Morgunblaðið - 06.03.2018, Side 6
6 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 6. MARS 2018
Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Í kjölfar eldgossins á Heimaey var 910 börnum frá Vest-
mannaeyjum boðið til Noregs í tvær vikur sumarið 1973.
Í sumar eru liðin 45 ár frá því að börnin fóru til Noregs
og býður Íslendingafélagið í Noregi öllu þessu fólki að
hittast á ný í Íslendingahúsinu við Norefjell hinn 9. júní í
sumar.
Í lok mars 1973 var tilkynnt að Islandsk samband, Ís-
lendingafélagið og Rauði kross Noregs myndu bjóða
börnum úr Vestmannaeyjum til Noregs. Flugfélag Ís-
lands og Loftleiðir sáu um að flytja börnin milli landanna
og lenti fyrsti hópurinn á Fornebu-flugvelli 12. júní. Í
umfjöllun Morgunblaðsins var sagt að börnin hefðu
hvorki verið há í loftinu né veraldarvön, en þrátt fyrir
það kát, kurteis og full eftirvæntingar.
Ferð barnanna vakti talsverða athygli í Noregi, en á
flugvellinum hafði hópur fólks og lúðrasveit tekið á móti
börnunum. „Þetta var mikil upplifun fyrir þá sem gátu
farið svona úr gosinu og því ástandi og í friðsamlegt and-
rúmsloft í sveitinni, og líka merkilegt þar sem þetta var
fyrsta utanlandsferð margra,“ segir Einar Traustason,
formaður Íslendingafélagsins.
Þessi fyrsti hópur gisti í Íslendingahúsinu. Þeim var
skipt niður í hópa við komuna og báru Íslendingar bú-
settir í Noregi ábyrgð á hópunum. „Við erum meðal ann-
ars að reyna að hafa samband við þetta fólk. Hingað til
er búið að staðfesta þátttöku tveggja,“ segir Einar.
Ljósmynd birt í Morgunblaðinu 13. júní 1973.
Eyjabörn Börn frá Vestmannaeyjum sem fengu boðs-
ferð til Noregs á Fornebu-flugvelli í Ósló 12. júní 1973.
Boðið á ný til Noregs
45 ár síðan 910 börn frá
Eyjum héldu til Noregs
Ferðafélag Íslands
Mörkinni 6 | 108 Reykjavík | S: 568 2533 | www.fi.is
Aðalfundur
Ferðafélags Íslands
verður haldinn fimmtudaginn 15. mars
kl. 20 í sal félagsins Mörkinni 6.
Hefðbundin aðalfundarstörf
Stjórnin.
Anna Lilja Þórisdóttir
annalilja@mbl.is
Bára Gísladóttir var 17 ára þegar
hún sá hann í fyrsta sinn og heillaðist
gjörsamlega upp úr skónum. Þetta
gerðist þegar hún var í skiptinámi
hinum megin á hnettinum og sá sem
heillaði unga skiptinemann var
kontrabassi. Síðan þá hefur hennar
aðalstarf verið að leika á þetta hljóð-
færi og semja fyrir það tónlist.
Bára, sem nú er 28 ára, fékk í gær
dönsku Léonie Sonning-verðlaunin,
ein virtustu menningarverðlaun Dan-
merkur. Verðlaunin eru veitt í nokkr-
um flokkum, verðlaun Báru voru í
flokknum hæfileikar eða „talent“ sem
eru veitt upprennandi tónlistarfólki
og fékk hún þau fyrir tónsmíðar sín-
ar. Hún segir þetta hafa komið sér
talsvert á óvart. „Það er ekki sótt um
verðlaunin, heldur er fylgst með
verkum tónlistarfólks. Ég fékk til-
kynningu um að ég hefði fengið verð-
launin. Núna þarf ég að láta mér
detta í hug eitthvað gáfulegt til að
nota þau í,“ segir Bára, en verðlauna-
upphæðin er 60.000 danskar krónur.
