Norðurslóð


Norðurslóð - 16.12.1980, Blaðsíða 10

Norðurslóð - 16.12.1980, Blaðsíða 10
 Góðkunningi minn, Bjarni Há- konarson frá Reykhólum, lengi búsettur á Akureyri en síöast í Reykjavík, kom á minn fund einhvérntíma kringum 1950 og gaf mér handrit að rímnaflokki sem nefnist Rímur af Transelíusi og sagði að þær ættu að vera eftir Hans Baldvinsson frá Upsum, þótt ekki sé neitt höfundarnafn í handritinu. Þetta þótti mér góð gjöf, því að margt heyrði ég sagt frá Hans gamla í bernsku minni og æsku. Það sem mest hélt minningu hans á lofti langt fram eftir þessari öld og gerir kannski enn var sú dapurlega saga að hann hefði fimmtán ára að aldri orðið ungri stúlku að bana með voða- skoti. Gekk hún síðan aftur og var talin fylgja Hans og frænd- um hans ýmsum og höfðu margir orðið hennar varir. Og sannarlega varð hún fylgja Hans (eða Hansar eins og líklega var sagt)_, því að alla sína I öngu ævi varð hann að búa undir þessu ámæli, þó að nú þyki koma skýrt fram við rann- sókn réttarskjala að hann hafi hvergi nærri komið þessu „ólukkutilfelli" eins og faðir hans séra Baldvin nefndi það, heldur hafi stúlkan sjálf rjálað við byssuna með þessum hömu- legu aneiðingum. Jón gamli Jóhannsson á Tjörn talaði oft um Hans og hafði verið honum nákunnug- ur. Aldrei heyrði ég hann eða neinn annan hafa nokkur eforð um að hann hefði skotið Upsa- Gunnu. En hann sagði fleira frá honum, fórtil dæmis með lausa- vísur eftir hann, en ekki minnist ég þess að hafa nokkurntíma heyrt að hann hafi ort rímur. Það hefur hann þó gert eins og nú er komið á daginn. Það kom í ljós við athugun að handritið af Transelíusrímum, sem Bjarni gaf mér, mundi vera eina handritið sem til er af þeim. Ég skrifaði því rímurnar upp handa sjálfum mér en gaf Landsbókasafni handritið frá Bjarna árið 1957 og er það nú þar, Lbs. 3367 8vo. Þegar eftir var grennslast kom á daginn að í safninu eru tvö handrit af átta rímna flokki sem einnig eiga að verá eftir Hans, Rímur af Þorgrími mikla, út af sögu sem mörg önnur rímnaskáld hafa ort um, þar sem aftur á móti er ekki vitað til að aðrir en Hans hafi gerst til að yrkja um Transelíus kóngsson. Þorgríms- rímur Hansar eru nú Lbs. 1369 8vo og Lbs. 2988 8vo í handrita- safni Landsbókásafnsins. Hér við bætist svo að Jón Borg- firðingur hefur einhversstaðar sagt að Hans hafi ort fimm rímna flokk af Ajax fjölkunn- uga (keisarasyni), en óþekktar eru þær rímur nú. Er þá öllu til skila haldið sem mér erjkunnugt um rímnakyns og eignað er Hans Baldvins- syni, og skal þegar tekið fram að engin dstæða er til að rengja að Transelíusrímur og Þorgríms- rímur séu í raun og veru eftir hann. Hvorugar eru þó í eigin handarriti. Ekki er ætlun mín að gera neina veigamikla úttekt á rímna skáldskap Hansar, heldur að- eins kynna hann lítilsháttar, einkum Transelíusrímur. En áður en það verði get ég ekki stillt mig um að gera ofur- litla grein fyrir skáldinu, því að allmjög mun nú vera farið að fyrnast yfir minningu hans, jafnvel meðal heimamanna. Hans fæddist á Upsum 10. des. 1819 og dó í IJpsabúð 16. febr. 1898. Hann var það sem kallað er vel ættaður maður og það í