Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 139
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 3 139
Þriðja erindi, 1. l.: Bros þitt féll sem geisli inn í hjarta míns hyl (Og fremst í
línu, framan við bros, fellur brott).
Þriðja erindi, 4. l.: minn siguróð, mín svanaljóð, ó, Sigrún, kysstu mig (sigur
óð í stað sumaróð).
Samkvæmt þessu er ljóð Jóhanns svohljóðandi í heild sinni:
Augun þín hin djúpu eru drauma minna nótt.
Þar dreymdi mig að heimurinn var fagur.
Og sorgirnar í hjarta mínu sofnuðu rótt,
úr sortanum steig dagur,
úr sortanum steig lífs míns fyrsti dagur,
því fjöregg mitt var fólgið hjarta þínu.
Rödd þín er vængurinn sem ljóði mínu lyfti,
er ljósið sem húminu frá augum mér svipti,
er þráin sem að bar mig upp í söngsins sólarhallir,
er sverðið sem að harmar mínir dóu allir, allir.
Bros þitt féll sem geisli inn í hjarta míns hyl.
Það heillaði ást mína loga sinna til.
Þú vaktir eld minn, Sigrún, nú syng ég fyrir þig
minn siguróð, mín svanaljóð, ó, Sigrún, kysstu mig.
Skylt er að taka fram að þar sem ljóðið hefur aðeins varðveitzt í munnlegri
geymd, verður ekki vitað til hlítar hvernig skáldið hefur hagað greinarmerkja-
setningu, og ber ég ábyrgð á henni í þessum prentgerðum.