Morgunblaðið - 17.08.2018, Qupperneq 23

Morgunblaðið - 17.08.2018, Qupperneq 23
MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 17. ÁGÚST 2018 Frelsisstyttan meðan beðið var eftir þyrlu. Afi var greinilega kvalinn en dæmigert fyrir hann að hann kvartaði ekki og var ró- legur og yfirvegaður. Strax næsta dag var afi kominn á skíði í fatla. Þannig nagli var afi og þannig mun ég alltaf muna eftir honum. Helgi Már Valdimarsson. Við munum best eftir afa eins og hann var þegar við vorum börn. Hann var alltaf svo sterkur, enda hafði hann verið mikill íþróttamaður í æsku, og hann skemmti okkur barnabörnunum tímunum saman með því að hvetja okkur til að hlaupa til hans og kýla hann í magann eins fast og við gátum. Fyrir þessa hetjudáð fékk hann viðurnefnið „stóri sterki afi“. Okkur fannst hann svo sannar- lega verðskulda þetta viðurnefni er við horfðum með hrifningu og hryllingi á hann snæða morgun- verð: hann blandaði AB-mjólk, appelsínusafa og lýsi saman í glas og hvolfdi því hiklaust í sig. Þegar við vorum smábörn vorum við alltaf svo spennt þegar hann tók okkur í svokallað „lofttak“, þá setti hann báða litlu fætur okkar í einn stóran lófa og hélt í hendur okkar með hinum, og lyfti okkur síðan hátt upp yfir höfuð sér. Eftir að við fullorðnuðumst höfum við gert okkur betur grein fyrir því hversu áhrifaríkur hann var sem einn af máttarstólpum vísindasamfélagsins, en þegar við vorum að vaxa úr grasi var hann í okkar augum fyrst og fremst afi okkar. Hann var þolinmóður og greiðvikinn – hann sat hjá Lilju Guðrúnu á meðan hún buslaði og svamlaði í heita pottinum í bú- staðnum og hlustaði alvörugefinn á meðan hún skáldaði kyndugar sögur um hliðartilvist sína sem hafmey. Hann tók þátt með því að spyrja margra athugulla spurn- inga um þessa lífsreynslu. Valdís Sylvia minnist þess þegar afi hennar kenndi henni að tefla – en þetta var svið þar sem afi virtist hafa ofurafl. Návist afa var oft gefin til kynna með pípi og tísti úr skáktölvunni hans, og honum fannst gaman að fræða forvitna unga huga um hinar dularfullu leikreglur taflsins. Hann var ávallt fús að kenna okkur systr- um, og þótt við ættum það til að gleyma þessum lexíum jafnóðum var hann alltaf jafn reiðubúinn að rifja þær upp og hefja endur- menntun eftir óskum. Afi átti tólf barnabörn en okkur fannst aldrei eins og við þyrftum að berjast um athygli hans. Hann hafði stórt hjarta og hafði alltaf nóg af ást og umhyggju handa okkur öllum. Hann var blíður í orðum og fannst gaman að rifja upp með okkur ýmislegt skemmtilegt og kjánalegt sem við höfðum sagt sem smábörn. Afi var vitur, umönnunarsamur, skilningsríkur og sterkur, og við söknum hans mikið. Takk fyrir allt, elsku afi okkar. Lilja Guðrún Filippía og Valdís Sylvia Beatrice Moore. Sem barn var ég heillaður af vísindum. Þegar ég var spurður hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór svaraði ég að ég vildi verða líffræðingur. Það voru samt ekki margir sem ég gat rætt við um líf- fræði. Vinum mínum fannst þetta ekki beint svalt umræðuefni, og foreldar og systkini vissu ekki mikið um þetta. En Helgi afi, pró- fessor í ónæmisfræði, var einn af fáum sem ég gat deilt þessari ástríðu minni með. Mér þótti af- skaplega vænt um að tala við hann um vísindi – hann vissi svo mikið, og kenndi mér alltaf eitthvað sem ég vissi ekki áður. Umræður okk- ar héldu áhuga mínum vakandi. Fyrst ég átti afa sem var pró- fessor fannst mér draumur minn um að gerast vísindamaður ekki svo kjánalegur eða óraunsær – ef afi minn gat gert þetta gæti ég það kannski líka. Svo fór ég í há- skóla að læra náttúruvísindi. Ég ræddi við hann í síma um það sem ég var að læra, til dæmis