Morgunblaðið - 06.06.2018, Blaðsíða 1
M I Ð V I K U D A G U R 6. J Ú N Í 2 0 1 8
Stofnað 1913 131. tölublað 106. árgangur
GRÓSKUMIKIÐ
OG FJÖLBREYTT
SAFNASTARF
MÁLMURINN
GÓÐUR FYRIR
HJARTAÐ
FRUMKVÖÐULL
Í RAFVÆÐINGU
ÍSLANDS
GAMLI ANDINN Á EISTNAFLUGI 33 STYTTA AF JÓHANNESI REYKDAL 12LISTASAFN ÁRNESINGA 14
Drykkjarumbúðum, hvort sem þær
eru úr plasti, áli eða gleri, hefur
fjölgað hratt síðustu ár, en í fyrra
var 158.120.461 eining í íslenska
skilakerfinu. Alls voru þá greiddir
rúmlega tveir milljarðar í skilagjald
á umbúðum drykja. Helgi Lárus-
son, framkvæmdastjóri Endur-
vinnslunnar, segir að tæpast fari á
milli mála að aukin velmegun og
straumur ferðamanna eigi þátt í
þessum breytingum. Þessir þættir
eigi eflaust einnig þátt í því að skil á
umbúðum hafi minnkað hlutfalls-
lega.
Hann segir athyglisvert hversu
mjög einingum hefur fjölgað síðustu
ár. Ein skýring á því geti verið að
neysluvenjur séu að breytast og við-
skiptavinir færi sig úr tveggja lítra
umbúðum í minni einingar. Í þessu
tilviki gæti koma Costco inn á ís-
lenska markaðinn hafa haft áhrif,
en Íslendingar drekki ekki endilega
meira en áður.
Vel hefur gengið að senda plast-
umbúðir til endurvinnslu erlendis.
Sömu sögu er hins vegar ekki að
segja um lítt flokkað plast, sem áð-
ur endaði gjarnan í Kína. » 4 og 18
Tveir milljarðar í skilagjald
fyrir flöskur og dósir í fyrra
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Í milljónavís Plastflöskur flokkaðar
í móttökustöðinni í Knarrarvogi.
Guðrún Ásmundsdóttir, leikkona, leikstjóri og leikskáld, hlaut heiðurs-
verðlaun Grímunnar þegar verðlaunin voru afhent í gærkvöldi. Guðni Th.
Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti henni verðlaunin.
Sýningin Himnaríki og helvíti, sem byggð er á þríleik Jóns Kalmans
Stefánssonar, hlaut sjö verðlaun. Nína Dögg Filippusdóttir var valin leik-
kona ársins í aðalhlutverki og Eggert Þorleifsson leikari ársins. »30-31
Morgunblaðið/Eggert
Guðrún hlaut heiðursverðlaun Grímunnar
Grímuverðlaunin afhent í Borgarleikhúsinu
„Við erum að sjá tölur sem við
höfum aldrei séð áður,“ segir Eyj-
ólfur Guðmundsson, rektor Háskól-
ans á Akureyri. Umsóknum hefur
fjölgað um allt að 50% milli ára.
Rektor segir að mikil eftirspurn sé
eftir sveigjanlegu námsframboði en
meirihluti umsókna er frá fólki ut-
an höfuðborgarsvæðisins. Fyrir-
komulag háskólans henti vel þeim
sem ekki vilja flytjast búferlum
vegna náms.
Þá vakti athygli að fjöldi um-
sókna í kennaradeild tvöfaldaðist.
Aukin fjölbreytni í kennaranáminu
skilar sér í jákvæðara viðhorfi til
námsins en áður að mati rektors.
ninag@mbl.is »10
Metaðsókn í Háskól-
ann á Akureyri
Vinsæll Aldrei hafa fleiri umsóknir borist.
Embætti héraðssaksóknara hefur
til skoðunar kaup hjónanna Svan-
hildar Nönnu Vigfúsdóttur og Guð-
mundar Arnar Þórðarsonar á olíu-
félaginu Skeljungi árið 2008 og
kaup þeirra á færeyska félaginu
P/F Magni með fleiri fjárfestum.
