Mosfellingur - 19.10.2017, Blaðsíða 33

Mosfellingur - 19.10.2017, Blaðsíða 33
Aðsendar greinar - 33 Jafnaðarmenn eru ekki á móti því að fólk verði auðugt af dugnaði sín- um og útsjónarsemi. Öðru nær. Um að gera – það á að greiða götu lítilla og meðalstórra fyrir- tækja svo að þau vaxi og dafni, eigendum sínum, starfsfólki og samfélaginu öllu til hagsbóta. Þess vegna viljum við meðal annars lækka tryggingargjald. Það er hins vegar ekki hugsjónamál okkar jafnaðarmanna að menn geti orðið auðugir hvað sem það kostar öll hin. Okkur finnst ekki rétt fólk hagnist á því að vera í einokunarstöðu við að selja okkur varning sem við verðum að kaupa. Okkur finnst ekki sanngjarnt að menn fái úthlut- að ókeypis einkaaðgangi að sameiginlegum auðlindum og fari svo að selja öðrum að- gang að þessum einkarétti – jafnvel að veð- setja hann fyrir gríðarlegar fjárhæðir sem eru svo faldar í skattaskjólum. Við erum ekki hrifin af skattaskjólum. Við erum ekki hrifin af kúlulánakapítalisma. Við erum ekki hrifin af gervivaxtarbólum sem springa fyrr en varir með hörmulegum afleiðingum fyrir aðra en þá sem blésu út bólurnar. Við erum ekki hrifin af því að fólk raki saman auði á því að hagnast á veikindum annarra, eða hinu að kenna forréttindabörnum forréttindafræði á meðan hið al- menna kerfi sé fjársvelt. Fólk á að njóta sín Okkur dreymir um heilbrigt at- vinnulíf þar sem sníkjulífsóværan nær ekki að þrífast og reglugerðir koma í veg fyr- ir einokun og fjárryksugur. Við viljum að dafni bílaverkstæði og bókaútgáfur, forrit- un, ferðaþjónusta og matvælagerð, blóma- búðir, álfaleiðsögn og stjörnuskoðun – og yfirleitt hvað það sem fólki hugkvæmist að nota hæfileika sína í. Því að hugsjón jafn- aðarmanna er sú að fólk njóti sín. Velferðarkerfið og vanrækta innviði ætl- um við að fjármagna með auðlindagjöld- um, að norskri fyrirmynd. Við ætlum að hækka skatta á stóreignafólk en lækka þá á venjulegt launafólk. Um þetta meðal ann- ars snýst pólitík: hvernig við skiptum gæð- unum. Guðmundur Andri Thorsson oddviti Samfylkingarinnar í SV kjördæmi Heilbrigt atvinnulíf Í kosningabaráttu þeytast fram- bjóðendur um og reyna að kynna sig, flokkinn sinn, hugsjónirnar og hugmyndafræðina. Ólíkt því sem ætla mætti af um- ræðunni taka flestir þátt í stjórn- málastarfi af hugsjón. Þeir vilja bæta samfélagið og trúa því að sú hugmyndafræði sem þeirra flokk- ur byggi á muni gera það betra. Og því trúi ég einmitt. Ég er handviss um að jafnaðar- stefnan er svarið við því hvernig við getum byggt upp betra og heilbrigðara samfélag til framtíðar. Við höfum hreinlega sannanir fyrir því. Á hinum Norðurlöndunum hefur hún orðið ofan á og það er sama hvar okkur ber niður – allar alþjóðlegar mælingar sýna að hinum norrænu þjóðunum vegnar best. Það er sama hvort litið er til jafnréttis kynjanna, hagsældar, velmegunar, heilbrigðis, lífslíkna eða frelsis í viðskiptum. Norræna leiðin hef- ur reynst best. Þar er velferðarkerfið sterkast og best hlúð að fólki á öllum aldri. Nýlega var ég í framhaldsskóla að kynna málefni Samfylkingarinnar fyrir áhuga- sömum nemendum. Krakkarnir færðu sig á milli borða en við frambjóð- endurnir sátum kyrrir og höfðum fimm mínútur til að kynna hverj- um nemendahóp stefnu okkar og hugsjónir. Þegar viðburðurinn var að klárast kom til mín strákur sem hafði verið með þeim fyrstu sem við ræddum við. „Ég er með spurningu,“ sagði hann. „Ég var nefnilega að hugsa. Mér leist svo rosalega vel á allt hjá ykkur. Hver eru eiginlega gildi þeirra sem eru á móti ykkar stefnu?