frumu- líffræði og meinafræði, og djúp þekking hans á ónæmiskerfinu var svo heillandi og nytsamleg. Og nú vinn ég hjá Íslenskri erfða- greiningu sem rannsóknarmaður. Á þessu ári hef ég búið í Selási með ömmu Gunnu og Helga afa. Þegar ég kom heim úr vinnunni talaði ég við hann um rannsókn- arefnið mitt, og hann sýndi því ávallt mikinn áhuga. Hann sagði mér frá mögulegum skýringum á niðurstöðum mínum, og tilgátum sem ég gæti prófað. Uppástungur hans voru ávallt nákvæmar, traustar og hjálplegar. Faðir minn ræddi við afa í síma þegar hann var orðinn mjög lasburða, aðeins nokkrum vikum áður en hann féll frá; afi vissi alveg ná- kvæmlega hvaða verkefni ég var að vinna við og gat upplýst og frætt pabba um öll atriði skekkju- laust. Fyrir sex mánuðum var ég að hjálpa afa að hátta. Hann talaði við mig um líf og dauða, og sagði mér að hann gleddist yfir því að ég bæri genin hans. Ég sagði hon- um að ég væri stoltur af því. Nokkrum mánuðum síðar vorum við amma, afi og frændur mínir Kjartan og Agnar Guðmundur að borða saman kvöldverð í Lækjar- ásnum. Amma sagði að þegar við dæjum lifðum við áfram í minn- ingum þeirra sem þekktu okkur. En ég held að sannleikurinn sé enn einfaldari. Eins og afi sagði lifir raunverulegur, áþreifanlegur hluti af honum áfram í mér, í mínu erfðaefni. Genin hans, og lífsgildi, sem ég hef fengið í gegnum móður mína, leiða til þess að hugsun mín og hegðun, útlit mitt og nafn bera öll merki um þennan fjórðungs- arfi sem hann gaf mér. Frá þessu sjónarmiði var afi mjög gæfuríkur. Hann átti fimm börn, tólf barnabörn og þrjú barnabarnabörn. Hvert okkar ber spegilmynd af honum innra með sér, og þessar spegilmyndir geta skinið saman til þess að endur- varpa ímynd af þessum sterka, greinda, samúðarfulla manni sem ég kallaði afa minn. Við munum gera okkar besta til að koma þess- um arfi á framfæri og heimurinn mun verða betri fyrir vikið. Takk fyrir allt, afi minn. Kristján Helgi Swerford Moore. Fyrir hönd fjölskyldu minnar langar mig í nokkrum orðum að minnast mágs míns, Helga Þrast- ar Valdimarssonar, sem lést 6. ágúst síðastliðinn en hann var kvæntur systur minni Guðrúnu. Helgi var frekar hæglátur maður en hafði ákaflega hlýja nærveru. Þótt ekki væri hávaðan- um fyrir að fara hafði hann sterk- ar skoðanir bæði á mönnun og málefnum og lá ekki á skoðunum sínum ef eftir var spurt. Helgi átti ættir að rekja í Svarfaðardalinn og lauk stúdents- prófi frá Menntaskólann á Akur- eyri og síðar læknanámi frá Há- skóla Íslands. Að námi loknu og starfi í héraði lá leiðin til London þar sem þau hjónin voru bæði við framhaldsnám og störf, Helgi í ónæmisfræði, Guðrún í veiru- fræði. Á Londonarárunum komum við ásamt öðrum úr stórfjölskyld- unni oft í heimsókn til Helga og Gunnu, einkum um páska, og gat þá oft verið þröng á þingi. Aldrei var þó að sjá á Helga annað en hann væri hinn ánægðasti með þessar innrásir, alltaf jafn hægur og rólegur og stundaði sína vinnu af kappi. Ég held að Helgi hafi verið mjög heppinn með að hjá honum fór saman vinna og áhugamál. Frá fyrstu tíð þegar ég, ungur menntaskólastrákur, var stund- um að koma seint heim um helgar, var ljós í herbergjum Gunnu og Helga. Þar sat Helgi þá gjarnan við skriftir og lestur, í þykkum ull- arsloppi og flókainniskóm. Sama má segja þegar við hittumst í London; hann var alltaf vinnandi á daginn en gjarnan lesandi eða skrifandi í annan tíma, alltaf eitt- hvað sem tengdist vinnunni. Efir að fjölskyldan fluttist aft- ur heim stunduðu Helgi og Gunna mikið útivist, gjarnan fjallgöngur. Kom þá í ljós hvílíkur garpur Helgi var að eðlisfari. Alltaf lagði hann sig fram af fullri orku líkt og við vinnuna. Það var aldrei hætt fyrr