Feykir


Feykir - 18.04.2013, Blaðsíða 25

Feykir - 18.04.2013, Blaðsíða 25
15/2013 Feykir 25 Ásgeir Jónsson er brottfluttur Skagfirðingur Þegar fólk kýs með fótunum Fyrir sléttum þrjátíu árum áttu nemendur í Grunnskólanum á Hólum að rita stutta ritgerð um það hvað við myndum sýna erlendum ferðamanni sem kæmi til Skagafjarðar. Ekki man ég hvað ég sagðist ætla að sýna téðum ferðamanni. Hins vegar er mér mjög minnistætt hvað ein bekkjarsystir mín ætlað að sýna honum; hún vildi fara með honum í Skagfirðingbúð sem þá var nýkomin í gagnið og var þá raunar ekki kallað annað en „Magasínið“. Þetta var það sem henni þótti merkilegast í Skagafirði. Þetta dæmi hefur orðið mér hugstætt vegna þess að það sýnir svart á hvítu hvernig að mat fólks á því hvað sé markvert í sínu samfélagi getur verið afstætt og breyst með tímanum. Nú er Skagfirðingabúð góð verslun og dugar héraðsfólki vel en allar líkur á því að flestir erlendir ferðamenn hafi átt þess kost að sjá önnur svipuð magasín annars staðar. Og ef þessi ágæta stúlka væri nú spurð hvað væri merkilegast við Skagafjörð er líklegt að svörin væru á dálítið annan veg. Ég var ellefu ára þegar ég flutti í Skagafjörð sumarið 1981 og ól minn unglingsaldur í héraðinu. Ég er ákaflega þakklátur fyrir fóstrið. Að mínu áliti er Skagafjörður ákaflega þétt menningarleg heild og merkisberi þess besta í íslenskri sveitamenningu. Ég átti þess síðar kost að vinna byggðatengd verkefni fyrir Húnaþing vestra og varð einnig áþreifanlega var við hin miklu samfélagslegu gæði þar um slóðir. Ég hygg að sömu sögu megi segja um sveitarfélögin í Austur- Húnavatnssýslu. Norðurland vestra er staður þar sem mjög eftirsóknarvert er að búa. Samt er það svo að flestir jafnaldrar mínir á Norðurlandi vestra hafa flutt burt. Í skýrslu er bar heitið „Byggðir og búseta“ og ég vann ásamt öðrum árið 2003 kom fram að 55% af öllum íbúum, fæddum á árabilinu 1968-72, voru fluttir á brott árið 2000. Af þeim sem höfðu lokið háskólanámi var hlutfallið 70%. Svipaða sögu er að segja annars staðar á landsbyggðinni. Staðreyndin er sú að mjög sögulegir búferlaflutningar áttu sér stað upp úr 1990 þegar kynslóð mín tók sig upp allt í kringum landið og flutti á höfuðborgarsvæðið. Og eftir stendur gat í íbúatölu á þessu aldursbili á flestum stöðum úti á landi. Hægt er að skrifa lærða ritgerð um þær breytingar á atvinnuháttum sem orsökuðu þessa flutninga. Sumir héldu því einfaldlega fram að unga fólkið væri að sækja í „nútímalega lífshætti“ með því að flytja suður. Hvað sem því líður sér sá sem hér ritar mörg teikn á lofti að straumurinn sé að snúast við. Lægra gengi krónunnar hefur bætt rekstrarstöðu flestra höfuðgreina landsbyggðarinnar og flest bendir til þess að landbúnaður og sjávarútvegur, muni vaxa á næstu ÁSKORENDAPENNINN UMSJÓN berglindth@feykir.is árum. Aðrar greinar eru að bætast við, s.s. ferðaþjónusta og auk ýmiss konar nýsköpun. Hins vegar liggja mun víðtækari breytingar í loftinu. Hægt er að orða það svo að nauðhyggjan varðandi störf og staðsetningu sé að hverfa. Nú er svo komið að margir staðir koma til greina fyrir hvert starf. Góð höfn og nálægð við fiskimið kalla ekki lengur sjálfkrafa fram búsetu því fiskinn er hægt að sækja frá mörgum stöðum. Og síðan er hægt að keyra hann til vinnslu yfir landið þvert og endilangt. Að sama skapi er Ísland stórt og víða hægt að stunda landbúnað. Og skapandi fólk getur valið sér búsetu hvar sem er. Í framtíðinni munu það verða lífsgæðin sem munu ráða hvar fólk vill búa og hvar störfin verða til. Og fólk kýs með fótunum. Sá sem hér ritar er handviss um að Norðurland vestra fái mörg