Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.04.2017, Síða 21
Persónulega þykir mér þetta miður en svona
eru Norðurlönd í dag.“
Hedberg segir marga líta upp til Norður-
landanna vegna félagslegs öryggis í ríkjunum
og þeirrar staðreyndar að þau eru seinþreytt
til vandræða, eins og að fara í stríð. „Það er
samt útbreiddur misskilningur að öll þessi ríki
séu eins; fólk gengur út frá því að bakgrunnur
okkar og saga sé sú sama. Þetta rak ég mig oft
á meðan ég var sendiherra í Bosníu. Svo er
auðvitað ekki. Norðurlöndin eiga sumt sameig-
inlegt, annað ekki.“
Fleiri Íslendingar til Svíþjóðar
Eitt af meginverkefnum Hedbergs hér á landi
hefur verið að hvetja Íslendinga til að ferðast í
auknum mæli til Svíþjóðar og er hann þegar
farinn að sjá árangur af því starfi. „Við spyrj-
um til dæmis: Hvers vegna farið þið frekar til
Danmerkur en Svíþjóðar? Danmörk er bæði
minna land og dýrara. Undanfarin tvö ár hefur
íslenskum ferðamönnum í Svíþjóð fjölgað um-
talsvert og því fögnum við ákaft. Raunar hefur
þeim fjölgað í Danmörku og Noregi líka en
mest í Svíþjóð,“ segir Hedberg en fjöldi gisti-
nátta Íslendinga í Svíþjóð jókst um 43% milli
áranna 2014 og 2015.
Annað stórt verkefni hefur verið að kynna
landanum sænsk einingahús. „Það hefur verið
húsnæðisskortur hér á landi, ekki síst á höf-
uðborgarsvæðinu, og við Svíar höfum verið að
benda á sænsk timburhús sem valkost í því
sambandi. Að þessu hefur þó ekki verið hlaup-
ið enda er eftirspurnin innan Svíþjóðar gríð-
arleg í bili og Íslendingar ennþá dálítið tor-
tyggnir í garð
timburhúsa, einkum
vegna ótta við fúa og eld-
hættu að ég held. Að
kjósa steinsteypu þýðir
þó ekki að vera laus við
fúa, eins og dæmin sýna.
Allt snýst þetta um
byggingartækni og í Sví-
þjóð er stór áhersla lögð
á forvarnir gegn rakaskemmdum. Timburhús
hafa tekið miklum framförum; í Björgvin eru
til 14 hæða timburhús og núna stendur til að
byggja 80 hæða timburhús í Lundúnum. Það
er ekki bara ódýrara að byggja úr timbri, held-
ur líka betra fyrir umhverfið. Af ýmsum
ástæðum.“
Vanmat stærð landsins
Spurður hvað hafi komið honum mest á óvart
þegar hann flutti hingað til lands svarar Hed-
berg: „Stærðin. Eins og svo margir sem hing-
að koma vanmat ég stærð landsins. Margir
vinir okkar hafa komið og heimsótt okkur, leigt
sér bíl og sagst ætla að keyra hringinn um eyj-
una og koma svo aftur í kvöldmat. Það er vita-
skuld engin leið. Við hjónin fórum hringveginn
í fyrrasumar, 1.600 km, og það tók okkur átta
daga. Þetta er enginn skreppitúr.“
Hann brosir.
Hedberg segir það líka með nokkrum ólík-
indum hversu hratt Reykjavík og nágranna-
sveitarfélög hafi vaxið. Hann kom hingað fyrst
fyrir allmörgum árum vegna starfa sinna og þá
var höfuðborgin mun minni en hún er í dag.
„Ég las ævisögu Halldórs Laxness og þegar
hann fæddist, árið 1902, bjuggu ekki nema um
tuttugu þúsund manns í Reykjavík. Núna er
íbúafjöldinn á annað hundrað þúsund. Það tók
Stokkhólm á bilinu þrjú til fjögur hundruð ár
að stækka eins mikið og Reykjavík gerði á
hundrað árum. Það er mjög tilkomumikið.“
Þrátt fyrir þessa miklu stækkun er sam-
félagið ennþá smátt á alþjóðamælikvarða og
það kann Hedberg vel að meta. „Aðgengi að
fólki, þar með talið ráðamönnum, er ótrúlega
gott á Íslandi. Það tekur örskotsstund að koma
á fundum. Ég á vini sem starfa í Kína og á Ind-
landi og þar getur tekið þá tvö ár að ná fundi
ráðherra. Hér rekst maður bara á þá á förnum
vegi – og forsetann líka ef maður skýst að
kaupa pitsu. Þetta er ofboðslega þægilegt og
greiðir fyrir málum.“
Hin hliðin á peningnum, þegar allir þekkja
alla, er sú að vandamál koma gjarnan upp
vegna frændsemi, til dæmis í dómskerfinu.