en hæsta tindi hafði verið náð. Hann hafði stundað skíði í æsku og var góður skíðamaður. Einnig hafði hann gaman af tón- list og söng og hafði góða söng- rödd en hann söng í kórum um tíma. Það var Helga gleðiefni þegar þau hjónin eignuðust jörðina Gröf í Svarfaðardal í æskusveit hans og þar undu þau sér í fríum við úti- vist, endurbætur á húsakosti og gróðursetningu. Síðustu árin voru Helga á viss- an hátt erfið þar sem hann þurfti vegna veikinda sinna að sækja meðhöndlun á sjúkrahúsi reglu- lega og hefti það mikið allt ferða- frelsi hans. Við minnumst með þakklæti Helga sem var traustur og góður vinur og sterkur meiður í fjöl- skyldunni. Guð blessi Gunnu og börnin, tengdabörnin, barnabörnin og barnabarnabörnin. Hans Agnarsson. Ég er svo lánsöm að hafa unnið náið með Helga Valdimarssyni. Ég hitti hann fyrst 1975 þegar hann bauð mér í doktorsnám á St. Marýs í London þar sem hann stýrði klínískri ónæmisfræðideild. Helgi og Guðrún tóku ótrúlega vel á móti mér og ég bjó hjá þeim meðan ég leitaði að húsnæði. Helgi kenndi mér að einangra ónæmisfrumur, skoða í smásjá og prófa virkni þeirra, hann bauð mér með sér á fyrirlestra og fundi og kynnti mig fyrir virtum vís- indamönnum. Ég var bara nokkra mánuði í London, eða þar til „pabbi þinn stal mömmu þinni frá mér og fór með hana til Svíþjóð- ar“ eins og Helgi sagði við son minn þá 6 ára. Eftir að ónæmis- fræðideild Landspítalans var stofnuð bauð Helgi mér vinnu. Helgi var faðir ónæmisfræð- innar á Íslandi, deildin efldist hratt undir forystu hans, klínísk þjónusta, rannsóknir og kennsla. Helgi laðaði að sér stúdenta og unga vísindamenn, hann var vinnusamur, hafði óbilandi áhuga á faginu og vísindum almennt, hann gaf okkur öllum tækifæri og hvatti okkur til dáða. Hann stóð líka fyrir gróðursetningu í Heið- mörk, haustferðum, söng og gleði. Hann var okkur frábær fyrir- mynd. Helgi var einn af okkar fremstu vísindamönnum. Hann birti tíma- mótagreinar í Lancet um afbrigði- leika frumubundins ónæmis í langvinnum candidasýkingum og fyrstu árangursríku meðferð með frumuboðefninu „transfer factor“ sem varð forsíðufrétt í Sunday Times 1972. Helgi og Guðrún birtu saman í Nature 1975 upp- götvun sína á að T-frumur hafa viðtaka fyrir mislingaveiru og drepa sýktar frumur, sem nú er vitað að skýrir ónæmisbælandi áhrif veirunnar. Á Íslandi vann Helgi einkum að rannsóknum á iktsýki, komplímentkerfinu í sjálfsofnæmi og sýkingum, og hlutverki ónæmiskerfisins í psori- asis. Hann setti fram þá kenningu 1986 að T-frumur gegni lykilhlut- verki í að hrinda af stað afbrigði- legri fjölgun keratínfrumna í húð psoriasissjúklinga, sem er óum- deilt í dag. Helgi birti nær 200 vís- indagreinar, með yfir 6000 tilvitn- anir, þar af yfir 70 um psoriasis. Þegar Helgi lét af störfum hafði hann hæstan h-stuðul af starfs- mönnum HÍ, en h-stuðull er mæli- kvarði á magn og áhrifamátt vís- indagreina. Helgi var upphafsmaður rann- sóknanáms við læknadeild og bar- áttumaður fyrir vísindi og fyrir okkar fag. Hann var í stjórn Nor- rænu ónæmisfræðisamtakanna, forseti 1992-98, og átti stóran þátt í að þau héldu alþjóðlegt þing í Stokkhólmi 2001. Hann var rit- stjóri Norræna tímaritsins í ónæmisfræði í 21 ár og stóð fyrir stofnun Norrænnar sjálfseignar- stofnunar, sem hefur styrkt unga vísindamenn í 15 ár. Hann hélt Norræna ónæmisfræðiþingið á Íslandi fyrst 1985 og stofnaði þá sumarskóla, sem hefur verið hald- inn árlega síðan. Hann var valinn heiðursfélagi Norrænu ónæmis- fræðisamtakanna 2008. Helgi var mín stoð og stytta þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í rannsóknum. Ég minnist hans með þakklæti fyrir langt og farsælt samstarf og einlæga