Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 100
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
100 TMM 2006 · 3
ness skrifaði Gunnari Gunnarssyni á árunum 1940, ’41 og ’47 meðan hann var
að þýða bækur Gunnars, greinin „Dauðinn á forsíðunni“ þar sem Guðni Elísson
fjallar um DV undir stjórn Mikaels Torfasonar og umfjöllun Sveins Yngva Egils-
sonar um „Illan læk“ Jónasar Hallgrímssonar. Sveini Yngva tókst það sem
engum hafði áður tekist: að finna hið ‘þjóðkunna spánska kvæði’ sem Jónas
‘kvað eftir’ og þýsku þýðinguna á því sem langlíklegast er að Jónas hafi notað.
3. hefti Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar 2005 kom líka í vor og einbeit-
ir sér að miðöldum í mörgum forvitnilegum greinum. 3. árgangur Hrafnaþings,
tímarits Rannsóknarstofnunar Kennaraháskólans, barst TMM einnig. Þar má
sérstaklega benda á skemmtilega athugun Baldurs Hafstað á Kolrössusögum í
ýmsum löndum.
Sá höfundur sem ég hef lesið af mestri áfergju í sumar er breski skáldsagna-
höfundurinn Ian McEwan sem bókaútgáfan Bjartur hefur sinnt af fádæma alúð
árum saman. Byrjaði á nýjustu bókinni, Saturday (2005), og sannfærðist um að
gagnrýnendur hefðu engu logið. Sagan gerist öll á einum sólarhring í lífi og
huga velmegandi heilaskurðlæknis í London, frá því hann vaknar um miðja
aðfaranótt laugardags og fylgist með alelda flugvél fljúga yfir borgina og þangað
til hann bjargar mannslífi aðfaranótt sunnudags. En þó að tímaskeiðið sé ekki
langt hef ég ekki lesið næmari (og áhugaverðari) lýsingu á bresku samfélagi í
samtímanum. Það er tilhlökkunarefni að fá þessa bók frá Bjarti í haust í þýð-
ingu Árna Óskarssonar (sem líka þýddi Barnið og tímann í fyrra). Næst las ég
Friðþægingu (Atonement 2001, ísl. þýð. 2003 Rúnar Helgi Vignisson), Enduring
Love (1997, ísl.þýð. Eilíf ást Geir Svansson 1998) og Amsterdam (1998, ísl þýð.
Uggi Jónsson 1999). Glæpir koma við sögu í öllum þessum bókum þó ekki séu
þær glæpasögur; þetta eru óvæntir glæpir og óhugnanlegir; barni er rænt, fólki
er haldið í gíslingu, ungur maður er saklaus fangelsaður fyrir nauðgun. Það
óviðjafnanlega við bækur McEwans er að þær uppfylla bæði flettiþörf og þörf-
ina fyrir að hugsa og finnast maður hafa breyst, jafnvel þroskast, við lesturinn.
Annað eftirlæti, japanski höfundurinn Haruki Murakami, gaf út smásagna-
safn á ensku í sumar, Blind Willow, Sleeping Woman (Harvill Secker 2006) sem
hefur fengið prýðilegar móttökur.
Myndlistin
Nú stendur yfir í Hafnarhúsi sýningin Pakkhús postulanna þar sem sýning-
arstjórarnir Daníel Karl Björnsson og Huginn Þór Arason völdu sex unga
listamenn til að svara spurningunum „Með hvaða ráðum geta hugmyndir
þínar og verk yfirtekið salina, umbreytt safninu, afbakað byggingu þess, hliðr-
að rammanum eða jafnvel brotið rammann sem safnumhverfið setur þér?“
Sýningin stendur til 22. október.
Í Hafnarhúsi verður líka sýningin Uncertain States of America sem er ætlað
að gefa víðtækt yfirlit nýrra strauma í bandarískri myndlist. Gunnar B. Kvaran
listfræðingur fékk til liðs við sig tvo evrópska sýningarstjóra, Daniel Birnbaum
og Hans Ulrich Obrist, ferðaðist með þeim víða um Bandaríkin í tvö ár og