Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 117
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 3 117
Rödd sögumannsins er þrúgandi fjarvera. Og það sem gerir textann enn myrk-
ari (og um leið beittari) eru þau örfáu brot þar sem glittir þó í það líf, í þá
,,hundrað prósent nærveru“ sem hefði getað orðið en varð aldrei (148). Sól-
skinshestur hverfist að mörgu leyti um þá hugmynd að til séu „fræ sem fengu
þennan dóm: // að falla í jörð, en verða aldrei blóm“, enda liggur ljóð Davíðs
Stefánssonar líkt og rauður þráður í gegnum textann.3
Mér verður hugsað til hins tvíræða titils á leikriti Martin Crim, Attempts on
her life, því í ástandi sem er hvorki líf né dauði er þó möguleiki á hvoru tveggja.
Hvort Sólskinshestur sé tilraun til að taka Lillu endanlega af lífi, eða tilraun til
þess að blása í hana lífi, er erfitt að svara. (Og væri það þá hennar eigin tilraun
eða textans?)
Óvissan, ásamt þeim lamandi áhrifum sem Lilla hefur á textann, gerir bókina
erfiða aflestrar og erfiða að túlka. Sögumanninum er ljáð hlutverk þess sem syrg-
ir horfna ást, en hvernig á að segja frá ,,því sem aldrei gerðist“? Í stað sinnar eigin
sögu, blæs Lilla lífi í hliðarsjálf sitt – Dór – sem heitir víst Dóra, enda varð hún að
blómi. Í bréfi til hennar sem var þó aldrei sent segir hún: ,,Ég óska þér velfarnaðar
og ég hef trú á hamingju þinni. Minni eigin hrinti ég frá og varla mun ég detta um
hana þegar fram líða stundir.“ (78) Sú symbíósa sem ríkir á milli Lillu og Dór(u)
er að mörgu leyti hrífandi. Þó kemur orðið ‘hálfkarað’ upp í huga minn, og ég velti
fyrir mér hvort sumir kaflar hafi verið skrifaðar of hratt.
En í lokakafla Sólskinshests hverfa ofangreindar efasemdir: Lesandi skynjar
að biksvartir, þungir og þéttofnir þræðir sögunnar gætu aldrei hitt fyrir ljós-
móður nema í katakombu. Í bið Lillu eftir dauðanum og eftir því sem hún kallar
,,síðasta sársauka“ nær grimm speglun lífs og dauða hápunkti. Á þessum loka-
síðum spyr lesandi sig hvort Lilla sé nú hugsanlega að upplifa þann sársauka sem
hún hefur beðið eftir allt sitt líf, hvort hún sé nú að finna til. Því þótt það séu enn
og aftur ,,heimatilbúnu skuggarnir“ sem eiga yfirhöndina í nálgun Lillu á lífi
sínu og dauða, er því öðruvísi farið með textann sjálfan (108). Lesandi heyrir tif
hinnar uppleystu hljómsveitar í gegnum raka moldina, hann finnur sársuka
glataðs tíma, hann skynjar ástina sem hefði getað blómstrað og hann sér glitta í
möguleika (sólskinshest?) í þessu eyðilandi sem við köllum líf. Og í gegnum sárs-
auka þess sem aldrei varð finnur lesandi, að það er hér sem margbrotinn dauði
verksins tekur á sig mynd þeirrar upprisu sem ferjar textann heima á milli. Ekki
einu sinni dauðinn getur rænt lífið öllum kostum þess. Og eru þeir ekki fagrir að
sjá úr gröfinni? ,,Annar kostur við lífið er gönguferð úti í náttúrunni, með ein-
hverjum. Undrunarefni hátt og lágt og hægt að tala um þau við samferðamann
– jafnvel þótt himinn sé lágreistur og viti ekki endilega á gott.“ (179)
Tilvísanir
1 Sjá t.a.m. grein Úlfhildar Dagsdóttur um Sólskinshest í Lesbók Morgunblaðsins
15. júlí 2006, þar sem hún minnist á líkindi bókarinnar við The Others.
2 Steinunn Sigurðardóttir, Tímaþjófurinn (Reykjavík: Iðunn, 1986), bls. 81.
3 Davíð Stefánsson, ,,Til eru fræ-“ í Ljóðasafni II (Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1995),
bls. 69.