Morgunblaðið - 14.01.2017, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 14.01.2017, Blaðsíða 31
MINNINGAR 31 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. JANÚAR 2017 allan sem hann bar mjög fyrir brjósti á meðan hann var bóndi. Björn var bæði gjafmildur og frændhollur, alltaf reiðubúinn að snúast eitthvað fyrir vini og vandamenn eins og reyndar allt hans skyldfólk. Björn var vel ritfær og áhuga- maður um sagnfræði og forn- muni. Hann skrifaði lipran en meitlaðan texta um hin ýmsu hugðarefni sín. Hann tók líka fín- ar ljósmyndir og sinnti því áhugamáli sínu af alúð. Björn grúskaði í ýmsu og var margt til lista lagt. Það var því ánægjulegt að sjá að hann lenti á hárréttri hillu þegar hann fékk starf sem safnvörður á Byggðasafni Vest- fjarða þegar hann lét af bústörf- um í Vigur og fluttist til Ísafjarð- ar. Björn var eins og sniðinn fyrir gömlu húsin í Neðstakaupstað á Ísafirði þar sem hann hélt öllu í góðu standi eins og honum einum var lagið. Nálægðin við eyjuna sína var honum líka afar mikil- væg. Það er mikill missir að Birni frænda okkar og við söknum hans sárt. Ég votta Ingunni eiginkonu hans og börnum þeirra, Baldri og Snjólaugu, ásamt systkinum hans mína dýpstu samúð. Guð einn ræður hvenær ég kem í þetta sinn, vinur minn. Farðu í friði, elsku frændi minn kæri. Bjarni Brynjólfsson. Það var harmafregn á fyrsta degi nýs árs að kær frændi minn og vinur, Björn Baldursson, væri látinn.Við Böddi vorum jafnaldr- ar, þau yngstu í barnahópi sex systkina frá Vigur á Ísafjarðar- djúpi. Hann var heimamaður í Vigur en ég kom að sunnan á hverju sumri í sveitina. Þar átti ég mestu dásemdardaga æsk- unnar í leik og störfum með hon- um í kúarekstri, heyskap, dún- tekju auk óteljandi uppátækja okkar í þessari ævintýraveröld meðal frændfólks sem bjó í eyj- unni eða kom þangað hvert sum- ar. Böddi hafði ríkt næmi fyrir náttúru og dýrum sem hann kom fram við af virðingu, áhuga og ræktarsemi. Hann lagði mikla al- úð við æðarvarpið í Vigur og átti frumkvæði að því að bjarga og ala upp yfirgefna æðarunga. Fyrr en varði höfðu margir ár- gangar æðarfugla alist upp undir verndarvæng hans sem sóttu eðlilega alltaf aftur heim í eyjuna. Það er gaman að sjá að Baldur sonur hans tók við starfi unga- hirðisins með góðum árangri. Þau sterku tengsl sem Böddi átti við æskuheimili sitt í Vigur, þar sem hann stundaði einnig búskap ásamt Salvari bróður sínum um tíma, fylgdu honum til æviloka þótt síðasta rúma áratuginn byggi hann á Ísafirði. Böddi var íhugull, yfirvegaður og skipti sjaldan skapi. Hann var gjarnan sposkur á svip og alltaf stutt í húmorinn í hæfilegri blöndu við stríðni, en hann var líka einstakt ljúfmenni með góða nærveru. Hann var sagnfræði- grúskari og gagnfróður um allt sem tengdist byggðasögu við Ísa- fjarðardjúp. Þessir eiginleikar hans nýttust vel í starfi hans sem safnvörður hjá byggðasafni Vest- fjarða. Fróðleiksgreinar hans sem birtust á heimasíðu byggða- safnsins bera vitni um dugnað hans að vekja áhuga á og miðla þekkingu um hvaðeina sem laut að mannlífi, búskap, sjávarútvegi eða