Morgunblaðið - 26.01.2018, Blaðsíða 22
22 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 26. JANÚAR 2018
✝ SigríðurHrólfsdóttir
fæddist í Reykjavík
16. janúar 1967.
Hún lést í Gren-
oble í Frakklandi
6. janúar 2018.
Foreldrar
Sigríðar eru Hrólf-
ur Halldórsson, f.
21.5. 1935, d.
24.10. 1987, og
Halldóra Svein-
björnsdóttir, f. 10.8. 1938. Syst-
ur Sigríðar eru: Þóra, f. 28.3.
1965, gift Tómasi Kristjánssyni,
og Halldóra, f. 22.2. 1977, gift
Pétri S. Waldorff.
Sigríður giftist Gunnari
Sverrissyni, f. 4.10. 1965, þann
1. júlí 1995. Foreldrar Gunnars
eru Sigríður Hanna Gunnars-
dóttir, f. 11.3. 1940, og Sverrir
Gunnarsson, f. 2.3. 1941.
Sigríður og Gunnar eiga
þrjú börn, tvíburana Halldór
skrifstofu Ernst & Young í
Calgary í Kanada. Árin 1992-
1994 stundaði Sigríður MBA-
nám við University of Calif-
ornia í Berkeley.
Að námi loknu hóf Sigríður
störf hjá Íslandsbanka við fjár-
stýringu og gjaldeyrismiðlun.
Árin 1998-2004 starfaði hún hjá
Eimskipafélagi Íslands hf.
Fyrst sem forstöðumaður fjár-
reiðudeildar og síðar sem
framkvæmdastjóri fjármála-
sviðs. Síðar starfaði hún sem
framkvæmdastjóri fjárfestinga-
og fjármálasviðs hjá Trygg-
ingamiðstöðinni hf. Hún var
framkvæmdastjóri Árvakurs
2009 til 2010. Frá árinu 2010
var Sigríður sjálfstætt starf-
andi auk þess að sitja í stjórn-
um fyrirtækja. Hún sat m.a. í
stjórn Valitor 2009-2010, var
varaformaður stjórnar Lands-
bankans 2010 til 2013, var
stjórnarformaður Eldeyjar
TLH, í stjórn Mílu, var
stjórnarformaður Símans frá
2013 og stjórnarformaður
Landsbréfa frá 2017.
Útför Sigríðar fer fram frá
Hallgrímskirkju í dag, 26. jan-
úar 2018, klukkan 13.
Árna og Sverri
Geir, f. 22.4. 1997,
og Þórunni Hönnu,
f. 24.9. 2004. Fjöl-
skyldan býr í
Garðabæ.
Sigríður ólst
upp í Vestur-
bænum í Reykjavík
og gekk í Vestur-
bæjarskóla og síð-
an Hagaskóla. Lá
þá leiðin í Versl-
unarskólann og útskrifaðist
Sigríður með stúdentspróf það-
an 1986. Að stúdentsprófi
loknu stundaði Sigríður nám í
viðskiptafræði við Háskóla Ís-
lands og útskrifaðist sem við-
skiptafræðingur árið 1990. Sig-
ríður tók virkan þátt í félagslífi
meðan hún stundaði nám í Há-
skóla Íslands. Árin eftir út-
skrift frá Háskóla Íslands starf-
aði Sigríður hjá VÍB og einnig
um tíma hjá endurskoðunar-
Elsku mamma.
Takk fyrir tímann sem við
fengum með þér. Lífið virðist svo
óréttlátt þegar jafn góð kona og
þú er tekin svo skjótt frá okkur
án nokkurs fyrirboða.
Við náðum að gera svo ótrú-
lega margt saman en áttum líka
svo margt ógert. Þú varst besta
fyrirmynd sem við gátum hugsað
okkur og við vorum öll afar stolt
af þér. Ef eitthvað bjátaði á þá
gátum við alltaf verið viss um að
þú værir til staðar og hjálpaðir
okkur að finna lausn á vandan-
um. Takk fyrir allar góðu minn-
ingarnar sem við eigum saman,
öll ferðalögin sem við fórum í inn-
an- og utanlands, dagana sem við
eyddum í sumarbústaðnum og
svo ótalmargt fleira. Við söknum
þín sárt en erum jafnframt svo
þakklát fyrir allar góðu stundirn-
ar sem við áttum saman.
Halldór Árni, Sverrir
Geir og Þórunn Hanna.
