Morgunblaðið - 19.02.2018, Blaðsíða 20
20 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 19. FEBRÚAR 2018
Morgunblaðið birtir minningargreinar endurgjaldslaust alla
útgáfudaga.
Skilafrestur | Ef óskað er eftir birtingu á útfarardegi verður greinin
að hafa borist eigi síðar en á hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á
föstudegi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi).
Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein ber-
ist áður en skilafrestur rennur út.
Lengd | Minningargreinar sem birtast í Morgunblaðinu séu ekki
lengri en 3.000 slög. Ekki er unnt að senda lengri grein. Lengri grein-
ar eru eingöngu birtar á vefnum. Hægt er að senda örstutta kveðju,
HINSTU KVEÐJU, 5-15 línur. Ekki er unnt að tengja viðhengi við
síðuna.
Formáli | Minningargreinum fylgir formáli sem nánustu aðstand-
endur senda inn. Þar koma fram upplýsingar um hvar og hvenær sá
sem fjallað er um fæddist, hvar og hvenær hann lést og loks hvaðan og
klukkan hvað útförin fer fram. Þar mega einnig koma fram upplýs-
ingar um foreldra, systkini, maka og börn. Ætlast er til að þetta komi
aðeins fram í formálanum, sem er feitletraður, en ekki í minning-
argreinunum.
Undirskrift | Minningargreinahöfundar eru beðnir að hafa skírn-
arnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.
Myndir | Hafi mynd birst í tilkynningu er hún sjálfkrafa notuð með
minningargrein nema beðið sé um annað. Ef nota á nýja mynd skal
senda hana með æviágripi í innsendikerfinu. Hafi æviágrip þegar verið
sent er ráðlegt að senda myndina á netfangið minning@mbl.is og láta
umsjónarmenn minningargreina vita.
Minningargreinar
✝ Óskar Ágústs-son fæddist á
Hvalsá í Stein-
grímsfirði 10. sept-
ember 1937. Hann
lést á Landspítal-
anum 8. febrúar
2018.
Foreldrar hans
voru Guðrún Þór-
ey Einarsdóttir, f.
5.1. 1908, d. 2.9.
2000, og Oddur
Ágúst Benediktsson, f. 11.8.
1900, d. 2.4. 2004.
Bræður Óskars eru: Har-
aldur, f. 24.6. 1930, d. 7.8.
1994, Benedikt, f. 16.7. 1931, d.
25.9. 2016, Júlíus f. 17.12. 1932,
d. 1.6. 1987, Einar Ingi, f. 15.6.
1935, Svavar, f. 8.10. 1941, d.
27.7. 2016, og Gísli, f. 19.12.
1946.
Óskar kvæntist Margréti
Sigurðardóttur frá Grindavík,
f. 30.11. 1935, hinn 31.12. 1972.
Foreldrar Margrétar voru Guð-
björg Eysteinsdóttir, f. 3.6.
1904, d. 11.11. 1973, og Sig-
urður Jóhann Ólafsson, f. 12.7.
1905, d. 15.1. 1984.
Dætur þeirra eru: 1) Guð-
björg, f. 4.6. 1973. Maki Hinrik
Þór Harðarson, f. 27.9. 1973.
Börn þeirra eru a)
Hildur Eva, f. 19.9.
2008, b) Brynjar
Ingi, f. 23.3. 2010,
c) Andri Þór, f.
15.6. 2012. 2) Sig-
urrós, f. 17.10.
1974. Maki Hákon
Sverrisson, f. 4.9.
1973. Börn a)
Steinar, f. 31.7.
2001, b) Sverrir, f.
8.7. 2003, c) Óskar,
f. 8.7. 2003, d) Hekla, f. 15.9.
2009.
Óskar ólst upp á Hvalsá í
Steingrímsfirði og stundaði þar
almenn bústörf með foreldrum
sínum ásamt vinnu á vinnu-
vélum við vegagerð og fleira.