“ Þegar stórt er spurt, er oft fátt um svör. Flokkurinn minn berst meðal annars fyrir jöfnuði, mannréttindum og mannúð, rétt- látari skiptingu gæðanna, betra heilbrigð- iskerfi, auknu aðgengi að sálfræðingum, sókn í menntamálum, umhverfismálum og síðast en ekki síst nýrri stjórnarskrá sem tryggir að arðurinn af auðlindunum renni til þjóðarinnar. Hver gæti svo sem verið á móti því? Margrét Tryggvadóttir Skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í SV kjördæmi Þegar stórt er spurt Mosfellsbær er heilsueflandi sam- félag. Nálægðin við náttúruna skapar umgjörð fyrir hvers konar íþróttaiðkun og útivist hvort sem það er að taka þátt í hlaupahópnum í bænum, stunda hestamennsku, fara í sundlaugarnar, ganga á Úlf- arsfellið eða annað. Þátttaka í íþróttum og frístundastarfi hefur ótvírætt forvarnargildi. Rannsóknir benda til að fyrstu 1000 dagarnir í lífi barna hafi áhrif á framtíðarheilbrigði þeirra. Því er mikilvægt að styðja við foreldra ungra barna. Framsókn ætlar að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og leggja áherslu á styttingu vinnu- vikunnar. Auk þess þarf að styðja við foreldra sem eiga við geðrænan vanda að stríða. Endurskipuleggja þarf geðheilbrigðis- kerfið og auka aðgengi að sálfræðimeðferð. Við ætlum að efla heilsugæsluna frekar þannig að þar starfi saman fleiri fagstéttir. Við ætlum einnig að niðurgreiða sálfræði- þjónustu. Ráðast þarf í þjóðarátak gegn sjálfsvígum. Efla þarf löggæslu til að lögregl- an hafi burði til þess að takast á við breyttan veruleika og geti tryggt öryggi okkar sem allra best. Hvetja þarf til aukinnar hreyf- ingar með því að veita hreyfistyrk árlega. Einnig þarf að veita stuðn- ing við uppbyggingu íþróttamann- virkja til að viðhalda og bæta enn frekar aðstöðu til íþróttaiðkunar barna og unglinga. Lækka þarf verð á ávöxtum, grænmeti og ann- arri matvöru sem skilgreind er sem hollustuvara. Við þekkjum það úr störfum okkar hversu miklu máli forvarn- ir skipta, hvort sem þær snúa að fjölskyld- unni, geðheilbrigðismálum, löggæslu eða hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl. Við viljum setja þessi málefni fremst í forgangsröðina. Þess vegna erum við í stjórnmálum. Willum Þór Þórsson skipar 1. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi Forvarnir eru svarið Ekkert vandamál er of stórt eða lítið fyrir Hjálparsímann 1717 og netspjall Rauða krossins. Árlega berast um 15 þúsund mál inn á borð 1717 og eru þau af ýms- um toga. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálf- boðaliðar á öllum aldri sjá um að svara símtölum sem berast og sem dæmi um það sem fólk hefur samband vegna, bæði fyrir sig eða aðstandendur, má nefna: • Einmanaleika, þunglyndi, kvíða, sjálfs- vígshugsanir, sjálfskaða • Átraskanir, geðraskanir, sorgir og áföll • Fjármál, námsörðugleika, húsnæðis- vandamál, atvinnuleysi • Rifrildi og samskipti, ástarmál, fordóma • Barnaverndarmál • Kynferðislegt, andlegt og líkamlegt of- beldi, einelti og stríðni • Heilbrigðisvandamál, neyslu og fíkn • Kynferðismál, kynlíf, getnaðarvarnir, kynsjúkdóma Þessi listi er á engan hátt tæm- andi og hægt er að hafa samband vegna alls þess sem þér liggur á hjarta og fá sálrænan stuðning, ráðgjöf, hlustun og upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru. Síminn og netspjallið er opinn allan sólarhringinn og er ókeyp- is að hringja í 1717 úr öllum símum, líka þegar inneignin á símanum er búin. Full- um trúnaði og nafnleynd er heitið. Þegar neyðarástand skapast gegnir Hjálparsími Rauða krossins 1717 hlutverki sem upplýsingasími, s.s. í jarðskjálftum eða eldgosum eða þegar rýma þarf stór svæði. Þar eru m.a. veittar upplýsingar til aðstandenda sem spyrjast fyrir um afdrif skyldmenna og vina. Hulda Margrét Rútsdóttir verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ Hjálparsími Rauða krossins 1717 og netspjallið Ókeypis – trúnaður – alltaf opið Í lífi manna gengur mismikið á en hjá flestum safnast upp með tím- anum atvik og tilfinningar sem erf- itt getur verið að vinna úr. Sumt er meðvitað en annað ómeðvitað og því oft mjög erfitt að átta sig á því. Ég er þarna engin undantekning og eftir því sem leið á, fann ég að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Eitthvað hafði slökknað innra með mér. Ég hélt samt áfram því ég þurfti að sjá fyrir mér og mínum! Það kom svo að því að ég varð algerlega uppgefinn. Ég var orðinn ómeðvitaður um eigin tilfinningar og þarf- ir, mér leið eins og ég væri tilfinningalaus! Gleðin var horfin úr lífi mínu og ég vissi ekki hvað ég vildi eða þurfti. Mér fannst fólk ráðskast með mig, bæði persónulega og í vinnu. Þó ég hefði einhverjar skoðanir stóð ég ekki á þeim heldur flaut bara með. Ég hafði lítið sjálfsálit og dæmdi mig hart ef eitthvað gekk ekki eins og ég vildi. Mér leið ekki vel og einangraði mig og sinnti í engu mínum eigin þörfum. Mér fannst ég hafa misst stjórnina á lífinu. Dag einn hitti ég gamlan vin sem greini- lega tók eftir breytingu á mér og kannað- ist við ástandið því hann fór að segja mér frá hvernig hann hafði endurskoðað líf sitt með aðferðum 12 sporanna. Með því hafði hann náð tökum á lífi sínu á ný. Hann lýsti því hvernig það að skoða líf sitt á þennan hátt fékk hann til að koma auga á ýmislegt sem betur mátti fara og að á einum vetri hefði hann náð góðum tökum á lífi sínu á ný. Hann hafði tileinkaði sér nýjan lífsstíl þar sem hann notar aðferðir 12 sporanna til að tækla lífið og tilveruna. Með því var hann nú orðinn sáttur við líf sitt, sig og sína. Vinur minn hvatti mig til að koma með sér á sporafund hjá Vin- um í bata og athuga hvort ég finndi þar leið út úr mínum ógöngum. Ég varð hissa því ég hélt að 12 sporin væru eingöngu fyrir þá sem ættu við áfengis- eða fíkniefnavanda að stríða. Það er skemmst frá því að segja að ég sló til og fór í 12 sporin og get nú ekki hugsað mér lífið án þeirra. Með hjálp sporanna til- einkaði ég mér nýjan lífstíl sem gerði mér kleift að ná tökum á lífinu, finna gleðina á ný og lifa í sátt við sjálfan mig og aðra. Vinir í bata er hópur karla og kvenna á öllum aldri sem hafa tileinkað sér Tólf sporin til að vinna úr sínum málum hvort sem er úr fortíð eða í nútíð. Hefur þú einhvern tímann velt fyrir þér að skoða líf þitt og vinna úr því sem safn- ast hefur upp á lífsleiðinni eða einfaldlega bæta samskipti við annað fólk? Þá ætti þú að kynna þér 12 sporin hjá Vinum í bata. Síðasti kynningarfundurinn í vetur verð- ur í safnaðarheimili Lágafellskirkju að Þver- holti 3, miðvikudagskvöldið 25. október kl. 18:30. Það er síðasta tækifærið til að slást í hópinn þennan veturinn því eftir það er hópum lokað og hin eiginlega 12 spora vinna hefst. Bestu kveðjur, Vinur í bata. Andlegt ferðalag Karlakórinn Stefnir mun standa fyrir hin- um árlega viðburði Söngurinn í Mosó laug- ardaginn 4. nóvember kl. 16:00. Þetta er í fjórða sinn sem Stefnir stend- ur fyrir þessari söngveislu og hefðin er að bjóða nokkrum valinkunnum kórum með. Að þessu sinni verða það stórsöngvarar víða að af landinu en þeir eru Karlakór- inn Hreimur úr Þingeyjarsýslu, Karlakór Keflavíkur og síðast en ekki síst Kvennakór Garðabæjar. Þetta verða þrusu tónleikar sem haldn- ir verða í íþróttahúsinu að Varmá þar sem hver kór tekur nokkur lög og svo verður samsöngur í lokin. Rúsínan í pylsuendanum er að öllum Mosfellingum og þeim sem hlíða vilja á er boðið á tóleikana, frítt. Söngurinn í Mosó 4. nóvember

x

Mosfellingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Mosfellingur
https://timarit.is/publication/1311

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.