Elsku Sigga mín.
Ekki gat mig grunað að ég
ætti eftir að skrifa minningar-
grein um þig. En örlögin láta
ekki að sér hæða og fara sína eig-
in vegi. Það fyrsta sem kom upp í
hugann, þegar ég heyrði fréttirn-
ar, var hvað þið voruð öll spennt
og hlökkuðuð til að eiga góða
daga öll saman á skíðunum. Þið
systurnar ásamt eiginmönnum
og strákunum fimm, sem eru allir
svo góðir félagar og svo ekki síst
hún Þórunn mín, sem alltaf hefur
fylgt foreldrunum hvert sem far-
ið var.
Þegar Sigga var barn kom
fljótt í ljós að hún var ákveðin og
vissi hvað hún vildi. Fjögurra ára
gömul elti hún Þóru systur sína í
skólann, það héldu henni engin
bönd. Það endaði með því að hún
fékk að byrja skólagöngu 5 ára.
Stóð hún sig strax alveg prýði-
lega en var alltaf nokkuð fyrir-
ferðarmikil heima fyrir. Ein-
hvern tíma var ég á foreldrafundi
og var eitthvað að bera mig upp
undan henni heima fyrir. Þá leit
kennarinn á mig undrunaraugum
og sagði: Hún Sigga? Hún sem er
ljósið í bekknum! Ég kvartaði
aldrei aftur, en leit í eigin barm
og hugsaði með mér að það væri
ég sem þyrfti að bæta mig.
Þegar þær uxu úr grasi syst-
urnar voru þær alltaf góðar vin-
konur, Sigga fylgdi fast eftir
vinahópi Þóru og svo var dagleg-
ur gestur hjá okkur hún Sigga
Halla, dóttir hennar Gígju vin-
konu minnar. Þegar Sigga var 10
ára fæddist ein systir í viðbót,
hún var skírð Halldóra eftir afa
sínum. Þær systur voru henni
mjög góðar og þegar hún stækk-
aði sagðist hún eiga þrjár
mömmur. Á unglingsárum kom
oft í hlut Siggu að sjá um systur
sína, sérstaklega eftir að pabbi
þeirra dó og Þóra var komin með
fjölskyldu og farin að heiman og
ég var í fullri vinnu.
Þær systur, Þóra og Sigga,
fóru báðar í viðskiptafræði eftir
stúdentspróf. Sigga ákvað að
taka þetta lengra og fór í frama-
haldsnám í viðskiptum til Banda-
ríkjanna, Berkeley í Kaliforníu,
og var þar í tvö ár. Á þessum ár-
um kynntist hún Gunnari, manni
sínum, og settu þau saman bú
skömmu eftir komu hennar heim.
Sigga var strax komin í góða
vinnu, svo eignast þau tvíburana,
Sverri og Halldór, en Sigga lét
það ekki aftra sér frá því að vera í
fullri vinnu og ábyrgðarstörfum
þó það reyndi stundum á. Sjö ár-
um seinna eignast þau svo sól-
argeislann sinn, hana Þórunni
Hönnu.
Á hverju sumri fórum við
norður í Ófeigsfjörð, á æsku-
stöðvar mínar, og áttum þar góð-
ar vikur. Við héldum því áfram
eftir að amma þeirra dó og fram á
síðustu ár. Síðan var oft rennt
norður að Mýri í Bárðardal til
Gunnu systur, þar sem Sigga var
í sveit og stundum fórum við
hringinn um landið eða bara
beint yfir Sprengisand. Seinna,
þegar þær systur voru komnar
með menn og börn, áttum við ótal
margar ferðir um óbyggðir og út-
nes í góðum hópi ættingja og
vina. Þá voru þau Gunnar og
Sigga í forystu og gerðu ítarlegt
plan fyrir hverja ferð.
Söknuður okkar allra er mikill
en erfiðast verður þetta fyrir
Gunnar og börnin, tvíburana,
Sverri og Halldór, sem eru ný-
byrjaðir í HR og hafa notið
stuðnings mömmu sinnar í námi
og fyrir Þórunni mína, sem á að
fermast í vor. Megi allar góðar
vættir styðja ykkur í þessari
þraut.
Mamma.
Elsku Sigga mín.
Það er svo ótrúlega sárt að
vera að kveðja þig svo snemma.