Árið 1972 flutti hann til
Grindavíkur, keypti sér vörubíl
og hóf störf á Vörubílastöð
Grindavíkur. Hann starfaði þar
til ársins 1994. Þá hóf hann
störf hjá Grindavíkurbæ, við
skólaakstur, snjómokstur, um-
sjón með unglingavinnu og
fleiri tilfallandi störf við
áhaldahús bæjarins. Hann
starfaði þar til ársins 2007.
Útför hans fer fram frá
Grindavíkurkirkju í dag, 19.
febrúar 2018, klukkan 14.
Þér kæra sendi kveðju
með kvöldstjörnunni blá
það hjarta, sem þú átt,
en sem er svo langt þér frá.
Þar mætast okkar augu,
þótt ei oftar sjáumst hér.
Ó, Guð minn ávallt gæti þín,
ég gleymi aldrei þér.
(Bjarni Þorsteinsson)
Þín eiginkona,
Margrét.
Í dag kveð ég elsku pabba
minn. Pabba sem alltaf var til
staðar fyrir mig og mína. Ég
kveð hann með söknuði en jafn-
framt með þakklæti.
Góðmennska, vinnusemi og
nákvæmni einkenndi pabba.
Hann var þúsundþjalasmiður og
allt sem hann tók sér fyrir hend-
ur gerði hann vel. Honum féll
aldrei verk úr hendi. Ófá hand-
tök á hann á mínu heimili, lagt
bílaplan, byggt sólpalla og lagað
bilaða krana svo dæmi séu tekin.
Allt gert af mikilli nákvæmni og
natni.
Pabbi var mikið náttúrubarn.
Hann unni náttúrunni og ferðað-
ist mikið um landið. Sem barn
naut ég þess að fara í ferðalög
og útilegur á hverju einasta
sumri með foreldrum mínum.
Nú á seinni árum ferðuðust þau
hjónin á húsbílnum sínum um
landið þvert og endilangt.
Grásleppuveiðar með pabba
eru mér líka minnisstæðar,
berjaferðirnar norður á Strandir
og smalamennskan í Grindavík.
Nú eru þetta dýrmætar minn-
ingar sem ég mun geyma í
hjarta mínu.
Mikið er ég þakklát fyrir það
að börnin mín fengu að kynnast
afa sínum. Betri og hugulsamari
afa er erfitt að finna.
Elsku pabbi, þín verður sárt
saknað.
Þín dóttir,
Sigurrós.
Elsku pabbi. Það er mjög
skrýtið að setjast niður og skrifa
minningargrein um þig, nokkuð
sem ég átti alls ekki von á að
gera alveg strax, þetta gerðist
allt svo snöggt.
Þegar þú greindist með ill-
vígan sjúkdóm fyrir rúmum
tveimur mánuðum var það okk-
ur öllum mikið áfall, en þú tókst
fréttunum með mikilli ró og yfir-
vegun, nokkuð sem ég hefði ekki
getað gert. Þú kvartaðir aldrei
þótt þú hafir örugglega oft verið
sárþjáður síðustu dagana. Þú
varst mjög heilsuhraustur alla
tíð og var þessi eini og hálfi
sólarhringur sem þú dvaldir á
sjúkrahúsinu núna í tengslum
við þessi veikindi aðeins í annað
skiptið sem þú fórst á sjúkrahús
á þessum rúmu 80 árum, hitt
var fyrir 45 árum þegar þú fót-
brotnaðir.
Þú vissir innst inni í hvað
stefndi og baðst okkur að gera
nokkra hluti sem þú náðir ekki
að klára áður en heilsunni hrak-
aði, við munum reyna að leysa
þau verkefni eftir bestu getu
eins og þú hefðir gert. Þú varst
mjög rólegur og yfirvegaður
maður og varst yfirleitt ekkert
að hafa áhyggjur eða stressa
þig á hlutunum, það gerðist
bara það sem gerðist. Þú varst
mjög félagslyndur og hafðir
gaman af að vera innan um fólk
og spjalla um allt milli himins
og jarðar. Einnig varstu mjög
gestrisinn og sýnir það sig best
í því að heimili ykkar mömmu
var alltaf opið fyrir gesti og
gangandi og mikill gestagangur
á heimilinu og öllum boðið upp á
kaffi að gömlum íslenskum
sveitasið.