skondnum sögum af minnis- stæðum persónum fyrri alda á Vestfjörðum og víðar. Mikið safn liggur einnig eftir Bödda af heim- ildum og fróðleiksmolum um sögu Vigur og ábúenda hennar í gegnum aldirnar, efni sem er okkur í fjölskyldunni dýrmætt og verður miðlað áfram til komandi kynslóða. Hann varð ekki samur eftir áfall sem reið yfir í byrjun síðasta sumars þegar hann missti líkam- legan mátt að stóru leyti en hafði þó náð góðum árangri í átt til bata. Eftir fráfall Bödda ríkir djúp sorg hjá fjölskyldunni í Neðstakaupstað og hann er syrgður af stórum hópi vina og ættingja. Ég bið góðan Guð að styrkja Ninnu, Baldur og Snjó- laugu og systkinin frá Vigur á þessum erfiða tíma. Björg Thorarensen. Elsku hjartans frændi minn, komið er að kveðjustund hversu sár sem hún er og endanleg. Mik- ill er sá sársauki sem í umbreyt- anleika sínum er svo þungur að ekkert getur hann sefað. Þú kæri drengurinn minn, svo yndislegur og vænn, færðir okkur alltaf gleði og væntumþykju með nærveru þinni. Og sú mikla umhyggja, ást og elska sem þú sýndir móður þinni alla tíð var eins og þú allur, heill í gegn. Reyndar var það ávallt sú framkoma sem þú sýnd- ir öllum, bæði mönnum og mál- leysingjum, alla tíð í lífi og starfi hvert sem þú fórst. Það var gæfa mín og fjölskyldu minnar að fá að kynnast þér meira hin síðari ár, fá að starfa með þér við Byggða- safn Vestfjarða og njóta annarra samverustunda. Þér var svo ein- staklega lagið að efla áhuga og tiltrú á þau verkefni sem fyrir lágu eða koma af stað koma. Sögumaður af lífi og sál um geymda menningu og lífshætti liðinna ára. Þau voru stórstíg sporin þín og örugg þótt hægt og gætilega væru farin. Hugur þinn laut til þátttöku í samfélagsmál- um, bæði í þinni fyrri sveit við Djúp og á Ísafirði. Verkefni þín hjá Byggðasafni Vestfjarða bera þess ljóst vitni. Elsku drengurinn minn, mikið gladdir þú mig með gjöf þinni sl. vor, gjöf sem gefin var af elsku og hjartans hlýju eins og þér var einum svo lagið. Hér lýkur degi – Guð blessi minningu þína. Elsku hjartans Ingunn, Bald- ur og Snjólaug, hugheilar sam- úðarkveðjur og megi góður Guð gefa ykkur styrk til að takast á við sorg ykkar og missi. Systk- inum og fjölskyldum sendi ég samúðarkveðjur. Ragnheiður Hákonardóttir og fjölskylda. Elsku Böddi. Í mörgum af mínum dýrmætustu minningum ert þú ljóslifandi og þannig mun það alltaf verða. Þó að ekki sé langt á milli okkar í árum talið áttir þú stóran þátt í að koma mér til manns, og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Ég horfi til uppvaxtarára minna í Vigur sem forréttinda sem ég var svo lánsamur að njóta. Þótt af nógu sé að taka langar mig að minnast þess að- eins hversu gaman þú hafðir af því að stríða okkur krökkunum. Sérstaklega þótti þér gaman að gera okkur skíthrædd með draugasögum og stundum lagðir þú töluvert á þig með því að fela þig á góðum stöðum og bíða í þó nokkra stund eftir rétta augna- blikinu, gefa svo frá þér einhver drungaleg hljóð, þannig að við urðum stjörf af hræðslu. Svo kom hláturinn í kjölfarið því þú áttir stundum erfitt með að leyna kæti þinni eftir