Samkvæmt upplýsingum
Morgunblaðsins fóru umfangs-
miklar aðgerðir fram vegna máls-
ins á fimmtudaginn í síðustu viku.
Aðgerðirnar stóðu frá morgni og
fram á kvöld. Grunaðir voru hand-
teknir og aðrir teknir í skýrslutöku.
Nokkrir hafa stöðu sakbornings í
málinu. Ólafur Þór Hauksson hér-
aðssaksóknari staðfestir að hafa
ráðist í aðgerðir vegna málsins.
Svanhildur og Guðmundur sendu
frá sér yfirlýsingu vegna þessa í
gær. »4
Nokkrir hafa stöðu
sakbornings
Skipahönnunarfyrirtækið Rafnar hef-
ur ákveðið að loka starfsstöð sinni í
Kópavogi og hefur starfsfólki fyrir-
tækisins verið sagt upp í kjölfarið.
Stjórn fyrirtækisins hefur ákveðið að
breyta starfseminni þannig að í stað
skipasmíði mun það gera sérleyfis-
samninga við erlend fyrirtæki og
semja um smíði utan eigin starfsstöðv-
ar.
Björn Jónsson, framkvæmdastjóri
fyrirtækisins, segir þessa stefnubreyt-
ingu í raun næsta skref í þróunarferli
fyrirtækisins. Ýmsar ytri aðstæður
hafi ráðið því að haga hafi þurft rekstr-
inum með öðru móti en hingað til.
„Efnahagsumhverfið, einkum sterk
króna, hefur reynst okkur óhagstætt
og langar vegalengdir á helstu mark-
aði og takmarkaður áhugi innlendra
fjárfesta á fyrirtækinu hafa gert okk-
ur erfitt fyrir,“ segir Björn.
Hann segir að þrátt fyrir þetta
horfi fyrirtækið til framtíðar og
þessa dagana séu fulltrúar Al Seer
Marine Technologies, sem starfi í
Sameinuðu arabísku furstadæmun-
um, hér á landi. Það fyrirtæki hefur
nú þegar tryggt sér leyfissamning
við Rafnar. »9
Mikil uppstokkun
á starfsemi Rafnar
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Það hafa allir verið mjög lausnamiðaðir en sam-
komulag er ekki enn í höfn. Miðað við það hvernig
samtölin hafa verið tel ég þó góðar líkur á því að
okkur takist að ljúka þinginu með sómasamlegum
hætti,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
við Morgunblaðið seint í gærkvöldi. Stíf fundahöld
voru á Alþingi í gærkvöldi um afgreiðslu mála fyrir
þinglok. Stærsta ágreiningsefnið er sem fyrr veiði-
gjaldafrumvarpið. Formenn þingflokka funduðu
ítrekað og formenn flokkanna funduðu svo í gær-
kvöldi um framhaldið. Fundum verður haldið
áfram í dag, þingflokksformenn um morguninn og
formenn flokkanna í hádeginu að sögn Katrínar.
Býstu við niðurstöðu í dag?
„Já, ætli það skýrist ekki hvort við náum að bind-
ast einhverju samkomulagi um það hvernig við
ljúkum þinginu að þessu sinni.“
„Þetta hefur þokast en staðan er viðkvæm,“
sagði Oddný G. Harðardóttir, formaður þingflokks
Samfylkingarinnar, seint í gærkvöldi. „Meðan það
er verið að tala saman aukast þó líkurnar á að við
náum lendingu.“
Forsætisráðherra lagði fram tillögu um máls-
meðferð í veiðigjaldamálinu í hádeginu í gær. Ekki
verður tekin afstaða til tillögunnar fyrr en sátt
næst um þinghaldið. Tugir mála bíða þar afgreiðslu
en þinglok voru áætluð á morgun. Náist sátt um
„pakkann“, hvaða mál fara í gegn fyrir þinglok, má
búast við að þingstörfum ljúki ekki fyrr en um eða
eftir helgi.
„Viðkvæm staða“ á þingi
Forsætisráðherra býst við niðurstöðu um afgreiðslu mála á þingi í dag Fundað fram á
kvöld í gær Formenn flokka á þingi hittast í hádeginu Veiðigjöld stærsta ágreiningsefnið