Ljósmæðrablaðið - 01.06.2013, Blaðsíða 6
6 Ljósmæðrablaðið - júní 2013
Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka það
traust sem þið hafið sýnt mér með því að
kjósa mig til formennsku í félaginu og það er
með mikilli eftirvæntingu og tilhlökkun sem
ég bíð þess að takast á við starfið.
Nú þegar þetta er skrifað eru stjórnarmynd-
unarviðræður í gangi og ef til vill breytingar
framundan í þjóðfélaginu eða kannski ekki.
Mörgum finnst óvissa ríkja um marga þætti
og lítið að gerast eða breytast.
Fyrir ljósmæður er kannski of djúpt í árina
tekið að segja að óvissa ríki um störf þeirra
en þær verða svo sannarlega að vera á varð-
bergi og passa sín störf og sína stétt.
Í nýju skipuriti Heilsugæslu höfuðborgar-
svæðisins sem tók gildi 1. maí sl. er til að
mynda ekki minnst einu orði á ljósmæður.
Nýlega var auglýst eftir hjúkrunarfræðingi
með ljósmæðramenntun í stað þess að
auglýsa eftir ljósmóður. Þetta er gert á sama
tíma og það er yfirlýst stefna að standa vörð
um grunnþjónustu.
Einnig hefur fæðingarstöðum fækkað jafnt
og þétt undanfarin ár. Flestar þessar aðgerðir
eru gerðar með það að markmiði að auka
hagkvæmni og sparnað.
Að fækka fæðingarstöðum hefur ekki
sparnað í för með sér heldur það að færa
pening úr einum vasa í hinn. Það eru nefni-
lega ekki til ódýrari fæðingar heldur en þær
sem eru eingöngu í höndum ljósmæðra í
heimabyggð konunnar, þær kosta ekki neitt
nema bakvaktarlaun ljósmóður. Ef standa á
vörð um grunnþjónustu og efla hana hlýtur
það að þýða að ljósmæður verða starfandi við
allar heilsugæslur og sinna öflugri mæðra-
vernd. Þær sjá þar hvaða konur uppfylla ekki
skilyrði til fæðingar utan sjúkrahúss. Það er
hræódýrt fyrir samfélagið að borga bakvakt-
arlaun ljósmóður til að þær hraustu konur
sem geta fætt utan sjúkrahúsa geri það.
Bakvaktarlaun ljósmóður á móti kostn-
aði við fæðingu á hátæknisjúkrahúsi og
kostnaði fjölskyldunnar við ferðalög, leigu á
verkalýðsíbúðum, sumarbústöðum eða öðru
húsnæði, vinnumissi maka og óþægindum og
streitu við að dvelja allt upp í nokkrar vikur
að heiman er lítill. Jafnvel má einnig reikna
inní aukna tíðni inngripa því að dæmi eru um
gangsetningar einungis vegna þess að fjöl-
skylda getur ekki dvalið lengur að heiman til
að bíða. Reikni hver fyrir sig.
Í þessari umræðu gleymist líka oft að
margar fjölskyldur hafa ekki efni á því að
fara frá heimili sínu og vera í mislangan tíma
í burtu til að bíða eftir jafn eðlilegum atburði
og fæðingu. Þessar fjölskyldur fá styrk frá
félagsmálakerfinu svo að kostnaður þar
eykst.
Fyrir utan sparnaðarhugleiðingar hafa
rökin um öryggi oft verið notuð þegar leggja
á niður fæðingar á minni stöðum. En er ekki
mesta öryggið öflug mæðravernd sem miðar
að því að sjá út og greina hugsanleg vanda-
mál? Það er algengara en hitt að konur séu
sendar burt til fæðingar að nauðsynjalausu.
Engin ljósmóðir vill lenda í vandræðum fjarri
spítala, svo að það er vandað til verka áður en
fæðing er ákveðin í heimabyggð.