Bára starfar að hinum ýmsu verk-
efnum bæði einsömul og í samstarfi
við annað tónlistarfólk og er m.a. í
hljómsveitunum Elju og Skark. „Ég
hef t.d. verið að vinna mikið að
kammermúsík og er með nokkur
sólóverkefni í gangi. Verkefnin hafa
hrannast upp. „Ég er núna bókuð út
árið 2019,“ segir hún.
Fótboltinn tók yfir um tíma
Bára hóf tónlistarnám fimm ára
gömul, þá bjó hún í Noregi og lærði á
fiðlu. Síðan flutti hún til Íslands og
hélt fiðlunáminu áfram við tónlistar-
skólana í Garðabæ og Hafnarfirði,
samhliða því æfði hún og spilaði fót-
bolta með FH og var farin að spila
með meistaraflokki félagsins aðeins
14 ára gömul. „Fótboltinn var farinn
að taka allan minn tíma og ég tók
mér frí frá tónlistinni,“ segir Bára.
„Þegar ég var 17 ára fór ég sem
skiptinemi til Nýja-Sjálands. Það
stóð kontrabassi í skólastofunni og
það vantaði einhvern til að leika á
hann í hljómsveitinni í skólanum sem
ég var í. Ég hugsaði með mér að ég
hefði svo sem engu að tapa, ég væri
komin hálfa leið yfir hnöttinn til að
prófa eitthvað nýtt. Ég hef ekki séð
eftir því, þetta var algerlega ást við
fyrstu sýn.“
Mikil hvatning að fá verðlaunin
Bára nam tónsmíðar í Listaháskól-
anum og lauk þaðan bakka lárgráðu.
Hún var í meistaranámi í tónsmíðum
í Mílanó og lauk því námi síðan frá
Konunglegu tónlistarakademíuna í
Kaupmannahöfn þar sem hún stund-
ar núna svokallað sólóistanám.
En hvað er það sem heillar við
kontrabassann? „Tíðnin í hljóðfær-
inu, hún er svo falleg. Svo býður
kontrabassi upp á breitt tónsvið.“
Skiptir miklu máli að fá verðlaun
sem þessi? „Já, verulega. Þetta er
gríðarlegur heiður, ég er að springa
úr þakklæti og þetta er mikil hvatn-
ing fyrir mig til að halda áfram því
sem ég er að gera.“
Hún fékk ást á kontra-
bassanum við fyrstu sýn
Bára fékk virtu Sonning-verðlaunin í Danmörku í gær
Ljósmynd/Iona Sjöfn
Tónlistarkona Bára Gísladóttir, kontrabassaleikari og tónskáld, er eini Ís-
lendingurinn sem hefur fengið dönsku Léonie Sonning-tónlistarverðlaunin.
Léonie Sonning-tónlistarverðlaunin hafa verið veitt árlega í Danmörku
frá árinu 1959, þau eru ætluð erlendum tónlistarmönnum og þykja meðal
virtustu verðlauna í Evrópu. Meðal þeirra sem hafa fengið þau í gegnum
tíðina eru Anna Sophie-Mutter, Igor Stravinsky, Benjamin Britten, Miles
Davis og Leonard Bernstein. Verðlaunin eru kennd við Léonie Sonning,
eiginkonu danska auðmannsins og ritstjórans Carl Johan Sonning. Hann
stofnaði Sonning-verðlaunin sem veitt eru þeim sem skara fram úr á
sviði evrópskrar menningar. Meðal þeirra sem þau hafa hlotið er Halldór
Laxness sem fékk verðlaunin árið 1969.
Hæfileikaverðlaunin, sem Bára fékk, eru undirflokkur verðlaunanna og
eru til þess ætluð að hvetja ungt tónlistarfólk í námi og starfi. Þau hafa
verið veitt frá árinu 2012 og alls fengu tíu ungir tónlistarmenn þau í ár.
