Morgunblaðið - 06.09.2018, Blaðsíða 7
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 6. SEPTEMBER 2018 7ATVINNULÍF
Fyrir um ári var nýtt skipurit tekið í
gagnið hjá tryggingafélaginu VÍS
þar sem leggja átti aukna áherslu á
stafrænar lausnir og var sérstakt
svið stafrænnar þróunar sett upp.
Átti það að búa fyrirtækið betur
undir framtíðaráskoranir í samfélagi
sem sífellt er að breytast. Helgi
Bjarnason, forstjóri VÍS, segir í
samtali við ViðskiptaMoggann að
nýtt svið stafrænnar þróunar sé
hugsað sem nokkurs konar súrefni
fyrir starfsemina. „Við settum þetta
hérna inn í skipurit fyrir um ári og
hugsum þetta sem súrefni fyrir
starfsemina. Að við séum að setja í
öndvegi þá hugsun að hugsa út fyrir
kassann. Að bjóða því birginn sem
fyrir er,“ segir Helgi.
Tjónatilkynningar á netinu
Í þessu sambandi má benda á ný-
lega þjónustu sem VÍS býður upp á,
þar sem viðskiptavinir geta tilkynnt
tjón sín á netinu. Er það fyrsta af-
sprengi þessa nýja sviðs sem var
þróað í svokölluðum hraðli, sem er
ákveðin aðferðafræði sem rekur
uppruna sinn til hugbúnaðargeirans
þar sem hópur fólks úr fyrirtækinu
kemur saman úr ýmsum deildum og
vinnur að einu verkefni í 16 vikur og
hættir daglegum störfum sínum á
meðan. Í þessum hraðli fer fram
greiningarvinna, viðskiptavinir eru
spurðir um þarfir sínar og vilja, og á
endanum er svo ákveðinni vöru skil-
að. Er þetta meðal annars gert til
þess að stytta boðleiðir og auka skil-
virkni.
Framkvæmdastjórn þarf
breiðan grunn þekkingar
Helgi er einn fyrirlesara á Strat-
egíudeginum sem haldinn verður á
morgun, þar sem fjallað er um hina
svokölluðu stafrænu byltingu. Sú
bylting er hafin og í henni leikur
upplýsingatæknin sífellt stærra
hlutverk. Við það vaknar óneitan-
lega sú spurning hvort ekki sé af
þeim sökum nauðsynlegt að hafa í
framkvæmdastjórnum fyrirtækja
fólk sem er framarlega í þeim
efnum.
„Í mínum huga þarf fram-
kvæmdastjórnin almennt að hafa
breiðan grunn mismunandi skoðana
sem koma frá mörgum vinklum. En
þegar niðurstaða er fengin eru allir
um borð. Hjá félagi eins og VÍS þarf
ofboðslega marga vinkla og tegundir
af þekkingu inn í framkvæmda-
stjórn,“ segir Helgi.
Spurður hvort þetta hafi í för með
sér að fyrirtæki muni í auknum mæli
fá fólk með upplýsingatækni-
bakgrunn eða annan sambærilegan
bakgrunn inn í framkvæmdastjórn
segir Helgi það ekki endilega þurfa
að vera.
„Tölvuvinkillinn er einn vinkill.
En ekki síður það sem við höfðum í
öndvegi með því að setja stafrænu
verkefnin hérna inn. Að fá súrefni til
að hugsa út fyrir kassann og takast á
við það sem er fram undan. Í mínum
huga er stafræn þróun ekki upplýs-
ingatækniverkefni heldur snýst
verkefnið meira um að hugsa um það
sem viðskiptavinurinn er að biðja
um. Hvað gerir okkar félag liprara
og betra fyrir viðskiptavininn og þá
afleiðing fyrir reksturinn og hlut-
hafa,“ segir Helgi. Tækniþekking er
hins vegar nauðsynleg í fram-
kvæmdastjórn að sögn Helga.
„Ég held að það þurfi að vera
tækniþekking í framkvæmdastjórn.
Ég hef þá trú að hvort sem verið er
að innleiða breytt kerfi eða breytt
hugarfar; stafræn verkefni eða eitt-
hvað slíkt, sé ekki lykillinn að ráða
einhvern sem veit allt og kann allt og
segir öllum hinum hvernig þeir eigi
að gera eitthvað. Þegar verið er að
innleiða svona breytingamaskínu
felst það í því að yfirstjórnin og for-
stjórinn séu saman í einhverri veg-
ferð. Þetta má ekki vera eins manns
verkefni. Aðalatriðið er að í fram-
kvæmdastjórn sé hópur einstaklinga
sem vinnur saman sem lið að sam-
eiginlegu verkefni, hvort sem það
heitir stafræn vegferð, innleiðing á
nýju kerfi eða einhverjar breytingar
á þjónustu. Hugarfar og samsetning
þessa hóps skiptir mestu máli,“
segir Helgi.
