Litli Bergþór - 01.12.2016, Blaðsíða 16

Litli Bergþór - 01.12.2016, Blaðsíða 16
16 Litli-Bergþór heimili sitt fyrir presti og söfnuði og messur og aðrar guðsþjónustur voru fluttar inn í bæinn, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þótt íbúðarhúsið væri ekki stórt, var alltaf nóg pláss fyrir alla, mannmargt heimili, fjölmarga fastagesti og líka fyrir kirkjulegar athafnir. Það var messað í stofunni. Stóra kommóðan var altari. Þar loguðu kerti á koparstjökum, sem heimilisvinurinn Vigfús Árnason smíðaði. Enn loga kerti á þessum fallegu stjökum á altarinu í Úthlíðarkirkju, við allar athafnir. Presturinn var skrýddur í litlu herbergi inn af stofunni. Allt messuhaldið var eins og í hverri annarri messu, þótt stofan væri kirkjan. Það var ekkert hljóðfæri, en Magnús í Austurhlíð var forsöngvari og Guðmundur sonur hans að honum gengnum. Þeir voru báðir mjög góðir söngmenn, tónvissir og höfðu fallega rödd. Þeir byrjuðu alltaf í réttri tónhæð, svo allir gátu tekið undir sálmasönginn. Messurnar voru vel sóttar og kærkomin tilbreyting í fábreyttu lífi fólksins. Oft voru samankomin við þessi tilefni 25 til 30 manns, í þessari litlu stofu. Svo var gengið frá messugögnunum og borið fram messukaffi. Það var eins og allt þetta gengi fram algerlega af sjálfu sér, en maður getur rétt ímyndað sér hvað mikið var fyrir því haft. Ég ætla að byggja kirkju! Það stóð alltaf til að endurreisa kirkjuna eftir að hún fauk, en ekkert var nýtilegt úr rústunum nema klukkurnar. Margt var gert til að reyna að þoka endurbyggingu af stað. Til dæmis var efnt til happdrættis árið 1946 til fjáröflunar handa kirkjunni, með glæsilegan gæðing í vinning. En það dugði ekki til neins og þeir fjármunir sem söfnuðust urðu nálega að engu í mikilli gengisfellingu skömmu síðar. Þar á ofan stórhækkaði allt byggingarefni í verði. Það varð því ekkert úr framkvæmdum. Eftir að Skálholtsdómkirkja var byggð og Úthlíðarsókn var sameinuð Torfastaðasókn, var hætt að messa í stofunni í Úthlíð. Þá var ekki lengur nein þörf fyrir kirkju þar á staðnum. En enn urðu breytingar. Gríðarleg uppbygging sumardvalarstaða í Úthlíð og nágrenni varð til þess að á litlu svæði, við Hlíðina vestanverða, spratt upp fjölmenn byggð. Þarna varð á skömmum tíma þörf fyrir þjónustu af öllu tagi eins og í hverju öðru byggðarlagi, þar á meðal þörf fólks fyrir að eiga samneyti við Guð sinn. Dag einn knúði Björn dyra hjá Gísla bróður sínum. „Ég ætla að byggja kirkju“, sagði hann formálalaust og slengdi blaðahrúgu á borðið. Hann var þarna kominn með fastmótaða ákvörðun um að byggja kirkju. Hann var með óteljandi blöð og snepla, með rissi og krassi til að skýra hugmyndir sínar um hvernig sú kirkja ætti að vera. Frá hugmynd til framkvæmda Gísli tók þessu öllu með jafnaðargeði. Smátt og smátt komst Björn niður á jörðina og hugmyndir hans á blað. Gísli þróaði hugmyndir sínar og bróður síns uns báðir voru ánægðir. Þá var kvaddur til arkitekt og verkfræðingar til að útfæra hugmyndirnar að kröfum byggingareglugerða og helsti sérfræðingur landsins var fengin til ráðuneytis um skreytilist. Öll þessi pappírsvinna reyndi mjög á þolrifin í Birni. Honum lætur betur að framkvæma en að naga neglur og spekulera. Loks þegar öllum þessum langdregna undirbúningi var lokið, bretti hann upp ermar og tók fyrstu skóflustungu með aðstoð vasks hóps barnabarna sinna, hinn 10. apríl 2005, í suðvestan slydduhraglanda. Það var eftirminnileg stund. Sigurður vígslubiskup blessar söfnuðinn við vígslu kirkjunnar 2006. Fyrir ofan hann er altaristaflan eftir Gísla Sigurðsson.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.