komið upp í staðinn. Ég held
að það hafi alls ekki verið skemmtilegt að
vera sá sem færður var niður. Ég held líka að
ekki hafi verið neitt sérstaklega skemmtilegt
að vera í getuminnstu bekkjunum án þess
að ég viti mikið um það. Sum þeirra mæta
að minnsta kosti sjaldan í fermingarafmælin
suður með sjó.
Í seinni tíð hef ég oft hugsað hvort þessi
tilhögun á skólastarfinu hafi verið meðvituð
eða hvort kennt hafi verið með þessum hætti
„af því að svona er bara kennt“. Ég held
að þetta hafi verið meðvitað. Tilgangurinn
var að búa til nýta þjóðfélagsþegna. Nýtir
þjóðfélagsþegnar held ég að hafi á þessum
tíma verið hlýðnir, iðnir launþegar sem virtu
yfirboðara sinn og gengu viljugir til verka.
Nýjar áherslur í skólastarfi
Markmiðið með skólastarfi hlýtur enn þann
dag í dag að vera að laða fram það besta sem
í barninu býr og búa það undir fullorðinsárin,
að búa til nýta þjóðfélagsþegna. Það
hvað nýtur þjóðfélagsþegn þarf að hafa
til að bera hefur hins vegar breyst. Vegna
þess að markmiðið með starfinu hefur
breyst hafa orðið veigamiklar breytingar á
kennsluháttum.
Þegar ég kíki inn í kennslu hjá kennurum
nú verð ég ósköp sjaldan var við dyraröð,
gluggaröð og miðröð. Krakkarnir sitja í
hópum, snúa stundum baki í kennarann og
lagt er upp með að nemendur leysi saman
margt af því sem kennt er.
Það er líka mikill kliður í skólastofunni,
krakkarnir tala saman um verkefnin sem
þeir eru að vinna og þeir eru líka á ferð
um stofuna að afla sér upplýsinga og bera
saman bækur sínar.
Kennarinn sussar bara býsna oft á
nemendur, hún hrósar þeim oft og hún talar
líka hærra en Sigga gerði í minningunni.
Borðið hennar er ekki á upphækkuninni og
hún situr ekkert voðalega oft við borðið sitt,
er meira á fleygiferð um stofuna að hjálpa
krökkunum.
Ef markmiðið er enn að búa til nýta þjóð-
félagsþegna er nokkuð ljóst að skilgreiningin
á því að vera nýtur þjóðfélagsþegn hlýtur að
hafa breyst töluvert. Kannski er núorðið lögð
aðaláhersla á að þjálfa frumkvæði, sjálfstæði
og samskiptahæfni auk þessa hefðbundna að
lesa, reikna, skrifa. Að minnsta kosti sýnist
mér að flest þau störf sem eru vel borguð nú
geri kröfu um færni í áðurnefndum þáttum.
Hvernig þjálfar maður svo frumkvæði,
sjálfstæði og samskiptahæfni? Það er
nokkuð ljóst að kennari getur ekki þjálfað
þessa þætti án þess að gefa krökkunum
lausan tauminn og leyfa þeim að spreyta sig.
Það má spyrja af hverju? Maður þarf ekki að
hlýða sjálfkrafa, nei þýðir ekki endilega nei
heldur er (stundum) til marks um að nú sé
að hefjast langvinnt samningaferli.
Þessi nýju markmið hafa áhrif á allt
skipulag og aga í skólastofunni. Kennarar
sem ég þekki til margra ára að vönduðu
skólastarfi tala um að þeir þurfi að hafa
meira fyrir því að halda aga en áður. Það
tekur lengri tíma fyrir kennara að ávinna
sér virðingu nemenda en áður og þeir leyfa
sér margir hverjir framkomu og orðfæri sem
er þannig að innihaldi að ég veigra mér við
að hafa það eftir. Sumir nemendur sem ég
hitti í mínu starfi koma fram við kennara
eins og bekkjarfélaga sína og upplifa það
sem hreina og óþarfa afskiptasemi af hálfu
kennara ef gerð er krafa til þeirra um hlýðni
og virðingu við starfsfólk skólans. Stundum
eru foreldrar þeirra meira að segja sammála
þeim um þetta. Það er að mínu viti engin
tilviljun að heildstæð agastjórnunarkerfi líkt
og PBS og SMT njóta vaxandi vinsælda í
skólum landsins. Þessi kerfi gefa einfaldlega
svör um hvernig taka eigi á þessari tegund
nemenda auk þess að skapa umhverfi
sem bætir árangur og líðan meginþorra
nemenda.