vel heppnaðan hrekk. Á hinn bóginn varstu alltaf ljúfur, hjálpsamur, einstakt góðmenni og sem fyrr segir, mikill húmor- isti. Elsku frændi minn. Minning þín lifir í huga og hjörtum okkar allra sem vorum svo lánsöm að eiga þig að. Elsku Ninna, Baldur og Snjó- laug. Megi allar góðar vættir halda utan um ykkur á þessum erfiðu tímum. Jónas Eyjólfur Jónasson. Á gamlárskvöld barst mér sú harmafregn að æskuvinur minn Björn Baldursson frá Vigur væri látinn langt fyrir aldur fram. Við Böddi, eins og hann var alltaf kallaður, kynntumst fyrir hart- nær fjörutíu árum þegar hann hóf skólagöngu í Barnaskólanum í Hnífsdal. Líkt og margir sem bjuggu í sveit á þessum tíma varð hann ungur að yfirgefa foreldra- hús og flutti til Bjargar systur sinnar sem þá var skólastjóri í Hnífsdal. Við vorum saman í fimm manna bekk og urðum fljótt bestu vinir. Við vorum heima- gangar hvor hjá öðrum í mörg ár og margt var brallað á þessum tíma. Þegar skóla lauk á vorin fór Böddi heim í Vigur og sást ekki aftur fyrr en fyrsta skóladag að hausti. Hann kunni alltaf best við sig í heimahögunum í Vigur og undi sér þar við lundaveiðar, dún- tekju og önnur bústörf. Ég var svo heppinn að heimsækja hann í Vigur og hitta hann þar í essinu sínu. Þetta voru góðir tímar. Böddi var mörgum kostum gæddur. Hann var mikill sveita- strákur, hafði ríka kímnigáfu, var einlægur, skemmtilegur og með góða nærveru. Hann var hreinn og beinn og þannig gerður að öll- um líkaði vel við hann. Þegar gagnfræðaskóla lauk skildi leiðir. Ég fór í menntaskóla og flutti síð- an til útlanda en Böddi fór í bændaskóla og þaðan aftur vest- ur. Þótt við hittumst sjaldan und- anfarin ár var ávallt sterk taug á milli okkar og fagnaðarfundir þegar við hittumst. Við Böddi hittumst nú í haust og sammælt- ust um að hittast oftar. Hann hafði gengið í gegnum erfið veik- indi en bar sig vel. Vonaði ég að hann myndi ná sínum fyrri styrk sem fyrst. Ekki hvarflaði að mér að þetta væri síðasti fundur okk- ar æskuvinanna. Við Sigríður Inga vottum Ing- unni Ósk, eiginkonu Bödda, börn- um þeirra og systkinum hans innilega samúð. Ég þakka kærum vini mínum samfylgdina. Blessuð sé minning góðs drengs. Jón Áki Leifsson. Leiðir okkar Bödda hafa legið saman frá blautu barnsbeini enda nágrannar frá Vigur og Ögri. Það voru leiðir vinskapar og sam- starfs rétt eins og kynslóðanna á undan okkur á þessum stöðum enda sterk tengsl á milli þessara staða í hinni gömlu Ögursveit. Ein af minningum barnæsk- unnar tengist því þegar Vigur- fólkið kom í Ögur, siglandi á Vig- urbátnum Gesti fyrir Ögurnesið og að bryggju í Ögri. Nágrannar á þessum slóðum þurftu að hafa töluvert fyrir því að fara á milli. Ekki milli húsa heldur eyjarinnar og fastalandsins. Síðar átti Böddi eftir að sigla Gesti í tengslum við starf sitt hjá Byggðasafni Vest- fjarða á Ísafirði. Ég man hvað mér þótti það passa vel að einmitt hann væri að sinna því starfi sem hann gerði af alúð og fag- mennsku eins og allt annað sem hann tók sér fyrir hendur. Í sam- skiptum við aðra, bæði menn og málleysingja, sýndi Böddi alltaf þessa sömu alúð