Gerðir kirkjuþings - 01.01.2016, Page 7
7
sætta fólk sem ekki hefur alltaf verið þakklátt starf. Innan kirkjunnar hef ég orðið vitni
að baktali og undirmálum sem eiga auðvitað ekki heima í kristinni kirkju. Ég velti því
þess vegna fyrir mér hvort okkar eigin viðhorf séu kannski að hamla því að kirkjan og
safnaðarstarfið, sem okkur þykir öllum vænt um, er ekki enn öflugra.
Ég hef því verið að hugsa um það hvort við getum ekki eins og Miles; varpað af okkur
okinu, ákveðið að breyta, vaxa og bæta og gengið glöð í takt til móts við spennandi framtíð.
Sagði ekki einhverntíma einhver; „vilji er allt sem þarf “?
Kæru vinir. Kirkjuþing eftir kirkjuþing ræðum við málin, hvetjum, fögnum, þökkum
og hörmum hitt og þetta. Sitjum hér og skiljum ekki alveg af hverju við náum ekki betri
árangri, af hverju kirkjan nær ekki betur til fólks, af hverju ríkisvaldið er erfitt við okkur
og af hverju þessum finnst hitt og öðrum þetta.
Því má spyrja að ef uppskeran ætti að vera meiri, hverju þurfum við þá að breyta til
þess að fá betri uppskeru? Kannski fyrst og fremst okkur sjálfum, viðhorfum okkar og
hugmyndum.
Getum við breyst? Viljum við breyta okkar vinnubrögðum? Ef svo er getur það gerst
á augabragði. Ef við trúum Biblíunni þá er svarið já. Þar er líka öll sú leiðsögn sem við
þurfum á að halda. Með bæn og í einingu andans er svo margt mögulegt.
Í Galatabréfinu er sagt að ávöxtur andans sé kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska,
góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Væru þessi orð ekki góð einkunnarorð í okkar
samstarfi? Verður ekki auðveldara að takast á við verkefnin í þjóðkirkjunni ef við höfum
þessi orð sem leiðarstef?
Samtalið við þjóðina er mikilvægt verkefni í okkar kirkju. Á mánudaginn kl. 13.00 verður
kynningarfundur um það með hvaða hætti lagt er til að unnið verði að almannatengslum
af hálfu þjóðkirkjunnar. Á þriðjudaginn verður upplýsingafundur þar sem farið verður
yfir stöðuna í viðræðum við ríkisvaldið um fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju.
Á þessu þingi eru lögð fram 24 mál. Þau eru auðvitað misjöfn. Sum stór og flókin,
önnur einföld. Í öllum málum þurfum við að vanda okkur og gæta að því að öll sjónarmið
fái að koma fram. Það á að mínu mati að leggja áherslu á að það sé að minnsta kosti reynt
að ná góðri sátt um öll mál. Þá skiptir miklu að hafa í huga hvernig mál snerta þá sem
þiggja þjónustu kirkjunnar eða taka þátt í starfi hennar. Það er mikilvægt að muna að starf
kirkjunnar er borið uppi af sjálfboðaliðum sem gefa ótrúlega af tíma sínum, þekkingu
og reynslu. Við megum ekki taka ákvarðanir sem gera það ólíklegra að fólki vilji starfa
í sóknarnefndum af því afskiptasemi regluverksins dragi það inn í einhver leiðindi sem
það hefur engan áhuga á. Regluverkið má ekki draga úr frumkvæði og starfsgleði. Ég
tel mikilvægt að við höfum þetta í huga og nefni það að gefnu tilefni eftir samtal við
sóknarnefndarformann og sóknarprest fyrr í vikunni.
Okkar hlutverk er að setja kirkjustarfinu ramma sem stuðlar að góðu og öflugu starfi
hjá sóknum kirkjunnar út um allt land. Þar fer hið mikilvæga starf fram. Okkar er að hlúa
að því og hlusta á fólkið sem þar sinnir safnaðarstarfi.
Það eru þeir sem eru á vettvangi sem skipta máli. Fáir hafa sagt þann sannleika betur en
Theodore Roosevelt í ræðu við Sorbonne í París 23. apríl 1910. Ræðu sem hafði yfirskriftina