Víkurfréttir


Víkurfréttir - 02.06.2016, Side 12

Víkurfréttir - 02.06.2016, Side 12
12 fimmtudagur 2. júní 2016VÍKURFRÉTTIR „Þetta er mömmu að þakka, hún sendi mig í tónlistarnám á sínum tíma,“ segir píanókennarinn Ragn- heiður Skúladóttir sem lét af störfum við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í síðustu viku eftir 53 ára farsælt starf. Blaðamaður Víkurfrétta hitti Ragn- heiði á heimili hennar í Reykjanesbæ. Stofan var eitt blómahaf því að daginn áður voru skólaslit tónlistarskólans þar sem Ragnheiður var formlega kvödd. Ragnheiður er 73 ára gömul og byrjaði tvítug að kenna hjá Tónlistar- skóla Keflavíkur. Við skólaslit Tónlistarskóla Reykjanes- bæjar sagði Haraldur Árni Haralds- son, skólastjóri skólans, að þrátt fyrir að Ragnheiður væri orðin 73 ára væri hún eitt af fáum dæmum um kennara sem eru með mjög langan starfsaldur en samt enn með brennandi áhuga á kennslunni. Í ræðu hans kom fram að Ragnheiður væri enn að pæla í kennsluefni, kennsluaðferðum, kar- akter nemendanna og nálgunina við þá í kennslunni. Hún segir að starfið hafi alltaf verið skemmtilegt. „Ég er orðin þetta fullorðin en hef þó ekki fundið fyrir neinum leiða. Ég er þó búin að kenna nóg núna,“ segir Ragn- heiður sem gjarna lætur nemendur spila á píanó fjórhent og sexhent. „Það er voða skemmtilegt en krefjandi. Ég hef líka verið dugleg að sækja nám- skeið og lært heilmikið af því.“ Hún viðurkennir þó að í byrjun, fyrir rúmri hálfri öld, hafi ekki alltaf verið gaman að vera píanókennari. „Þegar ég byrjaði fannst mér þetta ekki mjög gaman en svo með tímanum varð þetta skemmtilegra og skemmtilegra. Í fyrstu tók ég það nærri mér ef nem- endurnir voru ekki áhugasamir um píanónámið. Svo lærði ég að þau eru misjöfn eins og þau eru mörg og að maður þarf að meta það hvað maður getur látið þau spila. Maður verður líka þolinmóðari með árunum.“ Er ekki ómissandi Eftir öll kennsluárin hefur Ragn- heiður misst tölu á því hversu mörgum nemendum hún hefur kennt. „Ég veit þó að þetta hafa verið afskap- lega skemmtilegir krakkar og ég hef reynt að ná góðri tengingu við þau. Það er virkilega gaman þegar þau sýna áhuga. Sum hafa stundað námið í stuttan tíma en önnur í mörg ár og þá gleymir maður þeim ekki.“ Ragn- heiður var deildarstjóri píanódeildar Tónlistarskólans í Reykjanesbæ þar til hún varð sjötug. Ragnheiður segir það hafa glatt sig mikið þegar hún var beðin að halda kennslu áfram þrátt fyrir að vera orðin sjötug. Þá minnk- aði hún við sig starfshlutfallið og segir það hafa verið mikil forréttindi að fá að sinna starfinu aðeins lengur. Ung stúlka sem var nemandi Ragn- heiðar var ekki sátt á dögunum við það að kennarinn ætlaði bara að hætta sí svona. „Hún spurði mig af hverju ég væri að hætta og ég svaraði að ég væri orðin svo gömul. Þá sagði hún bara: Og hvað með það?,“ segir Ragn- heiður og hlær. „Þau fá góða kennara í staðinn fyrir mig. Maður verður að læra að maður er ekki ómissandi.“ Lærði á Mánagötunni og í Ungó Ragnheiður fæddist að Vallargötu 19 í Keflavík og ólst þar upp. Móðir hennar var mikill tónlistarunnandi og sendi dóttur sína 10 ára gamla í píanó- nám. Ragnheiður segir að stundum hafi verið erfitt í náminu, sérstaklega þegar hún fékk skammir frá kenn- urum. „Þá vildi ég helst aldrei fara í tíma aftur. Það koma svona tímabil hjá flestum í tónlistarnámi. Ég hef haft það fyrir reglu sem kennari að breyta þá um verkefni og finna alltaf eitthvað grípandi og skemmtilegt til að halda krökkunum við efnið.