Skólavarðan - 01.11.2009, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.11.2009, Blaðsíða 3
FORMANNSPISTILL Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT), Skólastjórafélag Íslands (SÍ). SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 9. ÁRG. 2009 Eiríkur Jónsson formaður KÍ 3 Af fréttaflutningi síðustu daga októbermánaðar hefði mátt ætla að nýtt efnahagshrun væri yfirvofandi á Íslandi og örlög samfélagsins réðust af því hvort Samtök atvinnulífsins nýttu rétt sinn til að segja upp samningum á almennum vinnumarkaði. Það er með ólíkindum hvernig forseta ASÍ og framkvæmdastjóra SA tókst að láta fjölda fólks halda að allt væri að fara til fjandans helgina 24. til 25. október og dagana þar á eftir. Allir fréttatímar voru yfirfullir af viðtölum við þá og af orðum þeirra mátti ráða að hér væri í uppsiglingu annað hrun ef ekki tækist að verja kjarasamninga ASÍ. Það er jafnframt ótrúlegt að fjölmiðlar skuli tala við sömu menn um sama mál oft á dag, dag eftir dag, án þess að nokkuð nýtt hafi gerst. Þetta minnti um margt á viðtöl við völvu Vikunnar. Þegar stöðugleikasáttmálinn var undirritaður í lok júní var frá því gengið að samningar á almennum vinnumarkaði yrðu endurskoðaðir í lok október og þá gætu vinnuveitendur sagt þeim upp ef svo bæri undir. Jafnframt var ákveðið að samningar á opinberum markaði yrðu á hliðstæðum nótum og á almennum markaði. Strax í lok sumars kom í ljós að ekki var allt sem sýndist og launahækkanir á almennum vinnumarkaði, sem áttu að takmarkast við taxta undir 220 þúsund krónum, komu á taxta allt að 310 þúsund krónum. Þetta breytti að sjálfsögðu forsendum og varð til þess að Kennarasamband Íslands hefur enn ekki lokið samningagerð fyrir félagsmenn sína. Þrátt fyrir þá staðreynd hafa forsvarsmenn KÍ ekki látið þetta trufla sig í þeirri vinnu sem farið var í vegna stöðugleikasáttmálans. Af þessum sökum kom því nokkuð undarlega fyrir sjónir þegar því var haldið fram að allt færi hér á annan endann ef samningum á almennum markaði yrði sagt upp en engu skipti þótt fjölmargir opinberir starfsmenn væru samningslausir. Kennarasamband Íslands hefur nálgast vinnuna við stöðugleika- sáttmálann á þann hátt að nú væri mikilvægast að ná tökum á efnahagsmálum þjóðarinnar á breiðum grunni og að ekki hafi verið svigrúm til launahækkana síðastliðið vor. Kennarasambandið telur að forsenda fyrir kjarabótum skapist þegar vextir lækka, krónan styrkist og hjól atvinnulífsins fara að snúast eðlilega á nýjan leik. Til að liðka fyrir þessu settu félög innan KÍ ekki fram kröfur um launahækkanir í vor heldur lögðu áherslu á að allt svigrúm sem skapaðist yrði nýtt til að verja störf og kjarasamningsbundin laun. Kennarasamband Íslands hefur ekki viljað taka þátt í hanaslagnum á milli ASÍ og SA annars vegar og stjórnvalda hins vegar um stóriðju- skatta, kvótakerfi og fleiri stór deilumál í stjórnmálum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að KÍ sem samtök hefur ekki mótað sér stefnu í þessum málum og fullvíst má telja að félagsmenn KÍ hafi mismunandi skoðanir á þeim. Kennarasambandið hefur hins vegar ekki mótmælt því að skattar verði hækkaðir til að koma í veg fyrir enn meiri niðurskurð á þjónustu hins opinbera og verja með því um leið velferðarkerfið og þar með talið skólastarfið sem aldrei er mikilvægara en á þrengingartímum. Á undanförnum vikum hefur oft mátt ætla af málflutningi forseta ASÍ og SA að stöðugleikasáttmálinn sé ígildi kjarasamnings og að hann sé milli þeirra og ríkisins. Hvort tveggja er að sjálfsögðu rangt. Um sáttmálann voru aldrei greidd atkvæði af félagsmönnum eins og ber að gera þegar um kjarasamning er að ræða og þess vegna hefur hann ekki stöðu kjarasamnings. Sáttmálinn er fyrst og fremst viljayfirlýsing forystu stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði ásamt SA, ríki og sveitarfélögum. Í viljayfirlýsingunni koma fram þau markmið og tímasetningar sem aðilar komu sér saman um að vinna eftir og töldu líklegar til að auðvelda endurreisn þjóðfélagsins. Bægslagangurinn dagana áður en ákvörðun var tekin um að segja ekki upp samningum á almennum vinnumarkaði var hefðbundið sjónarspil eins og allir vita sem hafa tekið þátt í fundum með ráðherrum ríkisstjórnarinnar upp á síðkastið. Í vinnunni framundan er eðlilegt að hagsmunir þjóðarinnar í heild verði hafðir að leiðarljósi og menn leggi til hliðar þörf á að láta ljós sitt skína. Mikilvægt er sammælast um að þær byrðar sem leggja þarf á landsmenn og fyrirtæki leggist sem jafnast á þá sem þær geta borið, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki. Einungis þannig getum við vænst þess að endurreisa efnahagslífið, verja störfin og standa vörð um mikilvægustu gildin í samfélaginu og síðast en ekki síst, ná sátt á meðal Íslendinga. Eiríkur Jónsson Þetta er alvara en ekki leikrit

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.