atkvæði í þeim kosningum þegar fram líða stundir. Magasínin finnast víða en það er aðeins einn Skagafjörður. - - - - Ásgeir skorar á Harald Sigurðsson frá Grófargili að taka við áskorendapennanum. Heilir og sælir lesendur góðir. Þar sem kosningar til Alþingis eru nú á næsta leiti langar mig til að rifja upp í þessum þætti vísur sem tengst hafa slíkum atburðum. Minnir að það hafi verið 1976 eða 7 sem sú fregn barst í aðdraganda kosninga að Alþýðuflokkurinn væri fyrstur allra til að birta framboðslista hér í Norðurlandskjördæmi vestra. Kölluðu gárungar framboðið snemmbæruna og var eftirfarandi vísa ort af því tilefni. Man því miður ekki hver höfundur er. Í lágu gengi lítilsverð lötrar um í rýru standi. Snauturleg í sníkjuferð snemmbæran á Norðurlandi. Þegar sami flokkur hélt prófkjör í Reykjavík varð þessi vísa til. Höfundur kallaði sig þá S.S. Allan flokkinn undur skók. Eggert fékk að hníga. Feikna jóðsótt fjallið tók fæddist lítil kvíga. Það mun hafa verið eftir kosningafund er Þórhildur Sveinsdóttir frá Hóli orti svo. Undirtyllur einskins svífast allir vita það. Tala fátt, og þar á þrífast þetta er rannsakað. Þórhildur telur að fréttir af slíkum fundum séu ekki alltaf sannleikanum samkvæmar og yrkir. Ef þig vélar váleg frétt vinsaðu úr af snilli. Sumt er logið, sumt er rétt sumt er þar á milli. Á slíkum ögurstundum fara talsmenn stjórnmálaflokkanna á kreik og reyna að halda utan um hjörðina og sjá til þess að sem fæstir villist úr hópnum. Höfundur að næstu vísum, sem ég held að séu ortar 1918, er Emil Petersen sem þá átti heima á Akureyri. Nöpur ískrar aura – sál andi nískra galar. Saman pískra pukursmál pólitískir smalar. Vinir fláir valdhafans veislum frá er slaga. Smalar þá og hundar hans hnútur fá að naga. Margar ræður munu verða fluttar á þeirri vertíð, og kannski ýmsir slá um sig með stórum orðum. Svo mun hafa verið er Ísleifur Gíslason kaupmaður á Sauðárkróki orti svo eftir að hafa hlustað á framboðsræðu. Vísnaþáttur 592 Gífuryrðum um sig sló útsýn firðum glapti. Svifastirður sýndist þó í samábyrgðarhafti. Það mun hafa verið Jón S. Bergmann sem undraðist tryggð sinna samferðamanna við ákveðna stjórnmálaflokka er kom að kosningum. Hann mun hafa ort þessar. Fólkið sér í seinni tíð sitja í tryggum griðum. Kögurbörn, sem leiða lýð logagyllt í sniðum. Valdatindi til að ná tign og launabótum, stikla heimsku annarra á alveg þurrum fótum. Ýmsir sem setið hafa á Alþingi Íslendinga nú undanfarið fá trúlega að hypja sig þaðan eftir næstu kosningar. Minnir að það hafi verið Árni G. Eylands sem óskaði einum slíkum brottfarar með eftirfarandi vísum. Leysti um ævi enga þraut aldrei herti á taumi, löngum eins og froða flaut fram á tímans straumi. Þegar aðrir áttu stríð eða beittu páli, loforð hans og brosin blíð brugðust hverju máli. Kannski losna líka ráðherrastólar án þess að þeir sem í þeim sitja nú þurfi miklu að kvíða um framtíð sína eftir vísu Jóhanns Fr. Guðmundssonar að dæma. Engu þarf um það að spá, -þetta er gömul saga- ef ráðherrarnir fara frá fá þeir bein að naga. Næsta vísa mun vera eftir konu sem ég því miður veit ekki hver er. Er hún ort í kosningabaráttu. Frama draumum sínum sinna samviskunni jafnvel fórna, nú vilja allir allt til vinna ef þeir bara fá að stjórna. Þá líður að lokum á þessari upprifjun á kosningatengdum vísum. Tel gott að enda með því að leita til Bjarna frá Gröf með stórgóða lokavísu. Kosningarnar koma senn kurteisina bæta. Nú heilsa allir heldri menn hverjum sem þeir mæta. Verið þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON )

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.