Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 17
O r ð i n s e n d á v e t t va n g
TMM 2006 · 3 17
rétt eins og það sem vaninn var að kalla „hefðbundið ljóð“. Þar með
hlýtur uppreisn ungra skálda, ef einhver er, ólga þeirra sem eiga hvergi
heima, að beinast gegn slíkum skáldskap – eða hvað? En kannski telst
það gamaldags rómantík að spyrja svo. Þegar flett er þeim fjórum
bókum Nýhil-hópsins sem út komu í fyrra undir heitinu „Norrænar
bókmenntir“ sést að framúrstefna þessa gustmikla hóps byggir einnig á
hefð. Það er líka í góðu lagi. Eiríkur Örn Norðdahl fer ránshendi um
ýmsa texta og nýtir sér orð og frasa úr þeim í Blandarabröndurum.
Óttar M. Norðfjörð handskrifar sum ljóð sín og slengir saman íronísk-
um slagorðum, myndum og úrklippum í rammpólitíska súpu, Gleði og
glötun. Lengst dvelst mér við bókina Gamall þrjótur, nýir tímar eftir
Örvar Þóreyjarson Smárason. Hún er í senn gróf og ljúf; kærkomin lík-
amspóesía og erótík; „ég faðma á þér hausinn / og snerti á þér mánann
// með augnatungubroddinum, / tungufingurgómunum, / tungu-
berinu“.
Fjórðu Nýhil-bókina, Rispa jeppa eftir Hauk Má Helgason, finnst mér
hæpið að kalla ljóðabók, þótt það sé gert á bakkápu. Þetta er prósaverk
rétt eins og bókin Útgönguleiðir eftir Steinar Braga, sem þó er höfð í
ljóðaflokki í Bókatíðindum. Ekki svo að skilja að ég vilji standa grimm-
an vörð á þessum landamærum, sem aldrei eru grafkyrr.
„Útgönguleiðir“, þetta orð beinir hér í blálokin athyglinni að mik-
ilvægum en allt of litlum flokki ljóðabóka frá síðasta ári: þýðingum –
sem víst má þó einnig kenna við „innflutning“. Svolítið er um þýdd ljóð
í bókum sem nefndar hafa verið í þessari grein, en eftir því sem ég kemst
næst komu ekki út í fyrra nema þrjú bókarverk sem hafa þýðingar sem
sinn helsta eða eina varning. Þetta eru Hæðir Machu Picchu eftur Pablo
Neruda í þýðingu Guðrúnar H. Tulinius, Báturinn langi og fleiri ljóð
eftir Stanley Kunitz í þýðingu Hallbergs Hallmundssonar og Brjálsemis
kækir á fjöllum eftir Po Chü-i í þýðingu Vésteins Lúðvíkssonar. Um leið
og þakkað er fyrir framtak þessara þýðenda hlýtur maður að spyrja
hvort ekki þurfi að verða stóraukning í ljóðaþýðingum ef frumort ljóð-
list á að spretta fram í sem fjölbreyttustum myndum á komandi tíð.
Þýðingar örva nefnilega þann kvilla sem Po Chü-i nefnir í ljóðinu
„Óþarft ljóð“, en það hljóðar svo í þýðingu Vésteins:
Eftir öll þessi harmkvæli í búddískri iðkun
er hugur minn blessunarlega tómur
ef frá er talinn þessi þráláti kvilli: smá
gola eða tungl – og ég er farinn að yrkja!