og virðingu. Hann heilsaði með kossi á kinn og góðu faðmlagi. Hann var sér- staklega mikill dýravinur og það má auðvitað segja um marga en hann var einstakur í umgengni við málleysingjana enda sá mað- ur það hversu dýrum leið vel ná- lægt honum. Rólegt yfirbragð og góð nærvera einkenndi hann og svo gat hann verið skemmtilega uppátækjasamur og stríðinn en á góðan hátt. Blóðtappi í heila í byrjun júní á síðasta ári, rétt mánuði fyrir fimmtugsafmæli Bödda sem átti að sjálfsögðu að halda í Vigur, var mikið áfall. En hann barðist af kappi af þeim dugnaði sem ein- kenndi hann. Og framfaraskrefin voru mörg þó að Böddi segði sjálfur að þetta mætti ganga bet- ur. Það var ekki skrítið þó að hann vildi að þetta gengi hraðar því dugnaður og vinnusemi ein- kenndi hann alla tíð þannig að skerðingin fyrir þennan duglega mann var mikil. En þrátt fyrir framfaraskrefin dugði það ekki til og við fengum harmafregnina á gamlársdag. Böddi er dáinn, hann er farinn endanlega frá okkur og við vinir hans og ástvinir eigum aðeins eft- ir minningarnar um þennan ein- staka mann og söknum hans óendanlega mikið. Það er sárt fyrir okkur öll en hugurinn hvílir sérstaklega hjá Ninnu, Baldri og Snjólaugu ásamt öðrum í fjöl- skyldunni samhentu. Guð blessi minningu Bödda, vinar míns, sem kvaddi okkur alltof snemma. Halldór Halldórsson. Það var komið sumar á slétt- unni miklu. Undirbúningurinn fyrir hinn árlega akurskóla á Ís- landi gekk vel og kanadísku stúd- entarnir voru fullir tilhlökkunar. Samkvæmt venju var stefnan tekin á Vestfirði eftir stutta dvöl í borginni og hópurinn vissi að ferjan sem sigldi yfir Breiða- fjörðinn héti í höfuðið á einum af guðunum. Í þetta sinn var einnig búið að bóka fyrirlesara á Ísafirði sem hét sama nafni. Hann tók á móti hópnum í Tónlistarskóla Ísafjarðar og leiddi okkur inn í björt salarkynni. Umræðuefnið var bréf fyrirlesara til höfuð- stöðva Sameinuðu þjóðanna þar sem hann hafði lýsti áhyggjum sínum vegna hugmynda sem þá voru á sveimi um byggingu olíu- hreinsunarstöðvar í einum af fjörðunum. Ferðalangarnir drukku í sig erindið sem rataði tækjalaust í hjartastað. Það eina sem þurfti útskýringar við var sú staðreynd að fyrirlesarinn var barn að aldri. Hvaðan kemur þessi strákur? var spurt. Baldur er sonur Björns Bald- urssonar frá Vigur. Björn á einn- ig dóttur sem heitir Snjólaug og þau systkinin eru fædd á eylandi pabba síns í Ísafjarðardjúpi. Ekki er gott að útskýra með orð- um veganestið þaðan og hvernig það hlýtur að móta sálarlífið, við- horfin og gildin fyrir lífstíð. Hitt er ljóst að pabbi þeirra Snjólaug- ar og Baldurs lokkaði til sín mömmu þeirra, hana Ninnu, í Djúpið. Já, við erum að tala um eina af ástarsögum 20. aldarinnar og ávexti hennar. Hún sem var búin að nema sönglistina í nokkr- um af höfuðborgum Evrópu og halda tónleika víðs vegar kom siglandi vestur á firði með nót- urnar sínar og koffortið eftir eitt örlagaríkt sumarkvöld í Vigur. Og þarna stíga Snjólaug og Bald- ur sín fyrstu skref, umvafin dul- magni náttúruafla, sögu kynslóða og listarinnar. Þannig búin flytja þau með