Skólavarðan - 01.11.2009, Blaðsíða 12

Skólavarðan - 01.11.2009, Blaðsíða 12
SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 9. ÁRG. 2009 MIÐvIKUdAGSFYRIRLESTUR 12 SRR heldur utan um vikulega fyrirlestra menntavísindasviðs HÍ og málstofur þar sem innlendir og erlendir fræðimenn kynna rann- sóknir sínar og verkefni, svokallaða miðviku- dagsfyrirlestra. Þann 28. október kom sænski barnabókarithöfundurinn Kim M. Kimselius og sagði frá rithöfundarferli sínum sem er nokkuð sérstakur – og sérstaklega hvetjandi fyrir alla sem ganga með sögu í maganum. Um leið er það sem Kim hefur að segja vert umhugsunarefni fyrir kennara. Hér er stuttur útdráttur úr fyrri hluta fyrirlestrarins sem skýrir málið betur. „Ég skrifaði fyrstu bókina mína þegar ég var átta ára og myndskreytti hana. Ég hélt áfram að skrifa sögur og sagði frændfólkinu draugasögur um jólaleytið undir teppi í kjallaranum. Ég elskaði að segja sögur. Þegar ég var tíu ára fékk ég fyrstu söguna mína gefna út í hestatímariti. Svo gaf ég sjálf út tímarit með framhaldssögu sem endaði spennandi og ég skrifaði umsvifalaust nýtt tölublað, þetta seldi ég á tíu aura. Ég var mjög ánægð með mig. Ég samdi langar sögur fyrir kennarana mína. En svo skipti ég um skóla. Í nýja skólanum fékk ég ekki hrós fyrir sögurnar heldur skömmuðu kennararnir mig fyrir slæma stafsetningu. Út af þessu hætti ég að segja fólki að ég ætlaði að verða rithöfundur. En ég hætti ekki að skrifa heldur hafði það bara sem leyndarmál. Það er hægt að uppfylla drauma sína þótt maður sé ekki fullkominn og ef maður gefst ekki upp. Ég er með lesblindu og ég gafst upp. Sögurnar mínar fóru beint í skúffuna og ég skammaðist mín fyrir stafsetningarvillurnar. Síðar flutti ég frá Gautaborg til Stokkhólms þar sem enginn vissi um drauminn minn og ég sagði þeim ekki frá honum. Þar kynntist ég Jan, manninum mínum. Hann fékk með tíð og tíma að lesa sögurnar mínar og honum fannst þær góðar. Hann hvatti mig til að senda þær til útgefanda en ég þorði það ekki fyrir mitt litla líf. Á endanum greip hann til þess ráðs að halda fjölmennt partí fyrir vini okkar. Í partíinu tók hann þéttingsfast utan um mig og ég hélt að það væri af því að hann elskaði mig svo heitt en annað kom á daginn. Hann gerði það til þess að ég hlypist ekki á brott! Hann hóf upp raust sína og tilkynnti vinum okkar stoltur að konan hans væri rithöfundur. Hvað ég skammaðist mín! Mér hafði tekist að leyna þessu öll þessi ár og nú urðu allir mjög spenntir: Hvernig bækur skrifarðu Kim, hvar eru þær? Ég roðnaði og útskýrði: Nei, ég hef ekki gefið neitt út enn. Megum við lesa handrit? spurðu vinirnir, en auðvitað gat ég ekki leyft þeim það, þá hefðu þeir séð stafsetningarvillurnar. Á endanum sá ég að við svo búið mátti ekki standa og sendi tuttugu fyrstu blaðsíðurnar í bók sem ég valdi af handahófi til vinkonu minnar, Anneli. Hún átti heima langt í burtu svo ég þurfti ekki að horfa í augun á henni þegar að hún hneykslaðist á stafsetningunni. En hún var svo hrifin af sögunni að hún gleymdi villunum! Ég sótti í mig kjark og sendi handritið til útgefanda. Svo gleymdi ég því. Ég hélt bara áfram að skrifa nýjar sögur. Tvö ár liðu. Þá hringdi síminn. Konan á línunni kynnti sig sem útgefanda og sagðist vilja gefa bókina út. Ég beið eftir orðunum „...en við getum það ekki af því að þú ert lesblind“. En þau komu ekki. Á þessu augnabliki hélt ég að ég myndi öskra af hamingju. Og ég gerði það eftir símtalið. Hljóp út æpandi og hoppaði um allt. Ég var svo hamingjusöm, loksins var draumurinn minn frá átta ára aldri um útgefna bók að rætast. Ég var fjörutíu og eins árs. Ég skrifa sögulegar skáldsögur fyrir börn um hluti sem ég sjálf vil lesa og læra meira um. Fyrstu vikuna eftir að Aftur til Pompei kom út seldust ellefu þúsund eintök. Á ég að fá mér kampavínsglas? Spurði ég útgefandann. Kim, sagði hún, ég myndi bara fylla baðkarið.“ Kim sló í gegn með fyrstu bók sinni Aftur til Pompei árið 1997. Allar götur síðan hefur hún notað sögulegar staðreyndir og frjótt ímyndunarafl til að skrifa spennandi söguleg ævintýri þar sem hún lýsir atburðum og lifnaðarháttum fólks fyrr á öldum. Í bókum hennar er mikill sögulegur fróðleikur og þær eru meðal annars notaðar í skólum sem ítarefni. Kim hefur, auk annarra bóka, skrifað tólf bækur um ævintýri Ramónu og Theós sem eru aðalpersónurnar í Aftur til Pompei. Þau gerast á mismunandi tímum mannkynssögunnar, til dæmis í frönsku byltingunni, meðal víkinga og Inka í Suður- Ameríku, í Egyptalandi faróanna og á tímum svarta dauða. Bækur Kimselius eru spennandi og erfitt að leggja þær frá sér. keg Aftur til Pompei Kim M. Kimselius Í næsta tölublaði Skólavörðunnar (desember) verður birt auglýsing uppstillingarnefndar þar sem leitað er að fólki til starfa í væntanlegt Félag stjórnenda í leikskólum (FSL) og Félag leikskólakennara (FL). Fylgist með! Félagsmenn FL, athugið. Hann hóf upp raust sína og tilkynnti vinum okkar stoltur að konan hans væri rithöfundur. Hvað ég skammaðist mín! Mér hafði tekist að leyna þessu öll þessi ár og nú urðu allir mjög spenntir: Hvernig bækur skrifarðu Kim, hvar eru þær?

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.