Morgunblaðið - 31.08.2016, Blaðsíða 18
18 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 31. ÁGÚST 2016
S
jókonur – orðið eitt vekur
upp tilfinningu sem tengist
ævintýraþrá í bland við þor
og þrek. Íslenskar konur
hafa vissulega stundað sjó-
mennsku en það hefur ekki farið
mikið fyrir þeim opinberlega á þeim
vettvangi.
Frægust íslenskra sjókvenna er
líklega enn í dag Þuríður formaður
Einarsdóttir. Hún var þekktur kven-
skörungur, stundaði sjómennsku frá
ellefu ára aldri, fædd 1777, og allt til
ársins 1843, lengst af var hún afla-
sæll formaður á opnum bátum. Hún
var einnig fræg fyrir að koma upp
um Kambsránið sem var mikið þjófn-
aðarmál á sínum tíma. Þuríður lést
árið 1863. Verbúð Þuríðar var end-
urbyggð á Stokkseyri og finnst
mörgum áhugavert að skoða hana og
þann aðbúnað sem sjófarendur
bjuggu við á hennar tímum.
Ýmsir hafa tekið saman fróðleik
um íslenskar sjókonur. Einn af þeim
fræðimönnum er Gunnhildur Hrólfs-
dóttir rithöfundur. Í bók hennar:
Þær þráðinn spunnu – afrek kvenna
á aldanna rás eru meðal annars frá-
sögur af íslenskum sjókonum.
„Ég get nefnt hér til sögunnar
tvær konur sem á margan hátt voru
merkilegar sjókonur. Önnur þeirra
starfaði sem slík í kringum aldamótin
1900 og hin um fimmtíu árum síðar,“
segir Gunnhildur Hrólfsdóttir, sagn-
fræðingur og rithöfundur.
Katrín sem fann sjóstakkinn
„Sjókonur fyrri tíma sóttu sjóinn á
við karla á opnum bátum. Sem dæmi
um slíka konu nefni ég hér Katrínu
Unadóttur sem fæddist undir Eyja-
fjöllum 1878. Hún var ein af tíu
systkinum. Um aldamótin 1900 bjó
fjölskyldan á Moldnúpi. Þá freistaði
Katrín þess að færa björg í bú og
vildi ráða sig í skipsrúm sem full-
gildur háseti. Hún fór niður á sand-
inn undir Eyjafjöllum og kom að máli
við formann sem tók málaleitan
hennar vel en hún átti ekki viðeig-
andi klæðnað. Hún átti bara sjóbux-
urnar en ekki stakkinn. Formað-
urinn sagði að þannig til fara gæti
hún ekki farið til sjós á opnum báti.
Hún rölti af stað í öngum sínum en
kom þá auga á eitthvað sem veltist í
fjöruborðinu. Það reyndist vera sjó-
stakkur svo hún flýtti sér til baka
með hann og var ráðin sem háseti á
bátinn. Hún réri alla vertíðina þótt
sjóveik væri.
Ýmsir hafa velt fyrir sér hvaðan
stakkurinn hennar Katrínar hafi
komið. Það er álitið að hann hafi fok-
ið af franskri skútu en fjöldi slíkra
var þá við strendur landsins.
Katrín flutti til Eyja árið 1903
ásamt systur sinni og mági og bjó
þar til æviloka. Hún fór aldrei dult
með þá sannfæringu sína að æðri
máttarvöld hefðu heyrt andvarp
hennar þegar hún reikaði í örvænt-
ingu meðfram sjónum. Stakkur, eins
og sá sem hún fann var furðulegur
reki. Enginn skipreki hafði heldur
átt sér stað á þessum slóðum svo
menn vissu til. Reyndar var fjöldi
franskra skúta við landið og skútu-
karlar hengdu oft sjóstakka sína og
sjóhatta til þerris á slár eða í stög.
Féll aldrei verk úr hendi
Árið 1917 giftist Katrín Páli Ein-
arssyni frá Nýjabæ undir Eyjafjöll-
um. Á vetrarvertíð 1918 reri Páll á
vélbátnum Adólf frá Vestmanna-
eyjum. Þessi bátur fórst með allri
áhöfn á vertíðinni. Þannig missti
Katrín eiginmann sinn þremur mán-
uðum eftir brúðkaup þeirra. Þegar
þetta hörmulega slys átti sér stað,
gekk Katrín með barn þeirra hjóna,
Pálínu.
Katrín vann alla tíð erfiðisvinnu.
Hún flatti fisk móti fremstu flatn-
ingsmönnum. Handvagninn, sem
hún keyrði fiskinn á frá bryggju í að-
gerðarhús, lét hún hækka og tók í
hann 35 vertíðar-þorska. Þá var fisk-
ur oft það stór að 100 fóru í tonnið.
Þannig vann hún dag eftir dag. Vor
eftir vor stóð hún í fiskþvotti og var
þá unnið í akkorði. Dagsskammtur
Katrínar var þá 900-1.000 fiskar.
