Morgunblaðið - Sunnudagur - 09.09.2018, Page 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 09.09.2018, Page 14
T uttugasti og sjötti maí 2017 átti að vera ósköp venjulegur dagur hjá Láru Sif Christiansen. Hún var þá í draumastarfinu sem flugmaður hjá Icelandair, nýgift 29 ára gömul kona sem eyddi frítíma sínum uppi á fjöllum, á skíðum eða þeysandi um á hjóli. Þennan um- rædda dag fór hún í Öskjuhlíð á fyrstu fjalla- hjólaæfingu sína, féll af hjólinu og hlaut varan- legan mænuskaða. Hún lamaðist fyrir neðan brjóst og hefur þurft að læra á lífið alveg upp á nýtt. Áfallið var mikið fyrir Láru og fjölskyldu hennar og var hugur margra hjá henni á þess- um tíma. Hafin var söfnun svo senda mætti Láru á endurhæfingarstöð til Bandaríkjanna um haustið og hlupu margir Reykjavíkur- maraþonið í fyrra svo hún gæti látið þann draum rætast. Nú er rúmt ár liðið frá þeim örlagaríka degi þegar lífið snerist á hvolf hjá ungu hjónunum, Láru og eiginmanninum Leifi Grétarssyni. Blaðamaður hafði fylgst með úr fjarlægð, eins og svo margir aðrir, og heyrt af dugnaði Láru við að koma sér aftur út í lífið. Að sögn hennar nánustu hefur henni tekist vel að laga sig að breyttum aðstæðum, þótt Láru finnist hún engin hetja. Eftir nokkra umhugsun féllst Lára á að segja sögu sína. Segja öllu því fólki sem sýnt hefur henni stuðning og umhyggju að hún væri að spjara sig vel í dag, þrátt fyrir hindranir. Flugið heillaði alltaf Blaðamaður mætir heim til þeirra hjóna í Bryggjuhverfið í Garðabæ og gengur inn um dyr sem opnast sjálfkrafa, enda íbúðin útbúin með hjólastólaaðgengi í huga. Stofan er stór og björt og ákaflega smekklega innréttuð og fallegt útsýni er út á haf. Lára er með síða fléttu í ljósa hárinu og stórt og fallegt bros. Hún nær í kaffi og viðurkennir að hún sé hálf stressuð, sér finnist þetta allt frekar óþægi- legt. Við byrjum á rólegu nótunum og Lára segir aðeins frá fjölskyldunni, en þau tengjast öll flugi á einn eða annan hátt. „Mamma er flugfreyja, systir mín Sirrý er flugfreyja og pabbi var flugmaður en hann er kominn á eftirlaun. Pabbi vann aðallega er- lendis en ég er fædd og uppalin í Kaliforníu. Við fluttum heim þegar ég var fjórtán ára en þá hafði ég búið alla ævi í Ameríku. Það var svolítið erfitt að koma heim; ég fór beint í Garðaskóla en ég er Garðbæingur.“ Eiginmanninum kynntist hún snemma á lífsleiðinni, en þau urðu par fyrir átta árum og hjón fyrir tveimur árum. „En við erum búin að vera vinir miklu lengur. Við kynntumst í Garðaskóla og fórum svo bæði í Fjölbraut í Garðabæ,“ segir Lára. Leifur grípur inn í samtalið: „Hún er náttúrulega súpergáfuð þannig að hún var aðeins fljótari en ég í náminu,“ segir hann og Lára hlær. Lára segir að flugið hafi ávallt heillað en þegar hún var að útskrifast úr menntaskóla var hrunið í algleymingi og atvinnuhorfur flug- manna afar slæmar. „Það var verið að segja öllum upp þannig að mér fannst skynsamlegast að fara í háskóla,“ segir Lára, sem fór þá í iðnaðarverkfræði í Há- skóla Íslands og þaðan í meistaranám í fjár- málahagfræði við sama skóla. Hún var spreng- lærð og nýútskrifuð en flugið togaði samt alltaf í Láru. „Þá var hitt ekki nógu spennandi þannig