báðar ættir. Faðir hans var séra Baldvin Þorsteinsson, síð- asti prestur á Upsum (d. 1858), en móðir fyrri kona prestsins, Filippía Erlendsdóttir klaustur- haldara á Munkaþverá Hjálm- arssonar. Segir Stefán fróði Aðalsteinsson að til maddömu Filippíu megi rekja hversu algengt Filippíunafnið varð í Svarfaðardal og fellst ég á að svo muni vera. Frá séra Baldvin og konum hans tveimur er kominn gífurlegur ættbogi sem víða hefur látið til sín taka á þessari öld. Hafa þau Upsa- systkin öll, meðal annarsHans sjálfur, orðið ágæt mjög af niðjum sínum, því að meðal þeirra er að finna framámenn marga á öllum sviðum þjóð- lífs og yrðu þeir seint allir upp taldir. Ekki dylst að í þessum hópi eru margir þjóðkunnir listamenn, skáld og rithöfund- ar. Jóhann Sigurjónsson var dóttursonur þeirra áðurnefndu Upsahjóna, svo að eitthvað sé nefnt og ekki laklegt. Má þá minnast þess að séra Baldvin var af miklu skáldakyni, þótt ég minnist þess ekki að hafa séð hann sjálfan bendlaðan við skáldskap. En Jónas Hallgríms- son var bróðursonur hans og þarf þá ekki fleiri vitna við, þótt auðvelt væri að kveðja fleiri til. Nokkra undrun vekur að séra Baldvin, sem sjálfur var af röktum prestaættum á allar síður, skyldi ekki setja að minnsta kosti einn af þremur gáfuðum sonum sínum til mennta. Slíkt gerðu þó bræður hans, séra Stefán og séra Kristján, og ekkja séra Hall- gríms bróður hans braust í að kosta Jónas son sinn í skóla. Þetta var allt næstum því sjálfsagt. En einhverra hluta vegna hafði séra Baldvin annan háttinn á. Ef til vill hefur hann skort metnað fyrir hönd sona sinna fremur en að honum væri fjár vant, því talinn er hann hafa verið hagsýnn búsýslumaður og útgerðarmaður og sæmilega I álnum, þó að brauðið væri að vísu í rýrara lagi. Mér hefur dottið í hug að útgerðin á Upsa- strönd hafi dregið hug bræðr- anna fastar til sín en mennta- brautin. Slíkt er getgáta, en víst er að þeir urðu allir bændur og sjómenn, óbreyttir alþýðu- menn, og átti það í fyllstum mæli við um Hans Baldvins- son. Hann varsmábóndi, þurra- búðarmaður og sjóró ðramaður á Upsaströnd alla sína tíð, oftast sárfátækur og komst aldrei til neinna mannvirðinga eða met- orða. Ómegð híóðst á hann snemma og lífsbaráttan var hörð. Varla hægt að segja að hann kæmist nokkurntíma nema að nafninu til í bænda tölu, heldur hafði hann ofan af fyrir sér og sínum með fáeinar skepnur, en fiskifang hefur öðru fremur haldi í þeim líftór- unni. Á nítjándu öld voru hans líkar ekki fáir við sjávarsíðuna kringum allt land. Æviganga Hansar var stutt í rúmi, frá Upsum niður á Upsamöl, e.n hún var löng í tíma óg small að verulegu leyti saman við 19. öldina, þann tíma sem kenna má við segl og ár, þann tíma þegar fátækir landlausir menn fóru að hreiðra um sig og hyski sitt í sjóbúðum þar sem nú er Dalvíkurkaupstaður. Slíkir menn voru ekki hátt skrifaðir, og vissulega var Hans Baldvins- son það ekki. Ýkja vinsæll var hann ekki heldur, þótti svara- kaldur og meinyrtur, enda lék lífið hann hart. En fráleitt væri að hugsa sér hann sem einhvers- konar afhrak, og vini hefur hann átt góða eins og sést af þessari prýðilega