Feykir


Feykir - 23.11.2016, Qupperneq 32

Feykir - 23.11.2016, Qupperneq 32
2 01 63 2 Síðast liðið sumar hafa byggðasöguritarar verið að sýsla í Fellshreppi hinum gamla og Haganeshreppi. Í samstarfi við Guðnýju Zoëga hjá Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga hafa allmargir staðir verið skoðaðir í þessum hreppum. Einkum er það athugun á selstöðum bújarða, leit að fornum bæjarstæðum, jafnvel kirkjugörðum, og aldursgreining þeirra. Sitthvað athyglisvert hefur komið í ljós og sumt öldungis óvænt. Á nokkrum stöðum hafa fundist skálar frá landnámsöld. Fornleifadeildin hefur yfir að ráða sýnatökubor sem getur náð jarðvegssýnum niður á 130 sm dýpi. Í þeim má greina öskulög frá eldgosum og nýtast þær upplýsingar til aldursgreiningar. Jarðvegssýnin gefa einnig til kynna hvort torfveggir eru í jörðu, gólflag í tóftum, móaska eða viðarkoladreifar, sem allt eru merki um búsetu mannfólks um lengri eða skemmri tíma. Bæjarnafnið Grindill Í Vestur-Fljótum, inn af Haganes- jörðunum, er landnámsjörðin Grindill, upp frá vesturströnd Miklavatns. Einhvern tímann á miðöldum Íslandsbyggðar skiptist jörðin í tvö býli. Þá var farið að kalla ytri partinn Minni- Grindil en heimajörðina Stóra- Grindil. Ekki finnast heimildir hvenær Minni-Grindill byggðist sem sjálfstæð jörð út úr Grindli. Líklega hefur það ekki verið fyrr en á 16. eða 17. öld. Mjög hefur vafist að skýra bæjarnafnið Grindill. Í elstu heimildum er skrifað Grindill, bæði í Landnámu og Guðmundar sögu dýra sem talin er rituð á fyrri hluta 14. aldar. Í heimildum fornbréfasafns frá 15. og 16. öld er jafnan stafsett Grillir og var sú orðmynd almennt notuð langt fram á 20. öld. Síðari áratugi hafa menn tekið aftur upp eldri orðmyndina. Breytingin í Grilli telst vera auðskýranleg. Þágufallið af Grindill er auðvitað Grindli sem í framburði breyttist auðveldlega í Grilli. Þessa hljóðbreytingu kalla málfræðingar framvirka tillíkingu. Tíðast nota menn bæjarnöfn í þágufalli og smám saman smeygir breytingin sér inn í nefnifallið sem verður þá Grillir. En hvað þýðir þetta nafn? Sumir telja orðið myndað af grind eins og rimill af rim og Landnámsskáli Helga nafars á Stóra-Grindli? Hjalti Pálsson segir frá merkum fornminjum í Fljótum gimbill af gimbur. Grendel finnst í fornensku og svo nefnist óvættur í Bjólfskviðu. Í forníslensku skáldamáli þýðir grindill vindur eða stormur. Aðrir hafa talið að Grindill/Grillir þýði einskonar sjónarhól, þaðan sem víða sést. Vissulega er víðsýnt frá Grindli en skýringin er ansi langsótt, og raunar fráleit þegar tekið er tillit til þess að Grillir er augljóslega seinni tíma afbökun úr Grindill. Nærtækt er að hugsa sér að land- námsmaðurinn Nafar-Helgi hafi flutt nafnið heiman frá sér. Íslend- ingar sem síðar fluttust til Kanada og Bandaríkjanna gerðu þetta mjög oft, nefndu bújarðir sínar eftir bæjum úr heimasveit sinni. Í Landnámabók segir: „Þórður knappur hét maður sygnskur, son Bjarnar að Haugi, annar hét Nafar-Helgi; þeir fóru samskipa til Íslands og komu við Haganes. Þórður nam land upp frá Stíflu til Tunguár og bjó á Knappsstöðum.“ Síðan kemur nokkur ættrakning og svo heldur áfram frásögn Landnámu: „Nafar-Helgi nam land fyrir austan upp frá Haganesi til Flókadalsár fyrir neðan Barð og upp til Tunguár og bjó á Grindli; hann átti Gró ena (snar)skyggnu.“ Við skoðun þessa texta kemur nokkuð athyglisvert í ljós. Þórður og Helgi komu saman á skipi. Má því ætla að þeir hafi verið vinir og líkast til nágrannar, báðir sygnskir menn, þ.e. úr Sognfirði. Bærinn Haugur er innan til í Sognfirði á norðurströnd fjarðarins, ofan við þorpið Leikanger, skammt austan við Grindsdalen. Um dalbotninn rennur áin Grindselv og við dalsmynnið, niður undir ströndinni, er bærinn Grinde. Er nokkuð líklegra en Helgi nafar hafi beinlínis farið með bæjarnafnið með sér að heiman og nefnt bústað sinn í nýja landinu eftir þeim stað þar sem hann ólst upp? Bær landnámsmannsins Í júnímánuði 2016 var gerð fornleifakönnum í húsatóftum á landnámsjörðinni Stóra-Grindli. Niðri við Miklavatn fannst stór landnámsskáli uppi á lágu barði um 40 metrum ofan við vatnsbakkann. Skálinn er rúmlega 20 m á lengd og 4-5 m á breidd að