Léku það ekki aðrir eftir en frískustu
karlmenn. Katrín Unadóttir andaðist
8. ágúst 1950.
Unnur sem aldrei var sjóveik
„Aðra konu nefni ég hér sem er nær
okkur í tíma og atvinnuháttum. Hún
heitir Unnur Alexandra Jónsdóttir
og fæddist í Vestmannaeyjum 1939.
Hún lauk stúdentsprófi frá Mennta-
skólanum á Laugarvatni 1959 og
ensku- og norskunám frá Háskóla Ís-
lands 1967. Þegar Unni bauðst starf
sem kokkur á síldarbát á námsár-
unum þá hugsaði hún sig ekki tvisvar
um. Hún keypti sér bókina: Lærið að
matbúa eftir Helgu Sigurðardóttur
og svo var haldið til veiða. Vistarvera
áhafnar og eldunaraðstaða var í lúk-
arnum fremst í bátnum. Unnur
saumaði tjöld fyrir kojurnar þannig
að hver og einn hafði svolítið prívat
fyrir sig. Svo sauð hún ýsu og þorsk
upp úr sjó, steikti síld og bjó til kál-
böggla sem þóttu afbragðsgóðir.
Síldveiði var léleg þetta sumar og í
slæmum veðrum var oft leitað vars
við Grímsey. Þar fór hún stundum í
land. Þegar siglt var heim í lok ver-
tíðar ákvað Unnur að baka köku
fyrir áhöfnina sem ekki hafði lyst
vegna sjóveiki. Sjálf var hún aldrei
sjóveik. Um haustið var báturinn
gerður út á reknet frá Sandgerði og
Keflavík. Hún frétti að kokkar suð-
ur með sjó væru ráðnir upp á einn
og hálfan hlut. Hún bað um kaup-
hækkun og fékk hana. Hún var
kokkur á ýmsum bátum á náms-
árum sínum en ævistarf hennar
varð kennsla við Háskóla Íslands.“
Sögu kvenna lítt haldið á lofti
Hver hefur að þínu mati verið hlut-
ur íslenskra sjókvenna í sögulegu
tilliti?
„Konur við sjávarsíðuna hafa
löngum verið kynntar til sögunnar
sem draumsýn karla meðan þeir
unnu sjávarafrekin. Íslenskum sjó-
mönnum karlkyns hefur löngum
verið sungið lof – þeir voru hetjur
sem horfðu rauðum augum út í sort-
ann og hræddust ekkert. Og ekki
skaðaði þótt þeir fengju sér aðeins
neðan í því. Öðru máli gegnir með
sjókonur, þær hafa hvorki verið lof-
aðar né prísaðar – og alls ekki
drykkjuskapur þeim tengdur.
Íslenskar konur hafa unnið mikið
starf í sambandi við sjómennsku og
aflavinnslu. Á tímum frumstæðari
starfshátta stóðu þær á hafn-
arsvæðinu í kulda og bleytu og
drógu fiskinn upp að aðgerðar-
staðnum, flestar fjóra í einu. Þær
voru í síðum pilsum, þungum af
bleytu og með strigasvuntur, klút
um höfuð og sjal á herðum. Þannig
unnu landkonurnar með slorvett-
linga úr þæfðum lopa.
Sögu hinna eiginlegu íslensku sjó-
kvenna hafa vissulega verið gerð
skil í bókum en henni hefur ekki
verið haldið mikið á lofti. Þetta er þó
að breytast. Ég hef heyrt að nú
sækist útgerðarmenn eftir því að
hafa konur um borð. Þær eru þá
taldar hafa góð áhrif á vinnuand-
ann.“
gudrunsg@gmail.com
Sögur af sjókonum
„Konur við sjávarsíðuna
hafa löngum verið
kynntar til sögunnar
sem draumsýn karla
meðan þeir unnu sjávar-
afrekin. Íslenskum sjó-
mönnum karlkyns hefur
löngum verið sungið lof
– þeir voru hetjur sem
horfðu rauðum augum
út í sortann og hrædd-
ust ekkert. Og ekki
skaðaði þótt þeir fengju
sér aðeins neðan í því.
Öðru máli gegnir með
sjókonur, þær hafa
hvorki verið lofaðar né
prísaðar – og alls ekki
drykkjuskapur þeim
tengdur.“
Morgunblaðið/Þórður
Sögur kvenna til sjós Gunnhildur Hrólfsdóttir rithöfundur er meðal þeirra sem hafa tekið saman fróðleik um íslenskar sjókonur.
Katrín Unadóttir háseti (t.h.) og dóttir
hennar Pálína Pálsdóttir.
Morgunblaðið/Þórður
Þuríðarbúð Verbúð Þuríðar formanns Einarsdóttur á Stokkseyri, var endurgerð til að halda merkri sögu hennar á lofti og má
þar forvitnast um aðbúnað þann sem sjófarendur bjuggu við á sínum tíma. Þuríður er líkast til frægust íslenskra sjókvenna.
Unnur Alexandra Jónsdóttir sigldi oft
krappan sjó um miðja síðustu öld.