Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 115
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 3 115
krafturinn ekki horfinn úr textanum. En umræddur texti er óneitanlega erfiðari
viðfangs, ekki síst þegar kemur að þeirri spurningu hvort sagan, þéttofin úr bik-
svörtum, þungum þráðum, hitti fyrir ljósmóður í sögumanninum Lillu.
Lilla elst upp Þingholtunum í Reykjavík á sjöunda áratug síðustu aldar og
sagan spannar ævi hennar. Foreldrar hennar, læknarnir Ragnhildur og Harald-
ur, eru fórnarlömb fornrar ástarsorgar; þau dóu sjálfum sér fyrir mörgum árum
en ákveða þó, líkt og gengur, að stofna saman ,,fjölskyldu“ í lífleysinu. Eins og
textinn leiðir í ljós, hafa slíkar kringumstæður tilfinningalega lamandi áhrif á
stúlkuna. Kannski er hún þar með vængstýfð fyrir lífstíð. Á fullorðinsárum
kynnist hún aftur æskuást sinni, en þó að hann sé samkvæmt henni sá eini sem
viti hver hún er, á hún jafn erfitt með að gefa sig ástinni og að gefa sig lífinu. Við
þessa sögu tvinnast svo sagan af Nellí, fátækri og drykkfelldri konu á Grettisgöt-
unni sem Lilla kynnist, og ekki síst dóttur hennar Dóru (eða ,,Dór“) sem er tekin
sem barn frá Nellí af yfirvöldum og sett í fóstur. Sagan af Dór er að hálfu leyti
hugarsmíð Lillu, en mæðgurnar skipta talsverðu máli fyrir textann í heild.
Það er vel til fallið að bera skáldsöguna saman við fantastísk verk bók-
mennta- og kvikmyndasögunnar: Líkt og í nóvellunni The Turn of the Screw
eftir Henry James eða þá í kvikmynd Alejandro Amenábar, The Others, er les-
andi Sólskinshests á einn eða annan hátt að bíða eftir því að miðilsfundurinn
taki enda, að bíða eftir því að dauði barnanna (Lillu og bróður hennar) sé á einn
eða annan hátt staðfestur.1 En maður fær aldrei staðfestingu, heldur eru þau líkt
og eilíflega föst í hálf-dauðu tómarúmi hússins. Sjafnargatan er rými þar sem
dauðinn hefur átt sér stað, en persónurnar tóra enn í þessari póstmortem ver-
öld, efins um tilverurétt sinn. Það má heyra á orðum Lillu þegar hún vaknar
aftur eftir róandi svefnsprautu sem móðir hennar gefur henni: ,,Mér leist ekki
á að hafa vaknað aftur ef það hefði ekki verið meiningin“ (38). Lesandi spyr sig
um aðdraganda eða ástæðu þessarar líkskoðunar, og spurningin er vandmeð-
farin. Eins og áður sagði, er ástin ekki undanskilin heildarleiknum. Líkt og í
fyrri verkum veltir Steinunn hér fyrir sér þversögninni (og tragedíunni) í til-
veru okkar: Að þótt vegir ástarinnar og lífsins séu að mörgu leyti einn og sami
vegurinn, er hægt að deyja á vegi ástarinnar en tóra samtímis á vegi lífsins.
Í Tímaþjófnum verður Alda fyrir ólæknandi ástarsorg og varpar sér viljug í
hyldýpi þrárinnar á sinn skáldlega hátt. Eftir sinn ástarmissi lokar Brynhildur
í Hundrað dyrum í golunni augunum gagnvart þessu sama hyldýpi og bælir
þar með stærsta hluta sjálfrar sín. Í Sólskinshesti er eins og Lilla verði ekki fyrir
ástinni heldur fæðist hún inn í heim sem er lamaður af ástar- og dauðaþrá.
Ragnhildur og Haraldur eru ekki bara of upptekin í starfi til að vera til fyrir
sín eigin börn, heldur eru þau (meðvitað eða ómeðvitað) á flótta undan því
óumflýjanlega. Líkt og Brynhildur, eru þau fyrst og fremst draugar ástar sem
dó. Með öðrum orðum, þau eru fórnarlömb ,,VARANLEGRA ÁSTARSORGA“
sem skildu „Ragnhildi eftir tuttugu og tveggja ára svo örvinglaða að hún varð
dúx í læknadeild“ (54). Persónan Lilla er ,,dæmd til að hrekjast“, ekki vegna
þess að hún gefur sig tilfinningum sínum á vald eins og Alda, heldur vegna
þess að hún þekkir ekkert annað en dauðann í öllum sínum birtingarmynd-