Grunnskólinn er á réttri leið
Ég tel rétt að geta þess að stærstur hluti
nemenda lætur vel að stjórn, er iðjusamur
og líður vel í skólanum. Sífellt færri grunn-
skólanemendur reykja, neyta áfengis og
annarra vímuefna. Þar sem ég starfa í
Reykjanesbæ hefur áfengisneysla barna
í 10. bekk til dæmis dregist saman um
meira en helming á tíu árum. Krökkunum
líður líka betur. Níu af hverjum tíu segja
að þeim líði vel í skólanum. Ég held þess
vegna að grunnskólinn sé á réttri leið og
trúi að hann eigi stóran þátt í útrásinni og
velmeguninni. Það eru grunnskólarnir sem
unga út nemendum sem síðar hafa þann
kjark, áræði og þor sem hefur þurft til að
búa til það velmegunarþjóðfélag á Íslandi
sem á sér fáa líka í heimsbyggðinni allri.
Kraftaverkakennarar
Það þarf að bregðast við þeirri staðreynd
að erfiðara er að kenna en áður. Starfið nú
til dags krefst þess sjálfstæðis, frumkvæðis
og þeirrar samskiptafærni sem reynt er að
laða fram í nemendum. Það er fjarri mér að
gera lítið úr starfi þeirra sem kenndu mér
hér á árum áður. Ég tel kennarastarfið hins
vegar hafa tekið svo miklum breytingum á
undanförnum árum að ekki sé lengur um
sama starf að ræða. Ég er þeirrar skoðunar
að þessi eðlisbreyting á starfinu hafi enn ekki
verið metin kennurum nægilega vel til launa.
Ég vona að það takist í framtíðinni. Um daginn
var vinur minn til margra ára að hjálpa mér
við múrverk. Hann er iðnaðarmaður en var
að gera mér greiða. Að verki loknu stóðum
við hlið við hlið og dáðumst að handverkinu.
Eftir stundarþögn sagði félaginn: Þetta má
ekki verða betra – ekki fyrir þennan pening.
Ég bauð honum nokkur viðtöl sem skiptivinnu
en hann afþakkaði. Við skellihlógum báðir
en auðvitað var broddur í þessu. Hann var
að vinna sitt starf af fagmennsku og ég
að fá mikið frá honum þótt engin kæmi til
greiðslan. Í mínu starfi hef ég séð kennara
á allt of lágum launum gera hluti sem ekki
er hægt að upplifa öðru vísi en sem hrein
og klár kraftaverk. Börn sem eiga að vera
svo erfið í hegðun að ekki á að vera hægt
að kenna þeim nema maður á mann verða
fyrirmyndarnemendur vegna þess lags og
fagmennsku sem kennarinn sýnir. Stundum
hef ég haft á tilfinningunni að til séu
kennarar sem geta beinlínis læknað börn
af þeim kvillum sem búið er að greina þau
með. Hér er ekki um einstök dæmi að ræða.
Marga svona kennara er að finna í hverjum
einasta grunnskóla sem starfar á okkar
þjónustusvæði. Svona kraftaverkakennarar
eru verðugir fulltrúar sinnar stéttar. En þeir
eiga líka að fá laun samkvæmt því.
Gleðilegt sumar!
Gylfi Jón Gylfason
Höfundur er yfirsálfræðingur á Fræðsluskrifstofu
Reykjanesbæjar.
Stundum hef ég haft það á tilfinningunni að það séu
til kennarar sem geta beinlínis læknað börn af þeim
kvillum sem búið er að greina þau með.
Það er að mínu viti engin tilviljun að heildstæð aga-
stjórnunarkerfi líkt og PBS og SMT njóta vaxandi
vinsælda í skólum landsins.
GESTASKRIF: GYLFI jóN GYLFASON