Þú varst mjög handlaginn og
mikill þúsundþjalasmiður, gerðir
við allt sem úrskeiðis fór og ef
þú gast ekki lagað og gert við þá
gat það enginn og nutum við
fjölskyldan og margir fleiri góðs
af því. Það voru margir sem leit-
uðu til þín um hjálp og ýmsar
ráðleggingar varðandi hitt og
þetta. Alltaf var sjálfsagt að
hjálpa og veita aðstoð eftir bestu
getu. Þú þurftir alltaf að hafa
eitthvað fyrir stafni og ef þig
vantaði eitthvað að gera þá
fannstu þér bara verkefni, ekki
var í boði að vera verkefnalaus.
Húsbíllinn þinn og ferðalög um
landið voru þitt líf og yndi og
var yndislegt að þið gátuð
ferðast mikið síðustu ár. Snyrti-
legur varstu og má sjá það á
heimilinu, húsið alltaf nýmálað
og lóðin nýslegin. Þú varst mjög
hrifinn af barnabörnunum og
spurðir alltaf hvernig þau hefðu
það og hvað væri að frétta af
þeim. Það sýnir sig best á því að
nokkrum mínútum áður en þú
kvaddir þennan heim spurðirðu
mig hvort Brynjar Ingi væri
orðinn hress því ég hafði sagt
þér daginn áður að hann hefði
verið með einhverja flensu og
ekki farið í skólann. Með þess-
um orðum langar mig að þakka
þér fyrir allt sem þú hefur gert
fyrir mig og mína fjölskyldu, þín
verður sárt saknað af okkur
öllum.
Guðbjörg.
Í dag kveð ég tengdapabba
minn Óskar Ágústsson. Stranda-
manninn stóra og stæðilega með
sína stóísku ró. Umgengni við
Óskar var endalaus lærdómur
fyrir mig. Honum á ég margt að
þakka og var hann okkur Rósu
mikill stuðningur í fjölmörgum
framkvæmdum sem við áttum á
heimili okkar. Ómetanleg var
aðstoð Óskars við byggingu á
heimili okkar Rósu en hann að-
stoðaði við að hlaða milliveggi,
múra og smíða stiga. Pallasmíði
var hans sérgrein og hjálpaði
hann okkur m.a. að smíða tvo
palla við hús okkar. Allt hand-
bragð einkenndist af nákvæmni
og vandvirkni.
Nokkurn tíma tók að læra á
stundvísi Óskars en oftar en
ekki mætti ég á fyrirfram
ákveðnum tíma upp í hús en þá
var hann búinn að vera að í 30
mín., tæki komin í gang og verk-
ið nærri hálfnað. Ef Óskar var í
stuði var kaffitíminn oft bara 10
mínútur því ákafinn var svo mik-
ill að halda áfram og klára
verkið.
Útilegurnar með Óskari og
Möggu eru minnisstæðar sam-
verustundir en þar naut hann
sín alltaf vel með margt fólk í
kringum sig. Hápunkturinn var
yfirleitt þegar Óskar dró fram
kolagrillið og grillaði lærissneið-
ar ofan í mannskapinn. Hann
fullyrti að miklu betra bragð
væri af kjötinu af kolagrillinu
heldur en gasgrilli, sem er lík-
lega rétt.
Á haustin var skemmtilegt að
vera í kringum Óskar en þá tók
við smalamennska, berjatínsla,
slátrun og sláturgerð. Í ófá
skiptin stóðum við í fyrirstöðu
hvor á sínum hólnum uppi á
heiði en aldrei misstum við kind-
ur framhjá okkur í smala-
mennskunni.
Heimili Óskars og Möggu hef-
ur alltaf staðið opið fyrir gestum
og gangandi. Honum fannst
gaman að fá fólk í heimsókn og
margir litu inn í kaffi og létt
spjall. Þessi mannblendni Ósk-
ars var honum eðlislæg enda var
nærvera hans hlý.
