Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 114
B ó k m e n n t i r
114 TMM 2006 · 3
Í eftirmála ræðir Sjón um forvera sína, skáldin Heine og Baudelaire, sem
töldu að goðin biðu síns tíma og yrðu sýnileg á ný og gengju ljósum logum um
mannheima. Sjálfur telur Sjón að á nítjándu öldinni hafi goðin fengið „færi á
að gera það sem þeim er svo einkar lagið: að snerta sálir okkar. Þar skildu þau
eftir guðleg fingraför sín, hlykkjótt eins og gamla söguþræði“ (bls. 142). Hér
víkur hann að kjarna goðsagna, þær eru ekki sögur úr fortíðinni heldur eiga
þær sér djúpa samsvörun í sálarlífi lesenda og þess vegna koma þær okkur við.
Þetta mun vera hugmyndalegur kjarni á bak við ritröðina Goðsagnir, og þegar
sögur Keneifs og Valdimars sameinast opnast skilningur á þessu. Rétt eins og
Valdimar er ekki samur eftir endasleppt ferðalag sitt getur lesandi sem sökkv-
ir sér ofan í Argóarflísina ekki hætt að hugsa um hana í bráð. Kannski eltir
sagan hann eins og silfurmávur?
Ása Helga Hjörleifsdóttir
,,En uppleyst hljómsveit
tifar enn fyrir ofan mig“
Steinunn Sigurðardóttir: Sólskinshestur. Mál og menning 2005.
Í byrjun skáldssögunnar Sólskinhests eftir Steinunni Sigurðardóttur segir aðal-
persóna og sögumaður frá tilkomu sinni í heiminn. Þá hafði móðir hennar hætt
í (og þar með leyst upp) Mandólínhljómsveit Reykjavíkur, ,,en uppleyst hljómsveit
tifar enn fyrir ofan mig“, segir sögumaður (bls. 5). Við lestur á þessu upphafi er
það sjónarhornið sem sker í augu – að uppleyst hljómsveit tifi enn fyrir ofan hana
– líkt og sögumaður tali úr gröfinni, þá líklega dáinn en þó ekki alveg.
Þessi fyrsta síða bókarinnar gefur tóninn, því textinn, sem og aðalpersónan
Lilla sjálf, ásækir mann líkt og að handan; að lesa Sólskinshest er eins og að
ganga einsamall um illa upplýstar katakombur og finna hvernig manns eigið
hjarta slær hægar og hægar með hverju skrefinu.
Sagan, eins og líf flestra persónanna, er röð tilbrigða við dauðastefið. Og ástin
er ekki undanskilin. Bráðfeig ástin er ekki nýtt viðfangsefni höfundar, en það er
eitthvað í þessari nýjustu skáldsögu sem ferjar lesandann í dýpra myrkur en áður.
Í framhaldi af þeirri listrænt skapandi melankólíu sem ríkir í verkum eins og Ást
inni fiskanna, Tímaþjófnum eða Hundrað dyrum í golunni, þarf lesandi Sólskins-
hests oftar en ekki að fóta sig í niðamyrkri. Lilla er nafnlaus að mestu, þótt hún
eigi nokkur nöfn (Lilla? Lí? Kata[komba]?), og forðast eigin sjálfsmynd eins og
heitan eldinn. Eins og ég mun ræða, skapar persónugerðin ýmis frásagnarvanda-
mál. Þótt Lilla sé ekki sama skáldið og segjum Alda Tímaþjófsins, er sköpunar-