ortu nýársósk til Þorsteins Þorsteinssonar smiðs: Lánið þakka á blöðum ber bið ég, vinur kæri, árið nýja alla þér auðnu og blessan færi. Það mætti segja mér að Hans Baldvinsson hafi verið líkt og í einhverskonar álögum alla sína ævi. Eins og Bólu-Hjálmar. Hann minnir mig á hann með einkennilega áleitnum hætti, þó ég ætli mér ekki að bera skáld- skap þeirra saman. Það er einhver sameiginlegur nítjándu- aldar hrikabragur yfir báðum þessum fátæku gáfuðu mönn- um. Þetta er mín tilfinning. Þá er a ð snúa sér að skáld- skap Hansar. Lausavísur hans nokkrar hafa geymst í minnum og sýna að hann var hagorður vel og gat verið orðskár og illskælda ef svo bar undir. Ekki verða þær tíundaðár hér, því það eru rímurnar sem til um- ræðu eru. Fyrst skal vikið Iítil- lega að Þorgrímsrímum, sem skáldið segist (í mansöngvum) hafa ort fyrir góðan vin sinn ónafngreindan. í rímunum svallar Hans mjög í stórkarla- legum kenningum sem hann hefur sýnilega haft gaman af eins og margir skáldbræður hans. Hér verður aðeins gripið niður í mansöngvana, enda þar eftir mestu að slægjast eins og oft vill verða. 1 mansöng annarrar rímu kvartar skáldið undan illu umtali manna: Nú að hastar siður sá síst er víst ég gleyrpi, bæði lasti og lygum þá lýðir kasta mig upp á. Margir slaðra menn um heim margt óþarft um hina, upp þó flaðri í eyrum tveim, eitruð naðra er betri þeim. Skyldi Upsa-Gunnumálið ekki vera á kreiki í huga skálds- ins? í mansöng 3. rímu ber Hans sig upp undan megnu brenni- vínsleysi, enda þáði hann sop- ann sinn eins og flestir á þeirri miklu brennivínsöld: Ekkert hressir óðar versa smiðinn, þurru brjósti þvi að frá þessu hósta kvæði má. í enn einum mansöng biður hann að hætti rímnaskálda að menn virði sér á betri veg þó ekki sé all-fimlega ort: Þó að hefja þenkti hér þátt með orða prjáli, mig að sama brunni bet böggulslega í máli. Mér forláta muntu þó, málma kvistur fríði, ef þú skilur efnið nóg aðrir þó það níði. Upsir um aldamótin. Málverk eftir Brimar. Kristján Eldjárn: Láttu rónwnn ryðjast út - Um rímnaskáldskap Hans Baldvinssonar Stirt mun ganga stefja rjál stundum þanka mínum, hér mun ekki heilagt mál heiðri tapa sínum. Hér lætur skáldið það koma fram að efni rímnanna sé sosum ekkert guðsorð. Sagan verður ekki rakin hér, en þannig hljóðar fyrsta vísa Þorgríms- rímna, og heyrist þar tónteg- undin: Fróni Serkja frá skal téð, frægur merkisgramur stjórn allherkinn stunda réð stáls í verki framur. Og skal nú ekki meira sagt frá Þorgrímsrímum mikla. Vænti ég þess að menn sjá af þessum sýnishornum, að ekki er með öllu klaufalega kveðið. Þá eru það Transelíusrímur sem er sjö rímna flokkur, alls 411 vísur. Sagan sjálferómerki- leg eins og oft vildi verða, sam- bærileg við reyfarakvikmyndir sem menn skemmta sér við nú á dögum á sama hátt og menn undu við rímnakveðskapinn forðum. Finnur Sigmundsson hefur í Rímnatali gert útdrátt úr sögunni á þessa leið: „Transelíus sonur Hálfdáns konungs í Garðaríki fær skip og menn til að leita sérframa, lendi í Lombardí ogsigrarþar Harald son Vilhjálms konungs af Frans. Þeir gerast fóstbræður, halda til Frans og er Ingibjörg systir Haralds heitin Transelíusi eftir að hann hefur sigrað blámann. Segir síðan af ýmsum ævintýrum þeirra fóstbræðra, uns þeir bíðir taka við ríkjum feðra sinna.