Ég trúi því varla enn að þetta
hafi getað gerst og lamast við til-
hugsunina um símtalið frá Tóm-
asi mági okkar fyrir tæpum
þremur vikum. Það erfiðasta sem
ég hef gert í þessu lífi var að
þurfa að segja mömmu okkar
þessar hræðilegu fréttir.
Þú varst svolítið eins og önnur
mamma mín þó að það séu bara
10 ár á milli okkar og það var svo
gott að eiga þig að eftir að pabbi
dó aðeins 52 ára að aldri þegar ég
var bara 10 ára. Þeir erfiðu tímar
rifjast nú upp fyrir okkur mæðg-
unum þegar þú hefur yfirgefið
okkur með svo sviplegum hætti.
Þóra systir gekk þá með frum-
burðinn Hrólf Andra, sem kom
eins og sólargeisli inn í líf okkar
nokkrum mánuðum eftir að pabbi
lést. Þú, ég og mamma bjuggum
því þrjár saman á Hringbrautinni
í nokkur ár eftir að Þóra og Tóm-
as fóru að búa og áður en þú fórst
út í nám í Berkeley. Ég man að á
þessum tíma fórst þú með mér að
kaupa fermingarkjól og síðar hjól
fyrir fermingarpeningana og
verður því hugsað til elsku Þór-
unnar sem mun fermast í vor.
Síðar fékk ég tækifæri til að
koma þér til aðstoðar með
umönnun á yndislegu litlu tvíbur-
unum þegar þeir komu heim af
vöggudeild og með því að passa
þá þegar þeir stækkuðu.
Þú hefur verið ein helsta fyr-
irmynd mín í lífinu og ég hef allt-
af verið svo stolt af þessari eld-
kláru stóru systur minni. Þú
hefur alltaf vitað hvað þú vildir
og haft sterkar skoðanir á hlut-
unum, ráðagóð, einlæg, áköf og
alltaf haldið svo vel utan um þína
nánustu. Ég veit ekki hversu oft
ég hef hringt í þig til að leita ráða
við hinum ýmsu málum sem upp
hafa komið í mínu lífi, t.d. varð-
andi nám og starf. Þú hjálpaðir
okkur Pétri í íbúðarleit og svo
varstu alltaf með góð ráð varð-
andi barnauppeldið enda mikil
barnagæla.
Þú varst fljót að sjá spaugilegu
hliðarnar á hlutunum og alltaf
stutt í brosið. Hafðir svo gaman
af krúttlegum tilsvörum litla
frænda og frænku. Undanfarið
hafa rifjast upp góðar minningar
um samverustundir í kringum
jólin. Hvað þú áttir bágt með að
halda aftur af brosinu þegar að
Skúli 6 ára horfði á þig einlægum
augum nú rétt fyrir jól og sagði
að Hulk-gríman og hanskarnir
sem hann hefði óskað sér í jóla-
gjöf væru svolítið dýrir og að þú
þyrftir kannski að safna smá pen-
ing til að geta keypt þá. Hvað þú
hafðir gaman af því þegar Mar-
grét 3ja ára bjó til ný orð eins og
„varlega sokkabuxur“ um nælon-
sokkabuxur, sem þarf að klæða
sig varlega í.
Skúli og Margrét mín missa nú
kæra frænku, sem reyndist þeim
svo góð. Söknuður okkar allra er
mikill. En mestur er missir
Gunnars, Halldórs, Sverris og
Þórunnar Hönnu. Ég lofa þér því
að gera allt sem í mínu valdi
stendur til þess að auðvelda þeim
lífið eins og kostur er á þessum
erfiðu tímum og fylgja þeim í
gegnum lífið svo lengi sem mér
er fært.
Þín litla systir,
Halldóra.
Elsku Sigga mín. Hvernig get-
ur það gerst að þú hverfir á brott
á einu andartaki frá Gunna og
krökkunum og okkur öllum hin-
um? Við erum ennþá að reyna að
átta okkur á að þú sért farin og
mun það taka okkur langan tíma.
Ég er ekki aðeins að missa systur
mína heldur bestu vinkonu líka.
Frá því ég man eftir mér hefur
þú verið stór hluti af lífi mínu, ég
var tæplega tveggja ára þegar þú
fæddist og man ég ekki eftir mér
öðruvísi en sem stóra systir þín.