að ég fór að læra flug. Ég var snögg að því, ég var orðin frekar gömul og þurfti að kýla á þetta. Ég byrjaði árið 2014 og fyrsta árið var bóklegt og svo verklegt. Ég lærði í Flórída í Banda- ríkjunum og gat flogið þar alla daga þannig að það tók ekki svo langan tíma. Ég fékk svo vinnu um haustið 2015,“ segir hún og flaug hún út sumarið 2016 en var sagt upp um haustið eins og gjarnan er gert hjá flugfélögum. „Ég kom svo aftur inn í febrúar 2017 og lenti í slysinu í maí sama ár. Það var 26. maí.“ „Ég vissi það um leið“ Þú varst að hjóla í Öskjuhlíð? „Já,“ segir hún og minningin kallar strax fram tár. Lára tekur sér augnablikshlé. „Stundum veit ég ekki af hverju ég græt, því þetta er ekkert viðkvæmt lengur, ég er komin yfir þetta,“ segir Lára en segir að það sé langt síðan hún hafi rifjað upp alla söguna. Það taki því á. Hún þurrkar burt tárin og heldur ótrauð áfram að segja hispurslaust frá þessu örlaga- ríka slysi. „Ég var á hjólaæfingu í Öskjuhlíð; þetta var fyrsta fjallahjólaæfingin mín. Við vorum bara að æfa okkur og allt gekk vel. Við vinnufélagar hjá Icelandair höfðum verið að hjóla saman all- an veturinn og sumarið áður, en alltaf á götu- hjólum. Þarna vorum við fjögur á æfingunni, þjálfarinn, ég og tveir vinnufélagar. Annar þeirra hrasaði alveg í byrjun og fékk gat á hausinn og fór. Við hin vorum í tæknilegri æf- ingu í smá grjóti og það lá heimasmíðuð brú frá einni hæð yfir á aðra, en á milli var lægð sem var aðeins of djúp til þess að geta stokkið yfir. Brúin var í raun eins og planki sem lá þarna yfir. Ég var búin að fara yfir hann tvisv- ar og var í þriðju ferðinni minni. Ég fór ekki hratt; frekar of hægt ef eitthvað er, og hjólið skrikaði út fyrir. Þá skutlaðist ég fram yfir hjólið, en þetta var ekki mikið fall. Þetta var ekki glannaskapur og ég var með hjálm,“ segir Lára og útskýrir að hún hafi nánast dottið í hálfan kollhnís og lent á bakinu. Var mikill sársauki þegar þú lentir? „Enginn. Ég vissi þetta um leið.“ Hún heldur áfram. „Mér leið eins og að líkaminn minn hefði rifnað í sundur og hugsaði: hvar er hinn parturinn?“ Áttaðir þú þig á því þá að þú værir lömuð? „Um leið, ég byrjaði bara að öskra. Ég vissi það.“ Það er ekki laust við að augu okkar beggja fyllist tárum á þessum tímapunkti í viðtalinu. Að vonum er ekki auðvelt fyrir Láru að rifja upp þetta versta augnablik ævinnar. Blaðamaður getur ómögulega sett sig í þessi spor en tilhugs- unin er skelfileg. Lára missti aldrei meðvitund og vissi því nákvæmlega hvað væri að gerast. Lífið verður betra Fyrir rúmu ári féll Lára Sif Christiansen af hjóli og lamaðist samstundis. Áfallið var mikið en með jákvæðu hugarfari og dugnaði er hún farin að taka fullan þátt í lífinu á ný. Eiginmaðurinn, Leifur Grétarsson, stendur sem klettur við hlið konu sinnar og saman láta þau ekkert stöðva sig þótt tilveran sé breytt frá því sem áður var. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is Hjónin Leifur Grétarsson og Lára Sif Christiansen eru sam- stiga í lífinu, en þau hafa þekkst síðan í gagnfræðaskóla. VIÐTAL 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 9.9. 2018

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.