Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2013, Blaðsíða 20

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2013, Blaðsíða 20
20 Ljósmæðrablaðið - júní 2013 (Gaskin, 2003). Ekki langaði mig allavega að liggja ein með hríðar og reyna að komast í gegnum þær með öðrum fæðandi konum. Nei takk, ekki mjög spennandi. Ég fékk heldur ekkert svigrúm til þess að hreyfa mig, heldur þurfti að liggja í rúminu og bíða eftir að þessu myndi ljúka. Ég fór mjög fljótt að finna verulega til, kannski að taugarnar hafi spilað þar stórt hlut- verk líka. Ég þurfti að bíða svolítið eftir deyf- ingunni og var orðin pínulítið örvæntingafull en þvílíkur munur að fá svo deyfinguna. Ég lá þarna og sá hríðarnar ganga yfir mig í bylgjum en fann ekki neitt, þvílík sæla. Ég lokaði augunum og reyndi að útiloka umhverfið. Læknir kom inn með jöfnu millibili til að athuga útvíkkun, byrjaði á mér og fór svo á línuna. Ég vona bara að hann hafi skipt um hanska á milli, allavega var ég mjög fegin að vera í fyrsta rúminu. Útvíkkunin gekk mjög vel hjá mér og um hádegi var henni lokið. Þá var slökkt á dreypinu og ég fór fljótlega að finna mikið fyrir hríðunum, en ég var í raun þakklát fyrir það því ég var svo hrædd um að finna ekki fyrir rembingnum og vita ekki hvenær ég ætti að rembast. Nú var semsagt 1. stigi lokið og þá átti að færa mig yfir á fæðingarstofu. Þá var kallað á flutningsmann, sem kom og þjösnaði rúminu með mér innanborðs á milli stofa. Ég hélt að ég yrði ekki eldri, það er mjög vont að vera í hríðum og vera í rúmi sem slæst á milli veggja. Verkirnir mögnuðust upp í hvert sinn sem hann rak rúmið í. Ég komst svo inn á fæðingarstofu og þar var mér vippað upp í fæðingarstól, fæturnir settir í stoðir og reyrðir niður á þremur stöðum. Síðan fór önnur ljósmóðirin bak við mig og ýtti fast á axlirnar á mér til að koma mér neðar í stólinn. Ég man að ég hugsaði aðeins um þetta, að þetta gæti nú varla átt að vera svona, en svo var ég bara á fullu í rembingi þannig að ég hafði engan tíma til þess. Eina sem ég vildi á þessum tímapunkti var að fá manninn minn, hann hafði komið mér í gegnum fyrri fæðingar og ég var handviss um að ég kæmist ekki í gegnum þetta án hans. Ljósurnar, sem voru tvær með mér, reyndu að skilja hvað ég væri að segja, en skildu mig ekki og ég skildi þær ekki. Spænskan var fokin út í veður og vind og ég gat ekki einu sinni tjáð mig á ensku, verkirnir tóku einhvern veginn allt yfir og ég bara garg- aði á íslensku: „Náið í manninn minn.‟ Hann var aftur á móti að taka á móti eldri börnunum okkar niðri í anddyri og því náðist ekkert í hann. Það var örugglega ákveðið að gera undantekningu á reglunni og leyfa honum að koma inn vegna óhemjugangsins í mér. Hann var því klæddur upp eins og hann væri að fara í opna skurðaðgerð, þegar hann loksins fannst, og hleypt inn á fæðingarstofu til mín þegar barnið var að renna út, mikil hjálp í honum. Sem betur fór gekk fæðingin mjög vel og litli drengurinn okkar fæddist fljótt og örugglega, enda fjögur systkin búin að ryðja veginn fyrir hann. Ég rifnaði ekki neitt og hann var mjög sprækur. Ég veit ekkert hvað hann fékk í apgar en ég veit að hann var sprækur og hress frá fyrstu mínútu. Ég fékk hann strax í fangið og pabbinn kom á sömu mínútu þannig að lífið varð aftur gott. Ljósmæðurnar áttu ekki til orð yfir þessum stóra strák, hann var 3.870 gr og 51 cm sem okkur á Íslandi finnst kannski ekki svo stórt en þarna var hann stór. Það var búið að segja börnunum okkar að þau væru búin að eignast bróður og að hann væri mjög stór. Þau greyin áttu von á einhverjum risa en svo var hann bara pínu pons þegar þau sáu hann. Mér var fljót- lega ekið inn á sömu stofu og ég hafði verið á daginn áður. Ég varð svolítið hissa, engin sængurlega, hvar eru allar hinar konurnar? Það virtist sem allar konur lægju bara saman, hvort sem þær væru að eignast barn eða í aðgerð, skrýtið. Fjölskylda mín var hjá mér megnið af deginum en svo fór maðurinn minn heim með krakkana og ég var ein eftir með litla kút. Þá tók hann upp á því að gráta voða mikið og ég fann að konan við hliðina á mér var ekki alveg að höndla það, enda nýkomin úr aðgerð greyið. Hún fór að skipta sér af mér, segja mér hvernig ég ætti að hugsa um barnið og ég var sko ekki ánægð með það. Þegar hann loksins róaðist, ætlaði ég að leggja mig. Ég lagðist niður en fann þá fyrir köfnunartilfinningu, fann að hjart- slátturinn varð mjög óreglulegur og hraður, mér leið mjög illa. Ég kallaði á hjúkrunarfræðing sem mældi blóðþrýsting sem var kominn upp úr öllu valdi og mikil hjartsláttaróregla. Þá var tekið EKG, farið með mig í lungnamynd og teknar