“ Hér verður látið við það sitja að kynna mansöngvana,því að í þeim einum getur höfundurinn látið skína ögn í sjálfan sig. Hér kemur mansöngur 1. rímu: Fuglin Óma sviptur sút, siktu fróma veiði, láttu róminn ryðjast út rétt af góma heiði. Ef gæfan vaka vill mér hjá með visku óslaka sjóði, undir taka eg skal þá og eitthvað kvaka í ljóði. Finnst mér tíðin leið og löng, lítil víða gæði vil því blíðu fanga föng og fara að smíða kvæði. En hvað skal rögum henta mér ef heppni mjög ei nyti, út af sögu yrkja hér eina bögu af viti. Samt þó leitast víst ég vil við að skreyta hana, þó mig hið feita mærðar spil mæði að heitum bana. Á ég að biðja Óðin, nei, að brag styðja mínum? hann skal ryðja í mig ei ólánshryðjum sínum. Betra er að taka af sjálfum sér en svoddan hrak á trúa, illt mun baka öllum hér hvað úr honum lak, ef sjúga. Fátt til góða hefur hann held ég þjóðum unnið. málma rjóðar svo með sann samt hafa ljóðin spunnið. Best er að hætta hér við hreint hvað er að þvætta meira með svoddan hætti er Ijóst né leynt lætur ei sætt í eyra. Hrundir klæða hýrlegar hlusti á ræðu mína, efnið kvæða kemur þar kort mun gæði sýna. Niðurlagsvísa þessa leið: rimu er a Sama stand mér er nú á, orðinn fjandi móður, það er vandi við að rjá vel stígandi hróður. Samkvæmt fornri hefð rímna skálda lætur Hans ekki undir höfuð leggjast að tala kurteis- lega til kvenþjóðarinnar í man- söngvunum. Þessi riddara- mennska birtist þegar í man- söng fyrir 2. rímu, en þar má einnig skilja að höfundur hefur kveðið rímur sjálfur, segist nú ekki hafa meira úr að moða og verði því að hnoða mærðarskít sjálfur. Um að gera að lýsa sem hörmulegast vanmegni sínu í skáldskaparlegu tilliti. Svósegir í mansöngnum: Fyrir blíða bauga gná best ég reyna vildi brag að smíða þó mig þá þrávalt stríði flónskan á. Móins landa merkumar mér til góða haldi, þó heima ei standi hendingar ef heyrist andi sögunnar. Brögnum lengi hef ég hjá heimskur talinn verið, hlæja mengi mundi þá mig ef sprengir Ijóðaskrá. Þeim skal verða af því ei, eg mun hætta fyrri, meðan skeðist málið ei mig vil herða við það grey. Þykjast mundi eg maður þá mætti svoddan vinna, að kæta í lundu kyrtla gná kvölds nær blundunsækir á. Hef ég tíðum liðug ljóð löguð af ýmsra munni að létta striði og linna móð látið skríða úr barka slóð. En ég er í voða þegar þrýt þessi kvæðin meður, svo að hnoða sjálfur hlýt síst vel troðinn mærðar skít. Stóran baga hafði eg hér af heimsku og gleymsku minni, þar til bagan úti er ei má ragur hlífa mér. Ég skal vara mest sem má mig ef landi næði boðnar marinn aftur á Austra far að setjast þá. í lok þriðju rímu segist skáldið vera friðsamur og hóg- vær maður: Æ, ég hræðist odda klið, elska næði og góðan frið, bjúgur Iæðist blóðs um mið burt með kvæði og stend ei við. Þeir voru bræðrasynir Jónas Hallgrímsson og Hans Bald- vinsson. Eflaust hefur Hans haft bein eða óbein kynni af þessum frænda sínum og Iesið hefur hann Fjölni og rítdóminn