Við vorum strax mjög mikið sam-
an í æsku og hefur það haldist
síðan. Þegar ég byrjaði í skóla
leiddist þér heima og fórst fljót-
lega að fylgja mér í skólann, sem
endaði með því að þú byrjaðir í
skóla ári fyrr en jafnaldrarnir.
Við fórum síðan báðar í Versló og
viðskiptafræði og vorum á þess-
um tíma mikið saman. Ég held ég
geti fullyrt að allir vinir mínir
þekki þig líka og flestir þeirra
kalla þig Siggu systur eins og ég.
Ekki minnkaði samgangurinn
eftir að við urðum fullorðnar og
stofnuðum fjölskyldur og eruð
þið Gunni meðal bestu vina
okkar. Við höfum ferðast mikið
saman með fjölskyldurnar bæði
innan- og utanlands. Á þessum
erfiðu tímum reynum við að ylja
okkur við góðar minningar, með-
al annars úr öllum góðu jeppa-
ferðunum sem við fórum inn á há-
lendið með stórfjölskyldunni og
allar útilegurnar sem við höfum
farið saman í og ekki síst ferð-
irnar okkar norður í Ófeigsfjörð
á æskuslóðir mömmu, en sá stað-
ur á alltaf sérstakan sess í okkar
huga.
Utanlandsferðirnar eru einnig
margar og góðar og ber þá
kannski hæst ferðina okkar til
Kaliforníu 2014, en þá voru 20 ár
síðan þú útskrifaðist frá Berke-
ley og ákvaðst af því tilefni að
fara með fjölskylduna á gamlar
slóðir. Við ákváðum að koma á
eftir ykkur og ferðuðumst við
saman um Kaliforníu í tvær vikur
þar sem þú varst búin að skipu-
leggja hvaða staði ætti að skoða.
Margar aðrar ferðir koma upp í
hugann, eins og t.d. þegar við fór-
um til Montreal 2005 og heim-
sóttum Dóru systur og Pétur sem
voru þar í námi. Þá voru börnin
okkar yngri og Þórunn aðeins
eins árs en það vafðist ekkert fyr-
ir ykkur að fara í þessa ferð og
heppnaðist hún einstaklega vel.
Eins áttum við fjölskyldurnar
mjög góða daga í Villefranche
fyrir nokkrum árum með
mömmu og hefur oft komið upp
sú hugmynd að fara þangað aft-
ur. Við áttum einnig stórkostleg-
an dag á skíðum í Zermatt á
fimmtugsafmælisdegi mínum.
Við áttum eftir að fara í margar
ferðir og t.d. stóð til að fara í
mæðgnaferð til Köben með
mömmu og Dóru í vor.
Undanfarin ár hafa okkar allra
bestu stundir verið í Skorra-
dalnum þar sem við byggðum
sumarbústaði saman fyrir 12 ár-
um. Þar höfum við verið mikið
saman og mjög oft þegar við höf-
um verið í bústaðnum okkar hafið
þið Gunni einnig verið á staðnum
og hafa börnin okkar oftast verið
með okkur enda tvíburarnir þínir
og Kristján sonur okkar bestu
vinir og oft kallaðir þríburarnir.
Söknuður okkar allra er mikill
og er hugur okkar hjá Gunna,
Halldóri, Sverri og Þórunni en
við munum gera allt sem við get-
um til þess að reyna að létta þeim
lífið á þessum erfiðu tímum.
Þín systir að eilífu,
Þóra.
Það er ótrúlega skrítið að
Sigga frænka sé ekki með okkur
lengur. Um áramótin vorum við
saman í frábærri skíðaferð og
síðasta kvöldið hennar vorum við
öll að dansa og fíflast og gera
„höfuð, herðar, hné og tær“ og
aðra kjánalega hluti. Engan óraði
fyrir því að daginn eftir yrði hún
farin.
Það að við höfum einmitt verið
í fríi saman á þessari stundu þarf
reyndar ekki að koma svo mikið á
óvart. Sigga, Gunni og krakkarn-
ir eru helstu ferðafélagar okkar
og foreldra okkar og við ferðumst
saman bæði innanlands og utan
oft á ári. Á milli ferðalaganna
hittumst við síðan í Skorradaln-
um þar sem fjölskyldur okkar
eru með sumarhús hlið við hlið.