Snörp og skörp
Spurður um helstu stafrænu
áskoranirnar hjá VÍS segir Helgi að
aðalatriðið sé að innleiða breytingu á
hugarfari sem tekst á við þann veru-
leika að heimurinn sé sífellt að
breytast.
„Fyrir félag eins og VÍS sem hef-
ur 100 ára sögu og byggir á djúpum
rótum sögunnar er áskorunin alltaf
að vera góður í að breytast og aðlag-
ast breytingum. Það er megin-
áskorun rótgróinna félaga, hvort
sem það eru tryggingafélög, bankar
eða hvað sem er. Almennt er það
stór áskorun, hvort sem það þýðir að
við þurfum að aðlagast stafrænum
verkefnum eða bara breyttum þörf-
um viðskiptavinanna,“ segir Helgi
og nefnir í sömu andrá slagorð hjá
VÍS: Snörp og skörp.
„Við viljum innleiða menningu þar
sem við erum snörp og skörp. Fljót
að aðlagast og góð í að breytast. Ég
hef þá trú að það sem muni koma
okkur mest á óvart í framtíðinni og
muni breyta mestu hjá okkur sé eitt-
hvað sem við þekkjum hreinlega
ekki í dag. Við þurfum að undirbúa
okkur fyrir þessar breytingar frekar
en að takast á við vandann á
morgun. Þetta þarf að vera hluti af
daglegri starfsemi. Í dag lýtur þetta
að þessum stafrænu verkefnum og
hvaða tækifæri eru þar, en almennt
er þetta áskorun um að geta breyst,“
segir Helgi.
Átakamál að brjóta upp venjur
Helgi segir að innleiðingin á nýrri
vöru eða nýjum ferli sé stór áskorun.
Þegar fólk hafi gert hlutina á ákveð-
inn hátt geti verið snúið að breyta
til.
„Í mínum huga snýst þetta ekki
bara um að búa til vöru. Þetta snýst
um að búa til vöru sem viðskipta-
vinurinn vill og að innleiðingin verði
með þeim hætti að þetta verði hon-
um og okkur til góðs. Þetta gengur
ekki út á að búa til eitthvað ofboðs-
lega flott sem enginn notar. Við vilj-
um búa til eitthvað sem við vitum að
viðskiptavinurinn vill og við þurfum
að hjálpa honum að nota. Við höfum
séð það og ég hef það líka úr reynslu
minni úr fyrra starfi að þetta snýst
oft um að koma með vöruna sem við-
skiptavinurinn hefur verið að kalla
eftir en það getur verið átakamál að
fá hann til þess að breyta til og
brjóta upp það sem hann er vanur að
gera,“ segir Helgi.
VÍS áfram akkeri
Helgi segir að í grunninn sé fyrir-
tækið VÍS ekki að breytast mikið.
„VÍS er með hátt í þriðjungs mark-
aðshlutdeild, með ofboðslega góða
og sterka sögu,“ segir Helgi og bæt-
ir við:
„Við erum að horfa til þess að nýta
þessi stafrænu verkefni og þessa
stafrænu vegferð til þess að skapa
umhverfi sem gerir okkur dýna-
mískari og betri í að breytast. Þó að
ég trúi því að VÍS verði í einhverjum
skilningi óbreytt akkeri í samfélagi
okkar erum við heilt á litið að setja
okkur skýrari framtíðarsýn um
hvert við viljum fara og hvernig við
ætlum að fara þangað. Það eru
breytingar hérna hjá þessu félagi
sem eiga að vera félaginu og ekki
síst viðskiptavinunum til góðs,“
segir Helgi.
Áskorunin fólgin í því að breytast
Pétur Hreinsson
peturhreins@mbl.is
Snörp og skörp viðbrögð á
tímum örra breytinga eru
markmið VÍS að sögn for-
stjóra fyrirtækisins, Helga
Bjarnasonar.
Morgunblaðið/Golli
Svið stafrænnar þróunar hjá VÍS er hugsað til þess að gera fyrirtækið betur í stakk búið til að takast á við framtíðina.
Eltak sérhæfir sig í sölu
og þjónustu á vogum