Breiðfirðingur - 01.04.2001, Page 170
168
BREIÐFIRÐINGUR
samvinnu og bárum saman bækumar. Ekki sízt var það í
heimsóknum mínum á heimili þeirra hjóna, Lúðvíks og Helgu
Proppé. Þar var mér tekið tveim höndum, og Helga lét ekki
sinn hlut eftir liggja. Hún fagnaði strax í upphafi hinum nýja
heimilisvini með hlýju viðmóti og gestrisni, hún var viðræðu-
góð, bæði um fræðin, og ekki síður um dagleg tíðindi, sem á
dagskrá komu. Mér varð líka fljótt ljóst, að í fræðastörfum
húsbóndans var Helga hans hægri hönd við söfnun heimilda,
uppskriftir, prófarkalestur o.s.frv. Er stórvirkið „Islenzkir sjáv-
arhættir“ í raun þeirra beggja verk, að sögn Lúðvíks sjálfs. Og
ég sannfærðist um það, hversu vel vinnandi þessi kona var,
þegar ég las með henni, að ósk Lúðvíks í fjarveru hans, próf-
arkir að síðara bindi ævisögu langafa míns, Þorláks O. John-
son, kaupmanns í Reykjavík, „Ur heimsborg í Grjótaþorp“.
- Þau hjónin eru síðan nánast sem eitt í mínum huga.
Þá vil ég nefna hér sérstaklega, að ég varð þess trausts að-
njótandi að fá að aðstoða Lúðvík við öflun efnis í minningar-
safn það um Jón Sigurðsson við Austurvegg í Kaupmanna-
höfn, sem hann annaðist uppsetningu á fyrir Alþingi, ásamt
hinum færasta hönnuði, Steinþóri Sigurðssyni, listmálara, og
opnað var 1. desember 1974. Það urðu mér sannarlega lær-
dómsríkar stundir, sem í það verk fóru, sem og öll samskiptin
við Lúðvík á þeim tíma. Þessi samvinna leiddi til þess, með
fullum stuðningi hans og hvatningu, að ég tókst á hendur að
gefa út bókarkorn um Jón forseta á 100 ára ártíð hans, 7. des-
ember 1979. Þetta skyldi vera aðgengileg bók fyrir almenning
í máli og myndum, þar sem ekkert slíkt rit var til á þeim tíma.
Arið eftir hélt ég áfram inn á svipað hliðarspor þeirrar
brautar, sem hann hafði að vissu leyti gert að sérgrein sinni,
þegar ég tókst á hendur að setja saman minningarsafn Jóns
Sigurðssonar á Hrafnseyri, ásamt Steinþóri Sigurðssyni, og
opnað var 1. ágúst 1980. Þetta var einnig að ráðum og hvatn-
ingu Lúðvíks, en hann var þá sjálfur á fullu skriði við samn-
ingu „Islenzkra sjávarhátta“. Þannig varð hann vissulega all-
nokkur örlagavaldur í mínu lífi, og get ég ekki annað en verið
honum ævinlega þakklátur fyrir það.