Lystræninginn - 01.05.1979, Blaðsíða 18
Hallveig Thorlacius
Fáeinar hugleiðingar
um brúðuleikhús
Upphaf brúðuleiklistar í Evrópu
Brúðuleiklist, eins og raunar öll leiklist, á rætur sínar
að rekja til trúariðkana. Leikbrúður voru upphaflega
líkneskjur, sem voru áhrifameiri vegna þess að þær gátu
opnað munninn, hreyft augun eða lyft öðrum hand-
ieggnum. Seinna er svo farið að sýna trúarleiki með
hreyfanlegum líkneskjum og loks kemur að því, að
brúðan slitnar úr tengslum við guðinn, sem hún á að
tákna. Upphaf leiklistar í Evrópu er mjög tengt dýrkun
Díonysosar meðal forngrikkja. Díonysos var í fyrstu
lítt þekktur guð norður í Þrakíu, en varð allt í einu mjög
vinsæll í Aþenu og allt að því „súperstjarna" á borð við
Elvis Presley eða Bítlana. Hann var dýrkaður af svo
miklum móði og lifandi þátttöku almennings, að gamlir
dýrkunarsiðir dugðu ekki lengur og ný form urðu að
koma til.
Frá grikkjum barst brúðuleiklist vestur á bóginn,
fyrst til Rómar og síðan norður á við. A miðöldum hefst
nýtt þróunarskeið í sögu hennar. Þá mótast hún mjög af
„commedia dell’arte" og upp úr þeirri blöndu spretta
ýmsar frægustu hetjur markaðstorganna í Evrópu:
Punch, Petrúska, Kasperl, Hans Wurst, Pickel Herring,
Polichinelle, Mester Jakel, Guignol, La Fleur og
Gianduja.
Lífsseigur leikmáti
Þessi tegund brúðuleikhúss, sem fæddist á
markaðstorgum Evrópu lifir enn góðu lífi, þótt hún hafi
tekið nokkrum breytingum í tímans rás. Víða á Norður-
löndum eru Mester Jakel leikhús fastur liður á dagskrá í
skemmtigörðum, eins og Tívolí, Dyrehavsbakken,
Skansen o.fl. í Þýskalandi þekkir hvert barn Kasperog
Guignol er vel metinn borgari í Frakklandi. Punch og
Judy eru síst minna þekkt i Bretlandi en Filippus og
Elísabet. Karagiosis er frægasti prakkarinn í grísku
skuggaleikjunum og er hegðan hans mjög í ætt við þá
vesturlensku kappa, sem áður voru nefndir.
Meistari Jakob
Meistari Jakob, sem margir eru farnir að kannast við
á íslandi, sver sig í ætt við þessa frændur sína í Evrópu.
Ýmsir hafa orðið til að efast um uppeldisgildi þessarar
gömlu markaðsleikja. Sumir hafa kvartað yfir því, að
þeir æsi börnin upp, aðrir ganga svo langt að saka
okkur, sem berum þetta á borð fyrir börnin, um að
kynda undir ofbeldishneigð. Þessir leikir eru í ætt við
farsann, byggjast á flækjum og misskilningi, sem
áhorfendur taka þátt í að leysa. Slagsmál hafa tilheyrt
þessum leikmáta allar götur frá því á miðöldum, og
enginn getur sannfært mig um, að börn bíði tjón á sálu
sinni við að sjá pappabrúðu berja aðra pappabrúðu í
hausinn. Enda hafa börnin lifað þetta af hingað til og
ekki tekið þetta eins nærri sér og blessaðir uppalend-
urnir. Hitt er svo annað mál, að vaxtarbroddur íslensks
brúðuleikhúss er vitanlega ekki í þessum gömlu
försum. En við höfum látið þá fljóta með af því að
krakkarnir skemmta sér yfirleitt konunglega. Og af
hverju mega börn ekki fara i leikhús til þess að skemmta
sér, án þess að neitt sérstakt búi á bak við það?