Mikið er ég þakklátur fyrir að
börn okkar Rósu hafa fengið að
umgangast góðan afa.
Óskar er mér mikil fyrirmynd
í svo mörgum þáttum daglegs
lífs og er ég ævinlega þakklátur
fyrir kynni okkar.
Þinn tengdasonur,
Hákon Sverrisson.
Elsku afi. Okkur systkinin
langar að segja takk fyrir allt
sem þú hefur gert fyrir okkur,
þú varst alltaf svo góður við
okkur. Það var alltaf gaman að
koma í heimsókn til ykkar
ömmu í Grindavík og alltaf þeg-
ar við fórum heim gafstu okkur
nesti til að hafa í bílnum á leið-
inni heim og yfirleitt var það
kandísmoli eða kex. Þú fékkst
þér alltaf molasykur með
kaffinu. Þegar þú opnaðir skáp-
inn þar sem þú geymdir molann
vorum við fljót að hlaupa til þín
og biðja um mola og var hann
bestur ef það var búið að dýfa
honum í smá kaffi. Það var líka
mjög gaman þegar þú komst
heim til okkar í Kópavoginn og
þegar þið amma komuð á fína
húsbílnum ykkar upp í Kjós til
okkar.
Elsku afi Óskar, við eigum
eftir að sakna þín mjög mikið og
að fá ekki að hitta þig oftar en
við geymum allar fallegu minn-
ingarnar sem við eigum um þig í
hjartanu.
Hildur Eva, Brynjar Ingi
og Andri Þór.
Elsku afi okkar, það er skrýt-
ið að vera án þín og við söknum
þín mjög mikið. Við eigum mikið
af frábærum minningum um þig
og ein þeirra er úr kindakof-
anum. Á hverju vori fórst þú
með okkur krakkana í kindakof-
ann og sýndir okkur lömbin,
rollurnar og hrútana. Við mun-
um alltaf muna eftir þér, elsku
afi.
Láttu nú ljósið þitt
loga við rúmið mitt.
Hafðu þar sess og sæti,
signaði Jesús mæti.
(Höf. ók.)
Steinar, Sverrir,
Óskar og Hekla.
Að fá að vera sumarlangt í
sveit eru forréttindi. Sumrin
sem ég var hjá ömmu, afa og
Óskari frænda á Hvalsá í Stein-
grímsfirði er eitthvað sem gaf
ómetanlega reynslu og minning-
ar. Reka kýrnar, mjólka, sauð-
burður, smala, rýja, bera á tún-
in, slá túnin, búa til nýrækt, róa
til grásleppu, salta hrogn, veiða
sel, negla upp selskinn, reykja
kjöt, sækja rekann, kljúfa reka-
drumba og saga í girðingar-
staura. Þetta er bara hluti af
verkefnum þeirra sem bjuggu á
Hvalsá og dásamleg minning að
hafa fengið að vera aðeins með.
Ef það var einhver maður
sem ég leit upp til á þessum ár-
um var það Óskar frændi, enda
átti hann alltaf flottan Land Ro-
ver, sem ég fékk stundum að
keyra.
Óskar vissi allt og vanda-
málin voru bara til að leysa
þau. Það var ekki gert stórmál
úr því þótt ég hafi næstum ver-
ið búinn að kveikja í fjárhús-
unum eða þegar ég var kominn
í sjálfheldu uppi á barði á
dráttarvélinni með múgavélina
aftan í og að reyna að komast á
bak við símastaur.
Þegar Óskar átti stóru gröfu-
dráttarvélina sína og var að
vinna um alla sveit við alls konar
vinnu þótti mér hann vera ein
mesta hetja sem til var. Besti
vinur hans svo langt sem ég veit,
enda hafa þeir fylgst að alla tíð,
er Sammi sem var frá næsta bæ,
Kollafjarðarnesi, og þegar ég,
pollinn, fékk að vera með þeim
leið mér eins og ég ætti allan
heiminn. Að mínu mati voru
þetta mestu snillingar sem til
voru. Skemmtilegir og gerðu
góðlátlegt grín að öllu og öllum í
kringum þá.