Á þeim stöðum sem búið er að leggja
niður fæðingarþjónustu verður þar af leið-
andi enginn viðbúnaður né neinn sem kann
til verka þegar ófyrirséð fæðing á sér stað
því það munu alltaf verða konur á hverju ári
sem ekki eru farnar í burtu þegar að fæðingu
kemur.
Hvaða öryggi er það að hafa engan
viðbúnað og enga ljósmóður á vakt? Jú, þá
geta börn mögulega fæðst á bílastæðum við
þjóðveginn hugsanlega í ískulda um miðjan
vetur eða í sjúkrabílum sem brjótast með
konurnar um langan veg í ófærð. Daginn eftir
eru þessar aðfarir lofaðar í fjölmiðlum og fáir
hugsa út í þau óþægindi og hugsanlega hættu
sem bæði móðir, barn og jafnvel björgunar-
sveitarmenn eru lögð í þegar það einfalda,
besta og auðvitað ódýrasta hefði verið að
konan fæddi annaðhvort heima hjá sér eða á
þeirri heilbrigðisstofnun sem þjónar hennar
heimabyggð.
Þá er ótalið sjúkraflugið. Er réttlætanlegt
að teppa sjúkraflugvél fyrir konu í eðlilegri
fæðingu svo ekki sé minnst á kostnaðinn sem
fylgir slíkum flutningi?
Þessi stefna að senda konur í burtu eykur
álag á LSH og þær ljósmæður sem þar starfa.
LSH er háskólasjúkrahús og okkar mesta
hátæknisjúkrahús þrátt fyrir að ýmis tækja-
kostur sé kominn fram yfir síðasta notkunar-
dag vegna peningaleysis.
Sjúkrahús eru, eins og nafnið gefur til
kynna, ætluð fyrir þá sem sjúkir eru. Það er
því frekar undarlegt að sérstök deild fyrir
heilbrigðar konur og eðlilegar fæðingar sé
rekin þar innan dyra.
Stefnan ætti ef til vill að vera sú að heil-
brigðar og hraustar konur fæði annars staðar
en á LSH og nýti sér ódýrari kosti. Það er jú
verið að leita sparnaðarleiða í heilbrigðiskerf-
inu.
Hvaða kosti mundu þá konur á Stór-
Reykjavíkursvæðinu hafa? Hreiðrið eða
fæðingarheimili ætti að vera starfrækt utan
sjúkrahúss og ég vil einnig sérstaklega
benda á það að konur af Reykjavíkursvæð-
inu geta mjög auðveldlega fætt í Keflavík,
á Selfossi og á Akranesi og í nýja Hreiðrinu
(fæðingarheimili) sem yrði rekið utan spítala
og síðast en ekki síst heima hjá sér. Það sést
á þessu að það yrðu talsverðir valmöguleikar
fyrir konur á stórhöfuðborgarsvæðinu.
Í umræðu um þessa möguleika hafa margir
séð allnokkra annmarka, t.d. að ekki sé
boðlegt að senda konu frá Reykjavík „alla“
leið til Keflavíkur. Ætli sé ekki verið að ræða
um 30–40 mín. akstur og eitthvað svipað til
hinna staðanna. Hvað mega þá alvöru dreif-
býliskonur segja sem þurfa jafnvel að vera
farnar við 38 vikur langan veg að heiman og
vera þar í allt að 4 vikur, er það boðlegt?
Hér að framan hefur einungis verið stiklað
á stóru og það verða víst seint allir sammála,
en er ekki löngu kominn tími til að móta
faglega og skynsamlega stefnu í málum sem
lúta að mæðravernd og fæðingu? Stefnu
sem er hagstæð fyrir barnshafandi konur og
samfélagið í heild.
Áslaug Valsdóttir
formaður Ljósmæðrafélags Íslands
Kominn tími til að móta faglega og
skynsamlega stefnu í málum sem lúta
að mæðravernd og fæðingu
Á VA R P F O R M A N N S L M F Í