Brúðuleikhús í stað íslendingasagna
Hvergi í heiminum stendur brúðuleikhús á eins
gömlum merg og í Indónesíu. Þar skipar brúðuleikhús
þann sess, sem sögurnar höfðu í hugum okkar Islend-
inga. Algengasta formið er skuggaleikhús. Brúðurnar
eru flatar, skornar út úr leðri og málaðar á mjög fin-
legan hátt. Stjórnandinn situr bak við strengdan lérefts-
dúk, sem lýstur er upp með sterkum ljóskösturum að
aftan (áður var notast við olíulampa). Hann þrýstir
brúðunum upp að léreftinu og hreyfir þær með pinnum.
Þegar kvölda tekur á Jövu safnast allir, sem vettl-
ingi geta valdið, framan við tjaldið. Strákarnir setjast
upp á mótohjólið sitt með kærustuna fyrir aftan sig og
ferðinni er ekki heitið í bíó, heldur í brúðuleikhús.
Vanalega er aðeins einn stjórnandi með 5-10 hljóð-
færaleikara á bak við sig. Sýningin byggir að mestu á
fornum hetjusögum og í henni er mikið stuðst við
táknmál. Inn á milli er skotið kjaftasögum úr bænum,
skrýtlum og athugasemdum um stjórnmál. Þarna er
svo setið fram undir morgun og menn geta farið og
komið eftir vild. í Indónesíu er ekki haldin brúðkaups-
veisla eða afmæli án þess að brúðuleikur í einhverri
mynd sé framinn.
Upphaf brúðuleikhúss á íslandi
Það er sagt, að fyrsta brúðuleiksýning á Islandi hafi
verið á Eyrarbakka árið 1914. Það var Dani, sem þar
bjó, sem setti upp „Jeppa á Fjalli“. Hann sýndi þennan
leik seinna sama ár á Neskaupstað. Það fylgir sögunni,
að fyrir bragðið hafi hann verið talinn hálfgalinn (það
liggur við, að ofurlítið eimi eftir af þeim hugsunar-
hætti ennþá, þótt hann sé á undanhaldi).
Árið 1934 var Reykvíkingum boðið upp á Faust-sýn-
ingu, sem nemendur Myndlistarskólans í Reykjavík
unnu undir handleiðslu Kurt Zier. Síðar kom Jón E.
Guðmundsson til skjalanna og ferðaðist í mörg ár um
landið með brúður sínar. Hann var lengi sá eini sem hélt
leiksýningar fyrir almenning. Leikbrúðan hefur lítið
verið notuð sem kennslutæki hér á landi, enda þótt
möguleikarnir í þeim efnum séu nærri óþrjótandi. Þó
vann Margrét Björnsson, kennari við Hlíðaskóla, ötul-
lega að þeim málum bæði innan skólans og utan. Árið
1969 var haldið námskeið í leikbrúðugerð á vegum sjón-
varpsins og undir leiðsögn Kurt Zier. Það var upphafið
að stofnun „Leikbrúðulands“, sem undanfarin 5 ár
hefur haft fastar sýningar að Fríkirkjuvegi 11.
Fastir meðlimir í Leikbrúðulandi eru 4: Erna Guð-
marsdóttir, Bryndís Gunnarsdóttir, Helga Steffensen
og Hallveig Thorlacius. Hólmfríður Pálsdóttir hefur
verið aðalleikstjóri flokksins og Þorbjörg
Höskuldsdóttir gert leiktjöld og oft gripið í að stjórna
brúðum.
Þessi starfsemi verður æ meiri að vöxtum og má
segja, að vísir að atvinnuleikhúsi sé að spretta upp
þarna á tjarnarbakkanum.
Fyrir 2 árum tókst samvinna með leikurum og mynd-
listarfólki um leiksýningu á brúðuleikhúsviku að Kjar-
valsstöðum. Nemendur við Leiklistarskóla íslands hafa
verið mjög vakandi í þessum efnum og stundum notað
brúður í sínum leiksýningum.
Þjóðleikhúsið hefur tvisvar fært upp sýningar með
leikbrúðum. Var önnur þeirra í kjallaranum, „Milli
himins og jarðar“ og hin á stóra sviðinu. Það var
gestaleikur frá Svíþjóð, „Litli prinsinn“ með brúðum
frá Marionettteatern. Michael Meschkestjórnaði þeirri
sýningu og var hún færð upp með sænskum stjórnend-
um, en „Leikbrúðuland" tók síðan við þeim.
18