Sigga og mamma hafa alltaf
verið mjög nánar og fjölskyldur
okkar hafa orðið það líka. Pabbi
og Gunni eru miklir vinir og
Kristján, Halldór og Sverrir hafa
stundum verið svo mikið saman
að þeir hafa verið kallaðir þríbur-
arnir. Í gegnum ferðalögin hafa
fjölskylda pabba og vinir foreldra
okkar einnig kynnst Siggu og
Gunna og því er varla hægt að
hugsa sér mikið nánari stórfjöl-
skyldu.
Auk þess að vera hress,
skemmtileg og vinamörg þá var
Sigga frænka góð fyrirmynd fyr-
ir okkur bræðurna og hún var
alltaf glöð að sjá okkur. Hún var
bæði klár og skipulögð og sýndi
metnað í námi og starfi. Hún
stundaði framhaldsnám í Kali-
forníu og það var mjög gaman að
fara með henni þangað fyrir
nokkrum árum þar sem hún naut
þess að leiða okkur um fylkið og
rifja upp gamla og góða tíma.
Siggu frænku verður sárt
saknað af öllum sem þekktu hana
en eftir stendur fjölskylda sem
mun halda minningu hennar á
lofti í langan tíma.
Hvíldu í friði, elsku frænka.
Hrólfur, Ragnar og Kristján.
Elsku Sigga.
Nú þegar þú hefur kvatt þenn-
an heim vildum við (ég, mágur
þinn og börnin) senda þér kveðju.
Skúli og Margrét voru meira en
til í að segja nokkur vel valin orð
um frænku sína, enda varst þú í
sérstöku uppáhaldi hjá þeim. Þau
eru enn ekki alveg búin að átta
sig á því hvað fráfall þitt þýðir,
við fullorðna fólkið erum það í
raun ekki heldur. Börnin tjá
hugsanir sínar á einfaldan og
skýran hátt en við sem eldri er-
um eigum erfiðara með að koma
tilfinningum okkar í orð. Þegar
ég minntist á að við ættum að
skrifa minningargrein fyrir
Siggu frænku sagði Skúli sex ára
að hann vildi segja: „Sigga er
mjög skemmtileg og góð, við
elskum hana mjög mikið. Við er-
um mjög leið yfir að hún sé dáin,
mamma fer að gráta.“ Margrét
þriggja ára tók þessu verkefni
einnig alvarlega og sagði: „Ég
elska Siggu frænku af því að hún
var alltaf góð við mig og gaf mér
sleikjó. Mamma mín er leið og við
söknum þín, Sigga frænka.“
Þú varst okkur fjölskyldunni
ávallt innan handar, Dóra gat
alltaf leitað til þín til að fá góð ráð
og fyrir mér varstu ávallt rödd
skynseminnar sem sá hlutina í
samhengi. Ég minnist þess þegar
við fjölskyldurnar hittumst í fjöl-
skylduboðum þar sem við sátum
og gæddum okkur á yndislegum
mat sem þú varst oftar en ekki
búin að matreiða, drukkum góðar
veigar og nutum þess að vera
saman. Á þessum samverustund-
um voru börnin ávallt höfð með
og á meðan við fullorðna fólkið
veltum okkur uppúr heimi hinna
fullorðnu léku frændsystkinin
sér í sínum eigin ævintýraheimi.
Ég hef alltaf dáðst að því hvað
þið eruð samheldin fjölskylda og
gerið margt skemmtilegt með
krökkunum, eitthvað sem höfðar
til þeirra eftir því sem þau
stækka og þroskast. Þú varst
mjög mikilvægur hlekkur í fjöl-
skyldunni og í lífi svo margra í
kringum þig og við fráfall þitt
myndast skarð, sem ekki er hægt
að fylla. Við söknum þín og minn-
umst allra góðu stundanna sem
við áttum með brosmildu Siggu
frænku.
Pétur, Skúli og Margrét.
Ég kynntist mágkonu minni
og kærri vinkonu sem Siggu
systur. Þóra og Sigga systir voru
einstakar vinkonur. Samband
þeirra var mjög náið en þær voru
um margt ólíkar. Samskiptin
voru afar mikil og laus við allt
vesen ef svo má segja, allt leyst
og skipulagt hratt og örugglega
og látið ganga vel.