Í fótspor frægðarmenna
LÉONIE SONNING-TÓNLISTARVERÐLAUNIN
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Ég kynntist þessum heimi vel þeg-
ar ég var með Búlluna úti í London.
Ég hef verið með það í maganum
síðan að gera eitthvað svona hér og
nú er komið að því,“ segir Róbert
Aron Magnússon athafnamaður sem
er að skipuleggja
götumatarmark-
að sem settur
verður upp í
Skeifunni í
Reykjavík í sum-
ar. Reist verður
lítið gámaþorp á
bílastæðinu við
hlið Rúmfata-
lagersins og þar
verður að finna
fjölbreytt úrval af
götumat, „pop up“-búðir og bar auk
þess sem leikir á HM í Rússlandi
verða sýndir á stórum skjá. Þá
munu þekktir tónlistarmenn og
plötusnúðar troða upp.
Yfirskrift þessa verkefnis er BOX
og verður það starfrækt í tvo mán-
uði í sumar, frá 1. júní til 29. júlí.
„Þetta verður gámaþorp. Einhverjir
munu selja mat úr gámum og aðrir
úr matarvögnum. Þessi street-food-
menning hefur verið að berast hing-
að til lands og við viljum taka þetta
alla leið,“ segir Róbert.
Opið verður fimmtudag til sunnu-
dags, bæði í hádeginu og svo seinni-
partinn og fram til 21:30 á kvöldin. Á
sunnudögum verður svo lagt upp
með að hafa fjölskyldustemningu.
Róbert segir að miklar kröfur
verði gerðar til matarins sem í boði
verður. „Já, menn verða að bjóða
upp á eitthvað alveg einstakt. Þarna
geta menn prófað nýjungar. Þetta
eru ekki mörg pláss sem við höfum
þannig að þetta verður að vera
spennandi,“ segir hann en á næstu
dögum verður auglýst eftir áhuga-
sömu veitingafólki til að vera með.
Götumatarmarkaðir sem þessi
hafa notið mikilla vinsælda erlendis
síðustu ár og búast má við að BOX
verði vel tekið hér, bæði af Íslend-
ingum og erlendum ferðamönnum.
Síðustu ár hefur framboð á götumat
aukist hratt á Íslandi og þær tilraun-
ir sem gerðar hafa verið með mark-
aði sem þennan, til að mynda Krás í
Fógetagarðinum, hafa gefið góð fyr-
irheit. Þegar við bætist stemningin í
kringum HM í knattspyrnu er vart
tilefni til annars en bjartsýni. Segir
Róbert að ókeypis verði inn á svæðið
og stefnt að því að maturinn verði á
hóflegu verði. Það skemmtilegasta
við markaði sem þennan er enda að
geta smakkað nokkra rétti.
Róbert segir að meðal fyrirmynda
sem horft er til sé Street Feast í
London. Hugmyndafræðin minnir
líka á frábæra staði á borð við Pop í
London og Papirøen í Kaupmanna-
höfn.
Gámarnir ramma þetta matar-
þorp inn en inni í því verða borð til
að fólk geti notið veitinganna. Hægt
verður að draga tjald yfir hluta
svæðisins og hitarar verða á staðn-
um, ef íslenska sumarverðrið veldur
vonbrigðum.
Verkefni þetta er unnið í sam-
starfi og samvinnu við Reykjavík-
urborg. Ef vel tekst til sér Róbert
fyrir sér að BOX sé komið til að
vera. „Já, ef vel gengur þá höfum við
fengið vilyrði fyrir því. Þá skoðum
við að færa þetta í varanlegt hús-
næði.“
Götumatur Gámaþorp rís í Skeifunni í sumar þar sem seldur verður götu-
matur. Stemningin verður vonandi í líkingu við Papirøen í Kaupmannahöfn.
Götumatur
seldur í gámum
Spennandi nýjung í Skeifunni í sumar
Róbert Aron
Magnússon