„Það er áskorun sérstaklega fyrir allar smáar
þjóðir eins og bent er á í skýrslum sænska ut-
anríkisráðuneytisins um mannréttindi í lönd-
um Evrópu sem birtar voru núna í vikunni. En
samfélagið hér er eigi að síður með þeim allra
þróuðustu og sanngjörnustu í heimi.“
Fylgist grannt með þjóðmálum
Engin lognmolla hefur ríkt í íslenskum stjórn-
málum í tíð Bosse Hedbergs og hann kveðst
hafa fylgst spenntur með, ekki síst tilraunum
til að setja á laggirnar nýja samsteypustjórn á
nýliðnum vetri. „Þetta gekk fram og til baka
en hafðist á endanum og ég sé ekki annað en að
þessi nýja stjórn virki ágætlega. Sumt er þó
frábrugðið því sem ég á að venjast heima í Sví-
þjóð. Þar tekur ríkisstjórnin yfirleitt sameig-
inlegar ákvarðanir og kemur fram sem einn
maður út á við. Hér hef ég tekið eftir því að
stundum segir einn ráðherra eitt og annar ráð-
herra eitthvað allt annað. Það er áhugavert.“
Hedberg fylgdist einnig grannt með gjald-
eyrishaftamálinu og segir vel hafa verið staðið
að afnáminu. „Málið var vel undirbúið og
vandasamt verkefni leyst af fagmennsku og
fumleysi. Einhverjir vogunarsjóðir sitja ennþá
á einhverjum milljörðum króna en það er mun
minna en það var og ekki vandamál í sjálfu sér.
Matsfyrirtækin hafa líka lokið lofsorði á Ísland
og hækkað lánshæfismatið. Vonandi gengur
allt vel með íslensku krónuna í framtíðinni.“
Munu sakna Breta
Böndin berast að Brexit enda hafa Bretar og
Svíar margoft gengið í takt innan Evrópusam-
bandsins, hvorugu ríki hugnast til dæmis evr-
an. „Það er alveg rétt,“ segir Hedberg, „við
eigum eftir að sakna Bretanna sem banda-
manns innan sambandsins. Hafandi sagt það
vona ég innilega að við
finnum flöt á samstarfi á
nýjum grunni í framtíð-
inni enda þurfa þessar
þjóðir hvor á annarri að
halda. Sama máli gegnir
um Íslendinga og Breta;
þið hafið líka átt í miklum
viðskiptum við þá.“
Bretar munu skilja eft-
ir sig stórt skarð í Evrópusambandinu, ekki
síst efnahagslega, og Hedberg segir einboðið
að ESB þurfi að draga úr umsvifum sínum af
þeim sökum. Skarð Breta verði ekki fyllt. „Við
Svíar erum til að mynda harðir á því að við
munum ekki auka framlag okkar til sambands-
ins til að vega á móti brotthvarfi Breta.“
Hedberg segir Brexit ekki hafa komið róti á
Svía; þvert á móti hafi stuðningur við Evrópu-
sambandið aukist um nokkur prósent, sam-
kvæmt könnunum, eftir að niðurstaða Breta lá
fyrir. „Eftir Brexit fóru margir Svíar að vega
og meta Evrópusambandið, sem er ósköp eðli-
legt við breytingar af þessu tagi, og svo virðist
sem kostirnir við að vera um borð hafi þá kom-
ið upp á yfirborðið í ríkari mæli en gallarnir.“
Mun ekki sakna vor(leysi)sins
Sem fyrr segir styttist í dvöl Bosse Hedbergs
og eiginkonu hans á Íslandi. Hann segir hana
hafa verið afskaplega ljúfa og margs verði að
sakna. Vorið er þó ekki í þeim hópi. Ef vor má
þá kalla. „Þar sem ég hef búið í Svíþjóð,
Frakklandi og Bosníu býst ég alltaf við blíðu
vori. Hér á Íslandi er hins vegar alls ekki á vís-
an að róa í þeim efnum; maður getur orðið fyr-
ir miklum vonbrigðum. Það er ansi niðurdrep-
andi að búa við sama hitastigið í febrúar og
júní,“ trúir hann mér fyrir. Og brosir.
„Myrkrið truflar mig alls ekki; það er meira
kuldinn og snjórinn – og bannsettur vindurinn.
