Feykir - 23.11.2016, Blaðsíða 16
2 01 61 6
„Jólin eru í hjartanu
og verða hátíðleg og góð“
VIÐTAL
Kristín Sigurrós Einarsdóttir
Sigríður Gunnarsdóttir og Þórarinn Eymundsson í opnuviðtali jólablaðsins
Sigríður Gunnarsdóttir, sóknarprestur á
Sauðárkróki og Þórarinn Eymundsson
lektor við Hólaskóla, reiðkennari og
tamningamaður, eru bæði Skagfirðingar í húð og hár. Um það
leyti sem Sigríður lauk guðfræðinámi gafst þeim tækifæri til að
flytja aftur í Skagafjörðinn. Hún hefur þjónað sem sóknarprestur
á Sauðárkróki síðustu tíu árin og Þórarinn náð góðum árangri í
reiðkennslu og tamningum. Þau eiga þrjú börn á grunnskólaaldri
og það er því í mörg horn að líta í lífi og starfi. Feykir heimsótti
Sigríði og Þórarinn á heimili þeirra í Barmahlíð skömmu fyrir
aðventuna, þar sem spjallað var um starf sóknarprestsins,
hestamennskuna, jólahaldið og lífið og tilveruna, yfir
lagköku og tebolla.
„Við erum bæði Skagfirðingar, borin
og barnfædd, austan Vatna og vestan
Vatna,“ segja þau aðspurð um upp-
runann. Sigga er frá Flatatungu á
Kjálka en Tóti frá Saurbæ í hinum forna
Lýtingsstaðahreppi. Hún gekk því í
Akraskóla en hann í Steinsstaðaskóla en
síðar gengu þau bæði í Varmahlíðarskóla,
þó ekki á sama tíma. „Við hittumst
því lítið í barnaskóla og vorum orðin
rígfullorðin þegar við kynntumst
fyrir alvöru,“ gantast þau með. Eftir
stúdentspróf frá FNV tók Sigga sér árshlé
en hóf síðan nám í guðfræði við Háskóla
Íslands. Hún segir að það hafi blundað í
sér og námið verið ákveðin tilraun. „Eftir
að ég byrjaði í skólanum var ég ákveðin
í að leggja þetta ekki fyrir mig en svo
þráaðist ég við og það endaði með því að
ég útskrifaðist,“ rifjar hún upp. Leið Tóta
lá einnig í FNV og eftir útskrift þaðan
fór hann í Hólaskóla og lauk námi sem
reiðkennari. Seinna bætti hann við sig
kennsluréttindanámi við Háskólann á
Akureyri.
Um það leiti sem Sigga lauk guð-
fræðináminu bauðst Tóta staða reið-
kennara við Hólaskóla og þar var hann
í fullu starfi í tíu ár en minnkaði svo
við sig í hlutastarf. Þau fluttu því í Hóla
haustið 2002, þegar hún átti aðeins
lokaritgerðina eftir og von var á fyrsta
barninu. Börnin eru þrjú; Eymundur
Ás 14 ára, Þórgunnur 11 ára og Hjördís
Halla 6 ára og eru þau öll í Árskóla.
Á Hólum bjó fjölskyldan í þrjú ár en
flutti síðan á Sauðárkrók haustið 2005.
Segja þau ýmislegt hafa komið til að
þau ákváðu að flytja þangað, einkum
þó fötlun Eymundar, en hann er með
taugasjúkdóm sem heitir SMA og er því
alveg bundinn við hjólastól. „Kringum
jólin 2003, þegar hann var rúmlega eins
árs, fóru að renna á mann tvær grímur,
að það væri kannski ekki allt með felldu,“
segir Tóti. „Hann fór ekki að ganga eins
og önnur börn og það var eitthvað bogið
við það,“ útskýrir Sigga. „Við sáum fram
á að hann þyrfti mikla aðstoð og það var
ekki boðlegt að keyra með ungt barn,
flesta daga, í ýmiskonar þjálfun.“
Á Hólum starfaði Sigga hjá vígslu-
biskupnum, sem þá var sr. Jón Aðal-
steinn Baldvinsson og fólst starfið m.a.
í kirkjuvörslu. Árið 2006 fór svo sr.
Guðbjörg Jóhannesdóttir, þáverandi
sóknarprestur á Sauðárkróki, í námsleyfi.
„Það stóð nú svo einkennilega á að það
var auglýst eftir presti til afleysinga. Ég
sótti um, þó ég væri ekki orðin prestur,
og reyndist vera eini umsækjandinn. Ég
fékk svo vígslu til Sauðárkróks haustið
2006,“ segir hún. Leysti hún Guðbjörgu
af til vors, er hún kom úr leyfi, en fljótlega
sagði Guðbjörg embættinu lausu og
hefur Sigga því gegnt því samfleytt frá
1. ágúst 2007. „Í millitíðinni var ég þrjá
mánuði að leysa af á Siglufirði, sem var
mjög ánægjulegt, gaman að kynnast líka
öðrum söfnuði,“ segir hún.
Tímafrekt
að ná árangri í
hestamennskunni
„Ég er með tamningastöð hér í hest-
húsahverfinu og er með starfsmann
þar. Auk þess er ég að vinna sjálfstætt
sem reiðkennari út um hvippinn og
hvappinn,“ segir Tóti. Hann heldur
námskeið og býður upp á einkakennslu,
m.a. í Svíþjóð, Þýskalandi eða Hollandi
og er oftast 3-4 daga í einu. Nemendur
eru eigendur íslenska hestsins ytra.
Eftirspurnin er mikil og segir Tóti að
hann gæti verið „í ferðatösku allt árið,“
til að sinna henni. „Það opnast ákveðinn
gluggi þegar maður er að keppa á mótum
erlendis, það er ákveðin auglýsing, en
síðan spyrst orðsporið út,“ útskýrir
hann. Fram kemur að margir sem eru
með íslenska hesta erlendis séu einnig
með ræktum í smáum stíl hér á landi
og nefnir Tóti sem dæmi tvenn hjón í
Hegranesi, annars vegar í Prestbæ og
hins vegar á Hellulandi.“
Það verður ekki rætt við skagfirska
hestamenn án þess að spyrja hvað þeir
eigi marga hesta. Tóti beinir spurning-
unni áfram til konu sinnar og komast þau
að þeirri niðurstöðu að þau eigi svona 15-
20 hross, sem Sigga segir sum hver vera
séreign eiginmannsins. Hún segist þó
„dingla með“ í hestamennskunni, eftir
því sem tími gefst til og fara þau meðal
annars í árlega hestaferð með vinafólki.
„Hestarnir taka náttúrulega mjög mikinn
tíma, enda eru þeir ekki bara vinnan,
heldur líka helsta áhugamálið,“ segir
Tóti og Sigga skýtur því inn í að þetta sé
lífsstíll. „Það vita það allir sem stunda
hestamennsku að það er mjög tímafrekt
að ná árangri. Árangurinn hefur heldur
ekki látið á sér standa og skemmst er
að minnast knapaverðlauna sem Tóti
sópaði nýlega að sér á uppskeruhátíð
Hestamannafélagsins Skagfirðings.
Þýðir ekki að
missa sig í smáatriðin
„Það er góð spurning,“ segir Sigga,
aðspurð um hvað hún geri þegar hún
er ekki í vinnunni. „Ég er nú oftast
eitthvað að snúast í kringum börnin
en svo finnst mér voðalega gott að lesa
góða bók endrum og eins og að fara
í göngutúr. Einnig hef ég lengi verið í
saumaklúbb með gömlum vinkonum
mínum úr sveitinni og það er hressandi,“
2 11