Við Þóra eignuðumst Hrólf
Andra þegar við vorum í Há-
skólanum og þá færðist smá al-
vara í hlutina og Sigga hóf að
passa frænda sinn. Þá kynntist
ég fyrst hagsmunagæslu hennar
fyrir sína, en Sigga var ekki bara
skemmtileg og klár kona eins og
ég hafði þá þegar kynnst heldur
einstaklega umhyggjusöm og
ákveðin. Frá þessum tíma hefur
smám saman þróast með manni
þessi ómeðvitaða hugsun um
hvað Siggu muni finnast og þá að
vera undirbúinn ef maður ætlaði
eitthvað að ögra því. Mér þótti
mjög vænt um þetta samband.
Sigga naut mikils trausts og
henni voru falin krefjandi verk-
efni en forgangsröðin var samt
alltaf skýr. Mjög meðvitað gætti
hún að því að nýta tímann mjög
vel í vinnu og að fjölskyldan hefði
sinn tíma. Þau Gunni eyddu
þannig miklum tíma með börn-
unum og vinum sínum. Við Þóra
vorum svo gæfusöm að njóta lífs-
ins með þeim þó að vissulega höf-
um við átt eftir að gera svo
margt. Við höfum ferðast um allt
land, yfirleitt í stórum hópum.
Foreldrar og systur okkar Þóru
fóru í jeppaferðir saman í 10 ár
sem Gunni skipulagði. Vinahópar
og fjölskyldur þeirra systra
beggja hafa einnig sameinast í
útilegum og verið gaman hvernig
nýr vinskapur hefur orðið til í
tengslum við það. Í Skorradaln-
um byggðum við okkur hús á
samliggjandi lóðum og þar hafa
fjölskyldur okkar notið ótal sam-
verustunda og vinir beggja fjöl-
skyldna bæst í hópinn. Það sem
maður á Siggu mikið að þakka og
hvað við eigum eftir að sakna
hennar, það var svo smitandi
þegar hún ákvað að nú væri
gaman.
Við höfum ferðast víða erlend-
is og á slíkum ferðum hefur
þróast skemmtileg verkaskipt-
ing. Ekkert endanlega ákveðið
fyrr en það hefur verið þaulkann-
að af Siggu og Gunna. Mikið
skipulag og síðan mikil gleði. Ef
eitthvað kom upp á var Sigga
alltaf fljót að átta sig á aðstæðum
og ákveða hvað ætti að gera og
iðulega hafði hún nú rétt fyrir sér
ef maður var svo djarfur að láta
reyna á það. Síðustu ferðirnar
voru um síðastliðna páska til
Naples í Flórída og hin örlaga-
ríka skíðaferð til Frakklands um
áramótin. Í okkar síðustu ferð
nutum við þess að fylgjast með
einstöku vinasambandi barna
okkar og njóta samveru við þau á
jafnræðisgrunni. Strákarnir okk-
ar eru orðnir fullorðnir, Þórunn
orðin unglingur og Stefanía mætt
með Sverri, okkur öllum til mik-
illar ánægju. Það var mikið hleg-
ið í þessari ferð og svo óskiljan-
legt hvernig hún endaði.
Samband Gunna og Siggu var
einstakt og var örugglega fleir-
um en mér fyrirmynd. Sam-
heldni, virðing og einstakur vin-
skapur ríkti milli þeirra og þau
hugsuðu vel um hvort annað.
Halldór, Sverrir og Þórunn hafa
misst svo mikið en þau búa að
einstöku sambandi við mömmu
sína sem gaf þeim mikið, það hafa
þau þegar sýnt á þessum
skamma tíma frá hinu þungbæra
áfalli þeirra.
Tómas Kristjánsson.
Í ljóði sínu Í kirkjugarði orti
Steinn Steinarr: „Ó guðir, þér,
sem örlög okkur vefið, svo undar-
leg.“
Okkur er fyrirmunað skilja ör-
lögin – svo undarleg. Napurleg.
Það er eitthvað rangt við það að
þurfa að kveðja Siggu, eiginkonu,
móður, dóttur, systur og kæra
vinkonu sem fellur svo sviplega
frá á miðri lífsins leið. Á slíkri
stundu kemur missirinn fyrst
upp í hugann, en svo leitar
hugurinn að öllu því sem áratuga
vinátta skilur eftir sig. Og minn-
ingarnar hrannast upp.
Það var fyrir um þrjátíu árum
að ég stóð ásamt stórum hópi ný-
innritaðra viðskiptafræðinema
og beið þess að dyrnar að
kennslusal í Háskóla Íslands
opnuðust. Tilsýndar var hávaxin
Sigríður
Hrólfsdóttir