Hann smýgur gegnum allt. Íslenska veðrið er
ófyrirsjáanlegt og það getur verið hættulegt,
eins og dæmin sanna. Margir erlendir ferða-
menn vanmeta höfuðskepnurnar hér um slóð-
ir. Það er ekki bara hálkan á vegunum, heldur
ekki síður öldurnar við ströndina sem svipta
fólki á haf út með sér.“
Hedberg á auðvelt með að skilja vaxandi
áhuga ferðamanna á Íslandi; landið sé afar sér-
stakt, því hafi hann kynnst á fjölmörgum
ferðalögum, eins og þegar hann fylgdist með
háhyrningunum skríða inn Kolgrafafjörðinn til
að gæða sér á grunlausri síldinni. „Ég er ákaf-
lega þakklátur fyrir þennan tíma hérna á Ís-
landi; bæði landi og þjóð. Við hjónin höfum
eignast marga góða vini og eigum örugglega
eftir að snúa aftur til að heimsækja þá í fram-
tíðinni.“
’ Flestir koma hingað tilað njóta óspilltrar náttúr-unnar og ef maður fær ekkilengur bílastæði við Dettifoss
hefur þetta snúist upp í and-
hverfu sína. Ekki satt?
Fjölgun ferðamanna áhyggjuefni
Hedberg hefur líka kynnt sér hugmyndir um
sæstreng frá Íslandi til Evrópu og segir þær
áhugaverðar frá sjónarhóli Svía. „Ég veit að
þetta er umdeilt mál enda þyrfti að fjölga hér
virkjunum og engar ákvarðanir hafa verið
teknar en ef til þess kæmi myndi sænskur iðn-
aður án efa sýna málinu áhuga. Ég veit hins
vegar að margir Íslendingar, með Björk í
broddi fylkingar, vilja ekki virkja meira en
orðið er nú þegar og að sjálfsögðu þarf að taka
þau sjónarmið með í reikninginn. Þá veit ég að
sumir óttast að orkuverð gæti rokið upp ef þið
yrðuð partur af stærra orkuneti. Að mörgu er
að hyggja.“
Sendiherrann fylgist bersýnilega vel með
fréttum og ör fjölgun ferðamanna hér á landi á
óvenjulega skömmum tíma hefur ekki farið
framhjá honum. Hedberg geldur varhug við
þeirri þróun. „Í ykkar sporum hefði ég áhyggj-
ur. Flestir koma hingað til að njóta óspilltrar
náttúrunnar og ef maður fær ekki lengur bíla-
stæði við Dettifoss hefur þetta snúist upp í
andhverfu sína. Ekki satt? Þurfi maður að bíða
í langri röð til að snæða hádegisverð á Geysi er
mesti sjarminn farinn af heimsókn af þessu
tagi. Það sem ég á við er þetta: Það er erfitt að
njóta óspilltrar náttúrunnar ef ekki verður
þverfótað fyrir fólki.“
Partur af þessari þróun er að skemmti-
ferðaskipum fjölgar jafnt og þétt við Íslands-
strendur. Hedberg segir það umhugsunarefni.
„Íslenska Landhelgisgæslan er gríðarlega fag-
leg og vel skipulögð en hún býr aðeins að
þremur þyrlum. Hvað ætla menn að taka til
bragðs ef skip með tvö til þrjú þúsund farþega
sekkur?“
Ísland orðið mjög dýrt
„Ísland hefur líklega aldrei verið ódýrt land að
ferðast til en núna er það orðið mjög dýrt. Ég
held að íslenska krónan hafi styrkst um 30%
gagnvart þeirri sænsku síðan ég kom hingað,
mest á síðustu átján mánuðum. Nú þegar
gjaldeyrishöftin eru úr sögunni virðist krónan
ætla að ná einhverju jafnvægi en hún er eftir
sem áður óþægileg sterk skv. útflutningsgrein-
unum. Ég heyri að margir hafa áhyggjur af
þessu og það er svo sem skiljanlegt. Ísland er
mjög dýrt land og hvað reiðhjól og bíla varðar
þá eru varahlutir í þessi tæki svakalega dýrir.
Það hef ég reynt á eigin skinni.“
Samtal okkar fer fram á ensku, eins og hefur
orðið algengt þegar Norðurlandabúar stinga
saman nefjum. Hedberg kveðst ekki hafa haft
þolinmæði til að læra íslensku enda sé málið
erfiðara en hann hafði gert sér í hugarlund,
jafnvel fyrir Svía. „Íslenskan er býsna flókin;
sum orð eru eins og í sænsku en önnur allt
öðruvísi og með öllu óskiljanleg. Íslenskan er
mun ólíkari sænskunni en bæði norskan og
danskan. Sú staða er raunar komin upp að oft
er töluð enska á norrænum samráðsfundum þó
svo að Íslendingar læri dönsku, en til dæmis
Svíar og Finnar eiga erfitt með að skilja hana.
Hjólreiðar eru lífsstíll hjá
Bosse Hedberg. Hann er
með þrjú hjól til umráða
hér á landi en á fjölmörg til
viðbótar heima í Svíþjóð.
30.4. 2017 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 21