“ Fyrst sótti Ragnheiður tíma hjá Vigdísi Jakobsdóttur. „Hún var alveg yndisleg og bjó á Mánagötunni. Mamma lagði mikla áherslu á að ég væri kurteis við Vigdísi svo að ég kallaði hana alltaf frú Vigdísi. Mér leið svo vel hjá henni að ég fæ hlýja tilfinningu þegar ég geng götuna hennar enn þann dag í dag.“ Þegar Ragnheiður var 14 ára var Tón- listarskóli Keflavíkur stofnaður og þá hóf hún nám þar. „Fyrst var skólinn uppi á lofti í Ungó. Það var svo kalt þar að kennarinn okkar, hann Ragnar Björnsson, sat þar í úlpu og með húfu og vettlinga,“ rifjar Ragnheiður upp. Tók börnin með í vinnuna Aðeins 16 ára gömul byrjaði Ragn- heiður að spila undir hjá Karlakór Keflavíkur. 19 ára gömul giftist hún eiginmanni sínum Sævari Helgasyni og stuttu síðar fæddist elsta barnið, Sigurður. „Þá spilaði ég aðeins minna. Það voru engar dagmömmur á þeim tíma og mamma mín var látin.“ Síðar fæddust yngri börnin, Jóhann Smári árið 1966 og Sigrún árið 1974. Þá voru tímarnir breyttir og leikskólar komnir til sögunnar. Ragnheiður tók börnin oft með sér á kóræfingar og í önnur verkefni. „Ég man eftir því að Sigrún sat stundum undir flyglinum hjá mér og söng svo annan bassa í Karlakór Keflavíkur eins og pabbi hennar,“ segir Ragnheiður og brosir. Börnin þrjú hafa öll lagt tónlistina fyrir sig. Sigurður er tónskáld, söngvari og skólastjóri Nýja tónlistarskólans í Reykjavík, Jóhann Smári er óperu- söngvari og söngkennari. Sigrún lærði á básúnu og píanó og býr í London þar sem hún stýrir mastersnámi í skap- andi tónlistarmiðlun við Guildhall tónlistarháskólann. Barnabörnin eru orðin átta og hafa öll, sem aldur eiga til, lagt stund á tónlistarnám. Tengda- börnin eru öll líka tónlistarfólk, sum voru það áður en þau komu inn í fjöl- skylduna á meðan önnur sáu sér ekki annað fært en að kynnast tónlistinni að eigin reynslu til þess að getað tekið þátt í umræðum í matarboðum. Aðspurð um hvað taki við núna þegar starfsferlinum er lokið segir Ragn- heiður margt vera á dagskránni. „Ég ætla að halda áfram að lifa lífinu. Ég á börn og barnabörn og hef gaman af því að vera til. Mér finnst mjög skemmtilegt að ganga úti. Svo heim- sæki ég dóttur mína og fjölskyldu hennar einu sinni til tvisvar sinnum á ári til London. Ég hef þó grínast með það að kannski mæti ég bara í tón- listarskólann næsta haust, svona af gömlum vana.“ Ragnheiður hefur helgað alla starfs- ævina píanókennslu og undirleik með sólistum og kórum, en ekki spilað mikið sjálf undanfarin misseri. Hún segir aldrei að vita nema breyting verði á því núna. Tónlistin hefur gefið Ragnheiði mikið og aðspurð um það hvað sé svo heillandi við það að vinna að tónlist sækir hún bók eftir Sigurbjörn Einarsson, fyrrum biskup, uppi í hillu og les tilvitnun í danska heimspekinginn Sören Kirkegaard. „Þangað sem geislar sólar ná ekki, geta tónarnir náð.“ Ragnheiður Skúladóttir tekur við nafnbótinni Listamaður Reykjanes- bæjar árið 2009. ÞOLINMÆÐIN KOM MEÐ ALDRINUM Ragnheiður Skúladóttir lét af störfum sem píanókennari við Tónlistarskólann í Reykjanesbæ á dögunum eftir yfir hálfrar aldar starf. Hún segir píanókennslu krefjast mikillar þolinmæði sem hún öðlaðist með reynslunni. Ég ætla að halda áfram að lifa lífinu. Ég á börn og barnabörn og hef gaman af því að vera til

x

Víkurfréttir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.