foreldrum sínum á meg- inlandið og hreiðra um sig á Ísa- firði. Kannski er það til marks um sláandi samhengið í tilver- unni að Krambúðin á Ísafirði, húsið sem fjölskyldan býr í, er byggt árið 1757, ári eftir að Moz- art fæðist. Á þessum sólríka degi í Tón- listarskóla Ísafjarðar fyrir ekki svo löngu síðan gat enginn vitað að Björn Baldursson frá Vigur yrði fyrir alvarlegu áfalli sumarið 2016. Á sama hátt hefði enginn getað séð brottför hans á gaml- ársdag fyrir. Ekki einu sinni systurnar í norrænu goðafræð- inni hefðu getað spunnið harm- rænni þráð. Við sem vorum þeirr- ar gæfu aðnjótandi að kynnast öðlingnum horfum á eftir honum með þakklæti, virðingu og sorg. Við sjáum einnig að brottförin á gamlársdag er ástarjátning til handa eftirlifandi fjölskyldu og hvernig nýárssólin gyllir slóðina við ysta haf. Birna Bjarnadóttir. Þegar ég lít til baka verður mér ljóst hvað ég var heppin fyrir tíu árum að fá vinnuaðstöðu á næsta borði við hann Bödda. Það sem stendur upp úr er hrekkirn- ir, glensið, grínið og sameiginleg- ur áhugi á ýmsu sem mætti flokka undir margt skrýtið í kýr- SJÁ SÍÐU 32 Elskuleg eiginkona mín, móðir, tengdamóðir og amma, SIGNÝ EGGERTSDÓTTIR, Ægisvöllum 2, Keflavík, lést á bráðamóttöku Landspítalans 2. janúar. Útför fer fram frá Keflavíkurkirkju þriðjudaginn 17. janúar klukkan 13. Þeim sem vilja minnast hennar er bent á Gigtarfélagið. . Páll Björgvin Hilmarsson, Sigurður R. Magnússon, Magnea Grétarsdóttir, Jóhanna María Pálsdóttir, Geir Reynir Egilsson, Hildur Hilmars Pálsdóttir, Kristján Þ. Guðjónsson og barnabörn. Ástkær móðir okkar, tengdamóðir og sambýliskona, amma og langamma, ÁSBJÖRG INGÓLFSDÓTTIR, sem lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli sunnudaginn 8. janúar 2016, verður jarðsungin frá Grafarvogskirkju mánudaginn 16. janúar klukkan 14. . Sigurþór, Ingólfur og Stefán Stefánssynir, Hafdís Jónsdóttir, Garðar Árnason og Matthildur Soffía Leifsdóttir, Óskar Markússon, barnabörn og barnabarnabörn. Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, SIGURGEIR BJARNASON, Drápuhlíð 15, Reykjavík, áður Ólafsvík, lést í faðmi fjölskyldunnar 10. janúar á hjúkrunarheimilinu Eiri. Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju fimmtudaginn 19. janúar klukkan 15. Blóm og kransar eru vinsamlegast afþökkuð en þeim er vilja minnast hans er bent á Kirkjukór Ólafsvíkur. . Sigurdís Egilsdóttir, Garðar G. Sigurgeirsson, Ásdís S. Gunnarsdóttir, Vigdís Björg Sigurgeirsd., Gunnlaugur A. Einarsson, Egill Rafn Sigurgeirsson, Svava Jónsdóttir, Svala Sigurgeirsdóttir, Sigurgeir Sigurgeirsson, Sigurbjörg Guðlaugsdóttir og afabörn. Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, GUNNAR LÚÐVÍKSSON bifvélavirki og ökukennari, lést á öldrunarheimilinu Hlíð fimmtudaginn 12. janúar. Útför hans fer fram frá Akur- eyrarkirkju föstudaginn 20. janúar klukkan 13.30. Þeim sem vilja minnast hans er bent á öldrunarheimilið Hlíð, Akureyri. . Bryndís Gunnarsdóttir, Bjarni Jónsson, Guðmundur Viðar Gunnarss., Margrét Svanlaugsd., barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.