vin- áttu. Við Birgir Björn sendum Guðrúnu, Ásgeiri, Valdimar, Birnu, Agnari, Kristjáni Orra og fjölskyldum þeirra innilegar sam- úðarkveðjur. Blessuð sé minning Helga Valdimarssonar. Ingileif Jónsdóttir. Helgi var fjallamaður. Hann naut áreynslunnar við að klífa fjöll, finna leiðir, gleðjast yfir undrum náttúrunnar og komast á toppinn. Og syngja svo að kvöldi í hópi glaðsinna göngufólks. Í þannig aðstæðum kynntist ég Helga. Hann hafði reyndar alltaf verið til í vitund minni, því við vor- um systrasynir og hann var sautján árum eldri. Móðir mín og móðursystir hossuðu honum ung- um og alla tíð síðan. Ég vissi því af honum en við kynntumst ekki fyrr en fyrir tuttugu árum. Þá réð Ferðafélag Íslands Helga til að stýra gönguferðum um svarf- dælsk fjöll. Ég var sá lukkuhrólf- ur að vera í hópi Helga og naut þess í mörg ár síðan. Hann var af- burða leiðsögumaður. Ég hef ekki notið annars betri. Þar sem við frændur deildum herbergi í fyrstu ferðinni varð ég vitni að hve margra vídda Helgi var. Hann m.a. gerði námstilraunir með sjálfan sig. Hann sofnaði með lest- ur Íslendingasagna í eyrum og nýtti því svefntímann til að læra. En hann var slakur gagnvart því að draumar hans hafi yfirtekið námið og ekki alltaf ljóst hvað væri úr Gerplu og hvað frá honum sjálfum. Þessi eftirminnilega gönguvika tengdi þátttakendur og ég naut þeirrar blessunar að kynnast konu minni undir vökul- um augum fararstjórans. Helgi var afar eftirminnilegur maður. Honum var mikið gefið og var maður margra vídda. Atorku- maður við vinnu, hvort sem það var í sveitavinnu bernskunnar eða í fræðum fullorðinsáranna. Hann hafði þörf fyrir einveru og sökkti sér í það, sem hann sinnti hverju sinni, hvort sem það var á rann- sóknarstofunni eða við skáktölv- una sína. Hann sótti í söng og gleði og var allra manna skemmtilegastur þegar sá gállinn var á honum. Hann var alvörumaður en líka syngjandi gleðikólfur, íþrótta- garpur en fíngerður tilfinninga- maður, háskólamaður en líka bóndi, stórborgamaður en sótti í fásinnið, þekkingarsækinn og framfarasinnaður, en mat einnig mikils klassík og festu menning- arinnar. Ég þekkti foreldra Helga og fannst hann flétta gæði beggja í eigin lífi. En ólíkur var hann þeim þó og fór sínar eigin leiðir. Nú er Helgi farinn upp á Rima eilífðar og við hinir pílagrímar lífsins þökkum samfylgdina. Þökk sé Guðrúnu Agnarsdóttur, konu Helga, fyrir alúð hennar við ætt- fólk hans. Hún gekk hiklaus með manni sínum í heimum manna og fjalla og annaðist hann aðdáunar- lega vel síðustu veikindaárin. Við leiðarlok vil ég tjá þakklæti mitt fyrir ræktarsemi Helga í garð móður minnar, móðursystur og fjölskyldu. Guð gangi með honum eilífðargötur og geymi ástvini hans. Sigurður Árni Þórðarson. Við minnumst með söknuði okkar góða vinar. Sterk vináttu- bönd við Helga hafa haldist þó að Atlantshafið hafi skilið okkur að í nær fimm áratugi. Hugurinn hvarflar aftur til áranna í London, þegar við bjuggum öll í Ealing. Þá var oft glatt á hjalla og mikið skrafað. Árin í London urðu að- eins þrjú hjá okkur, þar sem leiðin lá til Bandaríkjanna. Sambandið við okkar góðu vini hefur samt haldist með árlegum ferðum til Ís- lands. Svo var það árið 2000 að Guð- rún og Helgi hvöttu okkur til að byggja sumarbústað í Úthlíð á næstu lóð við þeirra bústað. Það gerðum við. Mörg sumur í bú- staðnum hafa veitt okkur og fjöl- skyldu okkar mikla ánægju, ekki síst vegna góðra samverustunda með Guðrúnu og Helga. Árið 2005 var Helga boðin eins árs staða sem Fogarty Scholar við National Institutes of Health í Bethesda, Maryland, þar sem við störfuðum lengi. Við vorum mjög stolt af þeim heiðri og vísindavið- urkenningu, sem Helga var