innanmáli. Í gólfi hans fannst þykkt gólflag og mikið af viðar- kolaleifum, skammt frá honum var mikill sorphaugur. Þessar mannvistarleifar voru langt neðan við öskulagið frá 1104 en ofan við landnámslagið svokallaða sem féll úr gosi um 870, svo að allt bendir til skála frá landnámsöld. Um 65 m sunnar eru minjar um aðra forna byggingu, um 15 metra langa, sem gaf sömu niðurstöður og virðist því frá sama tíma, en ofan í þeirri byggingu voru yngri tóftir. Báðar þessar tóftir snúa því sem næst í norður/suður. Skammt frá fannst einnig mikið af kolum og rusli en engir torfveggir umhverfis þann haug. Um 60 metra upp og vestur frá skálanum er stór rétt, mjög forn ásamt fornum garði sem liggur nokkuð vestan við landnámstóftirnar, frá suðri til norðurs út og niður að Miklavatni. Vatn kemur upp á nokkrum stöðum í brekkuhallanum nið- ur að vatninu út og niður frá skálanum svo að gott neysluvatn hefur verið nærri. Þar sem Stóri-Grindill er talinn landnámsjörð Helga nafars má með talsverðum líkum halda því fram að fundist hafi bústaður hans. Síðasta bæjarstæði Stóra- Grindils er um það bil 400 m ofan við núverandi Siglufjarðarveg, suður og upp frá Minna-Grindli, sunnan lækjarins sem rennur milli bæjanna. Þar lauk búsetu ári 1931 en bæjarhóllinn er mjög stór og umfangsmikill og þar hefur bærinn vafalítið staðið allt frá þjóðveldisöld. Þar er að finna fjölmargar tóftir og mannvirkja- leifar og hóllinn hefur hlaðist upp af aldalöngum aðburði jarðefna. Ekki er vitað hvenær bærinn var færður á þennan stað, en það kann að hafa verið á 12. eða 13. öld. Landnámsmaðurinn hefur valið sér búsetu við Miklavatnið. E.t.v. hefur þá verið skipgengt um ósinn gegnum Hraunamöl og hefur hann þá getað haft knörr sinn neðan við bæinn. Ætla má að þegar leið fram á þjóðveldisöld hafi bærinn verið fluttur upp frá vatninu, um 800 metra vegalengd. Þar hefur verið betra undir bú, vítt graslendi og mýrar ofan við, upp til fjallsins. Þetta búsetusvæði er um 120-150 metrum ofar og austar en ofangreindur bæjarhóll, efst í gömlu túni. Á þessu svæði eru nokkrar fornar húsatóftir. Ein þeirra er af fornum skála. Þar fundust miklar mannvistarleifar, yngri en 1104, og má því ætla að skálinn sé yngri en sá fyrrnefndi niður við vatnið. Kirkja á Sléttu Í sumar voru einnig gerðar forn- leifaathuganir á Sléttu sem er annað eyðibýli skammt innan við Stóra-Grindil. Slétta var neðsti bær í Holtshreppi hinum gamla vestan Fljótaár. Þar stendur nú gamalt, steinsteypt íbúðarhús, eitt bygginga á þeirri jörð. Á móunum norður frá Sléttu eru minjar um fornbýli sem kallað hefur verið Minni-Slétta og bendir allt til að þar hafi bærinn Slétta staðið áður. Þar er stór bæjarhóll og fjölmargar gamlar tóftir á svæðinu. Syðst á þessum hól er greinilegur hringlaga kirkjugarður og sjást ummerki kirkjutóftarinn- ar innan garðsins. Garðveggurinn var aldursgreindur og reyndist hann eldri en 1104. Gerður var könnunarskurður inni í kirkju- garðinum og fundust þar merki um tvær grafir en þær voru báðar tómar. Kemur það heim og saman við forn kirkjulög sem kváðu á um að ef færa þyrfti kirkju og kirkjugarð var skylt að taka upp öll mannabein úr gamla garðinum og flytja í þann nýja og skyldu menn leita beina jafn vel og ef þeir væru að leita peninga. Grafirnar voru einnig undir öskulaginu frá 1104. Á allháum hól, um 200 metra norðvestur frá fyrrnefndum bæjarhól og kirkjugarði, fundust minjar um þrjár sögualdarbygg- ingar, ein þeirra var 22 m langur skáli. Má ætla að þar séu fyrstu mannabústaðir á Sléttu. Fleiri sögualdarskálar hafa komið í leitirnar í þessum tveimur hreppum. Má þar nefna Neskot í Flókadal, Ystahól og Heiði í Sléttuhlíð. Auk þess hefur fjöldi selja verið skoðaður í Hrolleifsdal, á Stafárdal, í Flókadal og á Brunnárdal. Öllu þessu verða gerð nánari skil í næsta bindi Byggðasögunnar um Fellshrepp og Haganeshrepp, sem væntanlegt er á haustdögum 2017. Landnámsskálinn á Stóra-Grindli á strönd Miklavatns. 1. Réttin. 2. Landnámsskálinn. 3. Ruslahaugur. 4. Annað byggingasvæði. MYNDIR: BYGGÐASAGA SKAGAFJARÐAR Kirkjugarðurinn á Sléttu. Kirkjutóftin er merkt númer eitt. 1 2 3 4 1

x

Feykir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.