Ógleymanlegar stundir og
gaman var að fylgjast með þeim
að græja sig til að fara á sveita-
ball á Land Rovernum og ekki
spillti það gleðinni að stundum
var Ingi frændi með og oft fóru
þeir yfir Steinadalsheiði eða
Tröllatunguheiði til að skjótast á
ball. Eftir á að hyggja sá ég þá
aldrei koma aftur, en það var
náttúrlega af því að þá var ég
löngu sofnaður.
Mér er sérstaklega minnis-
stætt að þegar afi var að verða
sjötugur í ágúst 1970 fóru amma
og afi í ferð austur á Borgarförð
eystri. Heldur betur hlakkaði ég
til þeirra daga og sá fyrir mér
að við Óskar myndum njóta þess
að vera bara tveir á bænum. Ég
var búinn að sjá fyrir mér alls
konar aðstæður þar sem við
værum bara tveir saman að reka
búið og sjá um allt.
En klukkutíma eftir að gömlu
hjónin leggja af stað austur á
land kemur rútan úr Reykjavík
og stoppar hjá okkur. Óskar
hleypur niður að vegi og kemur
svo labbandi til baka og kona
með honum.
Vá, þetta var áfall fyrir
drenginn sem ætlaði að hafa það
svo notalegt í heila viku. Þessi
vika fór þannig að ég var dálítið
einn með sjálfum mér, feiminn
við þessa konu og fannst hún dá-
lítið fyrir, en hún vann strax
mikið á og ég gerði mér grein
fyrir að þetta væri yndisleg
kona. Hún kom úr Grindavík og
Óskar flutti svo til hennar síðar
þegar búskap var hætt á Hvalsá.
Það er kristaltært að Óskar
og Magga hefðu ekki getað
fundið betri maka og yndislegra
fólk er vandfundið.
Eins og í ömmu og afa á
Hvalsá var bara til gott í Óskari.
Elsku Magga, Guðbjörg, Rósa
og fjölskyldur, megi minningin
um hann ylja ykkur alla tíð um
hjartarætur.
Rafn Haraldsson.
Veistu ef þú vin átt
þann er þú vel trúir
og vilt þú af honum gott geta.
Geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft.
(Úr Hávamálum)
Óskar var bóndi á Ströndum
á yngri árum og hann var alltaf
bóndi þótt hann flytti í Þórkötlu-
staðahverfið sem er hvorki þorp
né sveit – en þó hvort tveggja í
senn. Landið, veðrið, gróðurinn,
sprettan, dýrin, hafið: umhverfið
í Hofi var gjöfult fyrir mann
með þennan lífskúltúr.
Þau fjögur ár sem tók mig að
endurgera Sólbakka var ég dag-
legur gestur í Hofi, kaffibollarn-
ir óteljandi og við vorum fleiri
heimagangarnir sem bara geng-
um inn og fengum okkur sjálfir
kaffið; og svo var það sem mestu
máli skipti: spjallað og spjallað
út í eitt um allt og ekkert – mað-
ur er manns gaman. Að gestir
væru í Hofi var ekki undantekn-
ing, miklu frekar regla.
Ljúfmennska og hjálpsemi
voru eiginleikar sem Óskari
voru í blóð bornir. Alltaf var
hann boðinn og búinn að hjálpa
ef einhvers þurfti við og fylgdist
grannt með öllu. Ekki skorti
heldur ráð og leiðbeiningar og
aldrei bar skugga á þótt lærling-
urinn færi stundum aðrar leiðir.
Það er oft erfitt að finna réttu
orðin en í mínu tilfelli held ég að
velgjörðarmaður sé rétta orðið:
hann var minn velgjörðarmaður.
Elsku Magga og fjölskylda,
innilegustu samúðarkveðjur frá
okkur Margréti Björk.