sýnd með þessu boði. Aftur áttum við margar verðmætar samveru- stundir á þessum tíma. Við kveðjum okkar ágæta vin með trega og vottum Guðrúnu og fjölskyldu innilega samúð. Unnur og Snorri. Einn af öðrum falla samferða- mennirnir frá, nú síðast Helgi Valdimarsson fyrrverandi yfir- maður minn og mentor til margra ára. Andlát Helga kom þeim sem til þekktu ekki á óvart. Hann hafði glímt við erfiðan sjúkdóm um nokkurra ára skeið. Andlát hans markar hins vegar skil hvers birt- ingarmynd er það skarð sem höggvið er í vísindasamfélagið á Íslandi. En þar átti Helgi glæstan feril. Kynni mín af Helga hófust fyr- ir hartnær 40 árum eða árið 1979, þegar ég réð mig til starfa hjá honum. Á þeim tíma var Helgi starfandi á St. Mary’s-sjúkrahús- inu í Paddington í London og SJÁ SÍÐU 24 Mig langar að minnast Ágústs Jó- hannssonar, míns kæra fyrrverandi tengdaföður, sem borinn var til grafar 30. júlí 2018 frá Dóm- kirkjunni í Reykjavík. Aðstæður hafa hagað því svo að mér var ómögulegt að vera viðstaddur út- förina. Ágúst var um margt óvana- legur maður og eiginlega lifandi tákngervingur hins gamla ís- lenska bændasamfélags og þá á ég sérstaklega við alla bestu eig- inleika þess sem eru eða voru heiðarleiki, bjartsýni, dugnaður, sjálfræði, stolt, von og næstum takmarkalaus virðing fyrir um- bótum og framþróun hvað varð- ar tækni og menntun og var bók- menntaarfur þjóðarinnar ekki undanskilinn sem hluti af þjóð- arstolti. Þessir eiginleikar með kostum og göllum voru þrátt fyr- ir allt það sem að mörgu leyti hélt lífinu í íslenskri þjóð gegn- um þrengingar, óstjórn og vos- búð um margra alda skeið. Það sem einkenndi auðvitað aðallega Ágúst var hans einlæga ást til gömlu sveitarinnar í Fljótshlíð sem hann hafði orðið að yfirgefa á besta aldri og held að hann hafi alltaf fundið til söknuðar enda ófáar ferðirnar Ágúst Jóhannsson ✝ Ágúst Jóhanns-son fæddist 31. ágúst 1927. Hann lést 22. júlí 2018. Útför hans var gerð frá Dómkirkj- unni í 30. júlí 2018. sem farnar voru á heimaslóðir til að halda við tengslum við þá sem tóku við af honum og hans fjölskyldu. Það finn- ast því miður ekki endilega svo mörg eintök af staðföst- um mönnum eins og Gústa lengur og sem dæmi var það svo að þótt við vær- um oftar enn ekki á öndverðum meiði oftar en ekki hvað varðar stjórn- eða dægurmál þá man ég ekki til þess að styggðaryrði hafi nokkru sinni fallið milli okkar og voru þó mörg málin rædd en æv- inlega í einlægni og með tilhlýði- legri virðingu á báða bóga. Mest um vert fyrir mig var þó að kynnast því hversu hjartahreinn, hjálpsamur og umfram allt um- burðarlyndur Ágúst gat í raun verið þegar á reyndi og kom þá oftlega í ljós fyrir fjölskyldu og vandamenn hin sterka ábyrgð- arkennd og hversu miklir kær- leikar hans til síns fólks gátu verið. Það er gaman að segja frá því að í einni heimsókn til okkar hjóna í Danmörku fyrir um 30 árum dró Ágúst bækur úr bóka- hillu okkar eftir svokallaðan erkióvin bændamenningar á Ís- landi, Halldór Laxness. Því þótt víðlesinn væri hafði Ágúst ekki lesið mikið eftir þann pörupilt. Það var því mikil skemmtun og upplifun síðan næstu daga að hlusta á hrífandi frásögn Gústa af orðkynngi Nóbelskáldsins og skynja nývaknaðan áhuga og einlæga aðdáun hans á verkun- um og minnti um flest á þegar unglingur uppgötvar nýjan lista- mann. Ég sendi Sigrúnu, börnum, barnabörnum, vinum og vanda- mönnum mínar einlægustu sam- úðarkveðjur og þakka fyrir að hafa kynnst dreng góðum. Hrafn Þorgeirsson. Virðing, reynsla & þjónusta Allan sólarhringinn 571 8222 Svafar: 82o 3939 Hermann: 82o 3938 Ingibjörg: 82o 3937 www.kvedja.is svafar & hermann

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.