blóðprufur. Þau héldu fyrst að ég væri að fá hjartaáfall en sem betur fór komu allar prufur vel út. Þetta var svo útskýrt sem tauga- áfall eftir fæðingu, sem ég varð aldrei neitt hissa á. Þegar ég fór að slaka á eftir fæðinguna og fara yfir hana í huganum, þá var þetta allt annað en eðlilegt og í rauninni eðlilegt fram- hald að ég fengi smá áfall eftir þetta allt saman. Ég lá sængurlegu í tvo daga, sem var tveimur dögum of mikið, því ég var alltaf inn á þessari subbulegu stofu með litla hvítvoðunginn minn og nýjum og nýjum konum, því þær stoppuðu stutt við, það voru fjórar konur sem runnu í gegn á meðan ég var þarna. Drengurinn minn grenjaði þó nokkuð á spítalanum, eflaust að kvarta undan þessu öllu saman Sængurlegan var því engin hvíld og ég var mjög fegin þegar ég komst heim í mitt umhverfi og með fjöl- skyldunni. Brjóstagjöfin fór seint af stað og mér var ekkert hjálpað með hana upp á spítala. Mjólkin kom ekki í brjóstin fyrr en á fimmta degi og þá fékk ég svakalega stálma sem ég ætlaði aldrei að ráða við. Ég man hvað ég var ein, enginn til að aðstoða, ég hringdi í mömmu til að leita eftir hjálp en það var svo sem lítið sem hún gat gert í gegnum síma. Á þessum þremur árum sem ég var búin að búa á Spáni hafði ég aldrei áður fundið fyrir heimþrá, en núna vantaði mig mömmu og alla heima á Íslandi, allan þann stuðning sem nýbakaðar mæður þurfa á að halda. Það var engin heimaþjónusta og engin ungbarnavernd fyrr en hann var orðinn sex vikna, þá fórum við í fyrstu sprautuna. Fram að því fór ég út í apótek til að fylgjast með því hvort hann væri að þyngjast. Ég var heppin að apótekið var í sömu húsalengju og við bjuggum við og veðrið gott, þannig að ég gat bara hlaupið með hann í teppi til vigtunar. Hann léttist náttúr- lega fyrstu dagana því ég fékk mjólkina seint en hann tók fljótt og vel við sér þegar hann fékk loks næringu. Við vorum ótrúlega lánsöm að hann var heilbrigður og að ekkert alvarlegt skyldi koma uppá fyrstu dagana og vikurnar með hann, því eftirlitið var ekkert. Það er erfið reynsla að eignast barn í umhverfi sem maður þekkir ekki. Í mínu tilfelli var eins og ég færi aftur í tímann, því þetta var eitthvað svo gamaldags og framandi reynsla. En í dag er ég þakklát fyrir þessa reynslu, ljósmæðurnar sem tóku á móti hjá mér voru ágætar, hjálpuðu mér í gegnum þetta þó svo að tungumálið hafi verið vandamál. Þær hefðu mátt leggja sig meira fram við að útskýra hlutina fyrir mér áður en þær framkvæmdu þá. Því lét ég mig bara í þeirra hendur, gafst upp á að hafa skoðun á hlutunum því mér fannst enginn skilja mig og ég var mjög hrædd. Þetta sýnir mér bara sem tilvonandi ljósmóðir hvað það skiptir miklu máli að nálgast erlendar konur rétt, vita eitthvað um þeirra hagi og reyna að mæta þeim þar sem þær eru, ekki bara út frá stofnuninni eins og ég varð fyrir. Rétturinn til upplýsinga er hluti af grundvallar- réttindum sjúklinga hér á landi samkvæmt 5. gr. laga um réttindi sjúklinga en þar segir: „Eigi í hlut sjúklingur sem ekki talar íslensku eða notar táknmál skal honum tryggð túlkun á upplýsingum samkvæmt þessari grein.“ (Lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997). Jafnframt er eitt markmið í framkvæmdaáætlun Alþingis um málefni innflytjenda frá 2008 að tungu- málaerfiðleikar eigi ekki að hindra að upplýs- ingar berist milli einstaklinga og heilbrigðis- starfsmanns (Alþingi, e.d.). Eflaust var farið eftir verklagsreglum í minni fæðingu, nema þær voru bara svo ólíkar því sem ég þekkti, minni menningu. Enda fannst spænsku vinkonu minni ekkert skrýtið við þetta þar sem þetta var hennar heimur og hennar menning, svona var þetta bara gert. Í hugmyndafræði og siðareglum ljósmæðra á Íslandi er miðað að því að ljósmæður virði sjónarmið ólíkra menningarheima, kynni sér viðhorf og menningu fólks og veiti þjónustu í samræmi við það (LMFÍ, e.d.). Ég veit ekki hvernig þessu er háttað á Spáni og eflaust eru margir spítalar með betri aðbúnað og þjónustu en sá sem ég fæddi á, en ég tel þetta afar mikil- vægt umhugsunarefni fyrir okkur hér á landi að standa okkur vel í þjónustu okkar við erlendar konur í fæðingu. Heimildir Alþingi. (e.d.) „Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innfl ytjenda“. Sótt 17. apríl 2013 af: http:// www.althingi.is/altext/135/s/0836.html. Gaskin, I.M. (2003). Ina May´s guide to CHILDBIRTH. New York: Bantam Dell. Ljósmæðrafélag Íslands. (e.d.). „Hugmyndafræði og stefnumótun. Ljósmæðrafélag Íslands“, Sótt 17. apríl 2013 af: http://ljosmaedrafelag.webmaster.is/ Assets/%C3%9Atg%C3%A1fa/lmfi stefnumotun.pdf. Lög um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.