Guðmundur Guðmundsson.
Það verður skrýtið að hitta
ekki eða sjá Óskar í Hofi, eins
og hann var alltaf kallaður, þeg-
ar maður ekur niður Þórkötlu-
staðaveginn.
Leiðir okkar Óskars lágu
snemma saman eða þegar ég var
smápjakkur í heyskap á sumrin
hjá ömmu og afa í Bjarmalandi.
Þá hjálpuðust bændurnir að við
að koma heyi í hús og ekki skor-
aðist Óskar undan því, alltaf boð-
inn og búinn við að hjálpa til. Síð-
ar unnum við svo saman hjá
áhaldahúsi Grindavíkur, hann
sem verkstjóri og ég sem véla-
maður. Þá sá maður hversu mikill
verkmaður Óskar var, það var
sama hvað hann tók sér fyrir
hendur, öllu skilaði hann af sér
með stakri prýði. Það var svo árið
2002 er ég flutti í Bjarmaland að
maður fór hitta Óskar oftar en
áður. Þá stoppaði maður í inn-
keyrslunni í Hofi og oftar en ekki
ræddum við um búskapinn, lögð-
um á ráðin með hvaða hrúta
skyldi kaupa það haustið eða bara
hvernig veðrið var þann daginn.
Þær voru ófáar ferðirnar sem
við fórum vestur á Strandir að
sækja hrúta, ég fyrir Bjarma-
land og Óskar fyrir Möggu því
hann var jú ráðsmaðurinn en
Magga bóndinn eins og hann
sagði alltaf og hló. Mér er sér-
staklega minnisstæð ferðin sem
við fórum vestur og ég var bú-
inn að láta gera skilti aftan á
bílinn sem á stóð „Félagsbúið
Bjarmalandi ásamt Óskari í
Hofi á ferð um landið“, þetta
vakti mikla lukku hjá Óskari.
Eftir að Óskar hætti með kind-
urnar einbeitti hann sér að því
að dytta að húsunum því hann
var einstakt snyrtimenni og allt-
af var sami myndarskapurinn
hvort sem hann var að setja
blómin hennar Möggu út í beð
eða stinga upp kartöflugarðinn
sem hann gerði alveg fram á
síðasta dag. Ég var ákveðin í því
að nú skyldi ég smíða fyrir hann
sérstakt verkfæri til að létta
honum lífið við að stinga upp
garðinn í vor. Óskar var
óhræddur við að prufa nýjungar
þó að hann kynni best við að
nota þau verkfæri sem hann var
vanur að nota.
Ég held að ég viti ekki um
greiðviknari mann en Óskar því
það var sama á hvaða tíma sólar-
hringsins maður hringdi, alltaf
var hann boðinn og búinn að að-
stoða hvort sem var í sauðburði
um miðja nótt eða í heyskap að
sumri. Það var svo í haust að
Óskar fór að kenna sér meins og
kom þá í ljós að hann var með
langt gengið krabbamein. Tveim-
ur og hálfum mánuði síðar kom
svo kallið, þó frekar snöggt því
ég hafði setið nokkrum kvöldum
áður hjá honum og virtist hann
þá nokkuð hress að sjá. Þá vor-
um við að plana Strandaferð í
haust að sækja hrúta en það
verður að bíða betri tíma.
Ég minnist Óskars sem dugn-
aðarforks til vinnu og var hann
einstaklega ósérhlífinn alveg
fram á síðasta dag.
Takk fyrir alla hjálpina og allt
sem þú kenndir mér og megi
minningin um þig lifa.
Elsku Magga, Rósa, Guðbjörg
og fjölskyldur. Ég vil votta ykk-
ur mína dýpstu samúð á erfiðum
tímum.
Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar
þegar ég á aðeins þig
einn með sorgir mínar.
Gef mér kærleik, gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Ómar Ragnarsson/
Gísli á Uppsölum)
Ómar Davíð Ólafsson,
Bjarmalandi.
Óskar Ágústsson