fræga um rímnakveðskapinn og Sig- urð Breiðfjörð. Naumast er um að villast að það er Jónas frændi sem Hans sneiðir að í mánsöng fyrir 4. rímu eins og nú skal sjá: Byrja kvæði eg skal enn illa þó mér gangi, því kannski æði margir menn mín á fræðin líti senn. Flestir stytta stundir sér stöku með að raula, sinni mitt svo einninn er ef ég hitti ljóðakver. Ættu virða menn því mest mærðar smíði góða, sem lyndið stirða lífgar best og lagar í kyrrðum gæðin flest. Þeirra að níða Ijótt er Ijóð sem last forþéna eigi og ekki smíða um aðra hnjóð eða striðan kveikja móð. Best er að gæta allvel að áður en menn dæma og heldur bæta hvör sem kvað, kost ágætan tel ég það. Þvert á móti þessu að því ég löngum gáði, ýmsir blóta í allan stað ekki hót þó skilji það. Vandlætinga öld nú á ekki er gott að lifa, hvör vill ringa mest sem má mentir slyngar öðrum hjá. Mærðar glósu minni hér mun ég lítið hæla, last eða hrós af sjálfri sér samt mun kjósa þar fyrir. Mansöngur 5. rímu er merkur fyrir það að þar vottar skáldið Sigurði Breiðfjörð virðingusína og staðfestir það enn að það er ritdómur Jónasar í Fjölni 1937 sem hafður er í huga í mansöng 4. rímu. Fur ðulegar andstæður eru þessir náfrændur tveir, Hans og Jónas, runnir upp úr sama jarðvegi. Báðir yrkja, en annars eiga þeir ekkert sameig- inlegt nema fátæktina og svo það að báðir voru oft „móðir geðs um slóð“. Nú kemur man- söngur 5. rímu, undir dýrum hætti: I fimmta sinni fer nú minn fjaðra knör úr þagnar vör, mín þó sneyðist málsnilldin menntaspör af sóma hjör. Kolbeinslag ég brúka á brag, best það finn í þetta sinn, ef nöðru haga nift í dag nýta kynni hróður minn. Vorkunn tjá samt mengið má mín þó ljóðin séu ei góð, tíma smáa ég hef, já, jafnan móður geðs um slóð. Enginn maður, eg það veit, að mun gá né vilja sjá, sem mér þarf hraða mörgu að við mærðar stjá hvað bágt ég á. Þeir munu segja að ég ei ætti að taka mér á bak, ljóð að teygja um sögu, svei, svoddan makalaust afhrak. Skáldin góðu gleðja fljóð geðs um drög með orðin hög, mun ei óðum þykja þjóð þessi fögur versin mjög. Engra svalar óðar gal eyrum betur, þess ég get, en Breiðfjör ðs valið vísna hjal, vandað letur hans því met. Ólíkt mun að mínum grun mærðar glósan vor fá hrós, hans við unir hróðrar dun hrannar Ijósa blíðust rós. í mansöng 6. rímu barmar skáldið sér enn á ný undan getu- leysi sínu í skáldskapnum og segi meðal annars: Býst ég ei hér við beysnu kaupi brag fyrir lélegan, Óðinn mér í einu staupi aldrei gefa vann. Er því ekki von að verði á vísum nokkur mynd, þó að upp hugann herði hjálparlaus mannkind. Að lokum kemur svo man- söngur sjöundu ogsíðustu rímu. Nú er að. duga eða drepast og ljúka við rímurnar. Vorið er komið og annirnar kalla að, vorverkin. Ekki dugar að sitja inni og fáist við yrkingar, grá- sleppan bíður ekki eftir þeim sem það gerir, þeir vita það á Upsaströndinni: Hækkar sunna á himni skær, hallar tíðum snjóa sinn með kulda bitra blær, burt er vikin góa. Vorsins blíðu fagna fer fleirst hvað lífs sig hrærir, drottins milda miskun hér menn og skepnur nærir. Margir hlaðast annir á ekki er tími kvæða, skal ég varla þar við