Lystræninginn - 01.05.1979, Qupperneq 12
Jón frá Pálmholti
Þegar forsetinn kom á Mokka
Siggi sæti kom hlaupandi innúr dyrunum og beint til
mín að borðinu. Siggi sæti hefur lengi verið á sjó, siglt
flest höf og gist margar borgir. Hefur verið farmaður
ein fimmtán ár, en aldrei slitið rætur sínar upp úr jarð-
vegi miðborgarlífsins í Reykjavík. Þar ólst hann upp og
þar er enn hans heima. Við hittumst annað veifið, þegar
hann er í landi. Alltaf kemur hann hlaupandi einhvers
staðar að og alltaf kann hann einhverja sögu að segja.
Sú saga getur þó allt eins verið frá heimaslóðum hans
hér í borg, sem fjarlægum höfnum eða úthöfum. Stund-
um er því líkast, að hann hafi aldrei farið burt.
Siggi sæti er ekki beint fríður, hvað þá sætur á sínu
ytra borði. Nefið er þríbrotið og klesst út á aðra kinn-
ina. Annað augað sokkið til hálfs og hakan skörðótt og
með örum. Tennurnar flestar farnar á haf út og rautt ör
á vinstri vanga setur sérkennilegan bófasvip á hann
þeim megin. Hann er þrjátíu og fimm, eða svo að
áratölu á mannlífsskútunni, en ókunnugir áætla oftast
sextíu til sjötíu og þykjast fara varlega í sakirnar.
Hefurðu heyrt það nýjasta, sagði Siggi um leið og
hann hlammaði sér ofaní stól gengt mér við borðið.
Nei, sagði ég. Áreiðanlega ekki. Hvað er nú títt. Siggi
hló svo andlitið hristist. Hefurðu heyrt þegar forsetinn
kom á Mokkakaffi.
Nei, sagði ég. Kom forsetinn þar.
Siggi hló enn. Ja, sagði hann þegar hann loks mátti
mæla. Vinur minn sagði mér söguna áðan og ég er enn
að hlæja.
Fáðu þér kaffi, sagði ég og hellti kaffi handa honum í
vatnsglas sem stóð á borðinu. Hann saup á, seildist ofan
í buxnastrenginn og dró upp pela og hellti útí. Hann
hellti líka úti hjá mér.
Það var um daginn, sagði hann, að forsetinn ákvað að
fá sér kaffisopa á Mokkakaffi við Skólavörðustíg. Þú
þekkir þann stað og hann Guðmund sem rekur staðinn.
Ég veit það.
Guðmundur var nýkominn heim um kvöldið.
Klukkan var að verða sjö og stelpa á vakt. Þá er hringt
heim til Guðmundar og honum sagt að von sé á forset-
anum í kaffi uppúr sjö. Guðmundur brá við, æddi útí
bílinn og spanaði beint í bæinn og snaraðist inní kaffi-
stofuna með feikna krafti. Hann greip strax tusku og
hamaðist við að pússa og sópa. Skipaði stelpunni að
hjálpa til eins og hún gæti. Niðri i kjallara eru geymslur
og þangað sótti Guðmundur stóra tertu og sem hann
lagði frá sér tertuna á afgreiðsluborðið sér hann hvar
maður sat í horninu útvið gluggann. Hann þekkti
manninn. Þetta var þekktur vandræðamaður á kaffi-
húsum. Maður sem oft var þaulsætinn, bar með sér vín
og blandaði á staðnum.
Ég verð að fá helvítis rónann út, hvíslaði Guðmundur
að stelpunni.
Jesús minn já, hvíslaði stelpan á móti.
Guðmundur gekk til mannsins og bað hann að gjöra
svo vel að fara út. Maðurinn neitaði og spurði hvað
hann hefði gert, að mega ekki klára pilsnerinn. Gerðu
það fyrir mig að fara, sagði Guðmundur. Það stendur
dálítið til. Það er prívat hérna á eftir.
Hvað stendur til, sagði róninn.
Það er prívat, endurtók Guðmundur. Og farðu nú.
Eg fer ekki neitt, sagði róninn. Ég má klára
pilsnerinn, ég er búinn að borga hann. Hvers vegna var
mér ekki sagt þetta strax.
Svona farðu nú, sagði Guðmundur og þreif í öxl
rónans. Komdu nú, sagði hann og gerðist höstugur í
máli. Róninn neitaði. Guðmundur ýmist hótaði eða
bað, en ekkert gekk. Róninn sat sem fastast og hellti
víni út í pilsnerinn. Ertu vitlaus drengur, sagði Guð-
mundur. Ætlarðu að sitja hér og blanda, þegar
forsetinn er að koma.
Er forsetinn að koma, hrópaði maðurinn. Ég verð að
hitta hann. Ég þekki hann síðan ég sýndi í Bogasalnum.
Farðu nú strax, æpti Guðmundur og hugðist láta
hendur skipta. Farðu nú, hrópaði hann aftur. Hann
getur komið á hverri stundu. Gerðu það nú fyrir mig að
fara.
Það er fínn náungi forsetinn, sagði róninn. Ég ætla að
gefa honum útí kaffið.
í guðs bænum farðu, veinaði Guðmundur og var
orðinn hás af bræði.
Hann er að koma, hann er að koma, hrópaði stelpan
og stökk inní herbergið innaf stofunni og lokaði að sér.
Guðmundur leit útum gluggann og sá forsetann og
bílstjóra hans ganga að dyrum kaffistofunnar. Hann
þurrkaði svita af enni sér og stundi. Forsetinn gekk inn
og bílstjórinn á eftir. Guðmundur heilsaði, leiddi þá inn
og spurði hvað mætti bjóða.
Kaffi og tertu fyrir tvo, sagði forsetinn og fékk sér
sæti næst útidyrum. Bílstjóri settist líka.
Róninn reis á fætur, þegar hinir voru sestir, gekk til
forseta með útrétta hönd og heilsaði.
Nei komdu sæll og blessaður Eyjólfur minn, sagði
forsetinn. Hvernig gengur hjá þér lífsbaráttan.
Það veltur á ýmsu, sagði Eyjólfur. Má ekki bjóða þér
úti kaffið. Hann veifaði pelanum.
Það er sama og þegið Eyjólfur minn, sagði forsetinn.
Ekki núna, þakka þér fyrir.
Kannski seinna, sagði Eyjólfur og settist við borðið
hjá forsetanum.
Það getur vel hugsast, sagði forsetinn. Ég á það til
góða. Ertu að mála núna.
Þegar Guðmundur sá hverju fram fór milli rónans og
forsetans, þar sem hann stóð við afgreiðsluborðið og
skar tertuna, varð honum svo mikið um að hann í ógáti
bar hnífinn uppað andlitinu og stökk útum hann blóð. í
fyrstu reyndi Guðmundur að stöðva blóðrennslið með
vasaklút sínum, en ekki dugði það og rann blóð í
taumum niður höku hans, ofaná bringu og um hendur.
Þeir forseti og Eyjólfur sneru baki að dyrum, þar sem
þeir sátu og horfðu inn. Sáu þeir brátt að ekki var allt
með felldu hjá Guðmundi. Hvað er þetta, sagði forseti.
Maðurinn er alblóðugur. Hvað hefur komið fyrir.
Þeir risu báðir á fætur og til Guðmundar, sem stóð
ráðþrota og flaut allur í blóði sínu. Þeir komust brátt að
því að í ofboðinu hafði Guðmundur borið hnífinn að
nefi sínu og skorið nefbroddinn af.
12