þá þankann lengur mæða. Því mega giska allir á ærið margt að starfa hef ég nú svo minn hér má meta lítt óþarfa. í sannleika ég segi frá svikist hef þó stundum mín um verk sem voru fá. vér það lasta mundum. Fer ég því að flýta mér fram úr öllum máta, sögunni undan síðast er svívirðing að láta. Þó mun ganga seigt og seint Suðra dýrið húna, af því ég er orðinn hreint annarshugar núna. Mér forláti mjög ágæt mörkin lægirs funa, að mitt vitið allt ég læt ofan í grásleppuna. Mun ég ekki meira hér mansöngs glósu teygja, sagan kallar svo að mér síst má lengi þegja. Nú er ekki lengur til setu boðið, útiverkin bíða ogskáldið rekur endannútinn á rímur sínar með þessum vísum: Því skal hætta þar við hreint, þanki hvílist lúinn, þó illa gengi og æði seint er ég loksins búinn. Nafn mitt rita á rímur hér rík ei nauðsyn krefur, því menn vita eins og er að einhver gjört þær hefur. Óska ég svo öllum góðs í einfaldleik þó segi, þeir sem gjöra ei mér til móðs mesta partinn eigi. 18 hundruð árin nú allir telja mega, 40 þó og 3jú þar við bætast eiga. Þrýtur letur, dugur dó, deyfist blandið sagnar, Austra set ég ára kló upp í naustið þagnar. Hér kemur það fram að Hans hefur ort Transelíusrímur árið 1843. Hann hefur þá verið 23 eða 24 ára þegar hann stóð í þessum yrkingum og trúlegt að Þorgrímsrímur séu einnig frá æskuárum hans. Búskaparbasl- ið hefur ekki verið byrjað. Hann kvæntist Rósu Jónasdóttur 1842 og bjuggu þau fyrstu tvö árin á parti úr Upsum. Senni- lega hefur hann verið sæmilega staddur þegar hann var aðyrkja rímurnar, en upp úr 1845 hófust hrakningar hans úr einu kotinu í annað, það harðnaði á daln- um, munnunum fjölgaði sem seðja þurfti, og kann það að hafa átt sinn þátt í að hann lagði rímnaskáldskap á hilluna. Vitið fór meira og meira ofan í grásleppuna. Auk þess vann tíminn á móti rímnaskáldskapn um, hann var á fallanda fæti, áhugi manna á honum dvínaði jafnt og þétt, hægt og bítandi. Ekki leynir sér að Hans Baldvinsson hefur verið vel hag- orður maður, gæddur góðu brageyra, fróðurumrímnahætti og kunnáttusamur og frjór kenningasmiður, þótt smekk- vísin í því efni sé ekki alltaf að sama skapi. Kennir þar margra skringilegra grasa. Hans er gott dæmi um skáld sem er hneppt í viðjar rímnahefðarinnar með því aðhaldsleysi og ögunar- skorti sem henni fylgdi. Er því ekki að leyna að sumar vísur hans verða fyrir þessa sök heldur böggulslegar, svo að notað sé orð hans sjálfs. Man- söngvarnir bera af og þeir eru góðra gjalda verðir, þó ekki væri fyrir annað en ádrepuna til Jónasar frænda ogsjólyktina af grásleppukörlum á Upsaströnd. Þegar á allt er litið held égsegja megi að Hans þoli vel saman- burð við ýmsa rímnasmiði sem meira eru umtalaðir, og vissu- lega sýna rímurnar sem hann kvað ungur að með eðlilegum þroska og meiri ögun hefði hann getað orðið í betra lagi liðtækur í sínum hópi. Læt ég þá lokið þessari kynn- ingu á rímnaskáldskap Hans Baldvinssonar og bið lesendur halda mér til góða, svo að notað sé orð sem hann bregður oft fyrir sig. / 1 10 - NORÐURSLÓÐ . v ' '■ ■ \ /ia NORÐURSLÓÐ - 11

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.