Morgunblaðið - Sunnudagur - 09.09.2018, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - Sunnudagur - 09.09.2018, Blaðsíða 17
9.9. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17 Er sjálfbjarga í dag Lára þurfti að leggja flugið á hilluna og var það henni mikið áfall. Draumastarfið var því ekki mögulegt lengur og þá kom sér vel allt námið sem hún lagði á sig áður en hún gerðist flugmaður. Eftir að allri endurhæfingu var lokið var hún tilbúin að fara aftur út á vinnu- markaðinn og halda áfram með lífið. „Icelandair var búið að bjóða mér starf í verkfræðideildinni, en þau voru ekkert að pressa á mig. Það var auðvitað mikið áfall út af fyrir sig að geta ekki flogið, en ég fékk óvænt atvinnutilboð og er nú framkvæmdastjóri Fé- lags íslenskra atvinnuflugmanna (FIA). Mér líkar það mjög vel, starfið er mjög skemmti- legt og það er líka krefjandi að gera eitthvað allt annað en að fljúga,“ segir Lára, en hún er nú komin þar í fullt starf. Saknarðu flugsins? „Já, mjög.“ Nú er liðið rúmt ár, finnst þér þú hafa náð að aðlagast á þessum tíma? „Já, bara mjög vel, þó ég segi sjálf frá. Maður bara bjargar sér. Fyrst þurfti ég miklu meiri hjálp en svo kom það mjög fljótt og það hjálpaði mjög mikið hvað ég var í góðu formi. Ég er alveg sjálfbjarga í dag með umhverfi mitt. Maður þarf smá hjálp í útlöndum. Ég er með sérútbúinn bíl og það var mjög mikið frelsi, að þurfa ekki að vera háður öðrum,“ segir Lára. Hvað myndir þú segja við fólk sem lendir í því sama og þú? Lára hugsar sig lengi um og ákveður svo hvað hún myndi segja. „Lífið verður betra.“ Tilfinningar bera hana ofurliði. Aftur tárast bæði blaðamaður og viðmælandi. Það er ekki annað hægt. Dugnaðurinn og eljan í Láru er aðdáunarverð þrátt fyrir að líf hennar hafi snúist á hvolf. Sérðu eitthvað jákvætt sem hefur komið út úr þessu, fyrst þetta þurfti að gerast? „Ekki ennþá. En ég hef alveg spurt fullt af fólki sem hefur sagt að það hefði ekki viljað hafa þetta öðruvísi. Kannski sér maður þetta öðruvísi eftir nokkur ár.“ Með Leif við hlið sér Við tökum upp léttara hjal og tölum um sum- arið. Þar sem Lára er frekar nýbyrjuð í vinnunni átti hún ekki mikið sumarfrí en fór þó í vikufrí til Portúgals með nokkrum vinum. „Það var alveg æðislegt, ég var búin að fara í eina slökunarferð til Flórída með fjölskyldunni en þetta var fyrsta borgarferðin eftir slysið. Við vorum að allan daginn og mikil dagskrá. Það gekk voða vel með einn svona Leif við hlið- ina á sér,“ segir hún og brosir til mannsins síns. Leifur er stoð þín og stytta? „Það mætti segja það,“ segir hún og þau brosa til hvors annars. Greinilegt er að þessi ungu hjón eru samstiga í lífinu og góð við hvort annað. Lára segir Leif ekki hika við að bera sig um allar trissur ef svo ber undir. Það fengu þau að reyna bæði í Portúgal og eins þegar þau ferðuðumst um Ísland. „Svo keyrðum við hringinn og þar voru alls konar nýjar áskoranir. Eins og að gista í tjaldi og skoða sig um,“ segir Lára, en að- stæður fyrir hjólastóla voru ekki alls staðar nógu góðar. Finnst þér vera margt sem þú getur ekki gert, sem pirrar þig? „Nei, nema kannski að fara í fjallgöngu. En það er frekar hvað ég er lengi að öllu. Það er svolítið nýtt. Ég var alltaf á síðustu stundu áður, en það er ekkert í boði núna. Maður þarf að hugsa tvö, þrjú skref fram í tímann. Það er kannski erfiðast. Það er allt pínu erfiðara. Ég væri alveg til í frí einn dag í viku,“ segir hún og hlær. Hún nefnir að aðgengið í Reykjavík mætti alveg vera betra fyrir fólk í hjólastólum. „En þetta er í rétta átt.“ Þetta er svakalega áskorun sem þér var- úthlutað. „Já, maður hugsaði stundum að maður gæti fengið krabbamein eða lent í bílslysi en aldrei datt mér í hug að þetta gæti gerst. Maður heldur að svona lagað komi ekki fyrir sig. Það lenda allir í einhverjum áföllum. Þetta er mjög stórt áfall en þetta hefði getað farið verr og ég er mjög þakklát fyrir að vera með fullan kraft í höndunum.“ Að halda áfram með lífið Leifur og Lára eru sammála um að láta þetta áfall ekki stöðva sig við að lifa lífinu og njóta. „Við erum alltaf að plana einhver ævintýri, erum búin að bóka okkur næsta árið í fullt af ævintýrum,“ segir Leifur. „Við erum að fara til Ítalíu á laugardaginn, í slökunarferð,“ segir Lára. „Svo langar okkur í fjallahjólaferð í haust og vonandi á skíði,“ segir hann. Fjallahjólaferð? „Já, okkur langar að fara til Utah. Ég hef verið að stinga upp á því við Láru að hún fái sér fjallahjól, en þau eru ekki seld hér. Við gætum sótt það til Denver þar sem við eigum vinafólk og farið í tveggja, þriggja daga ferð í leiðinni,“ segir Leifur. Þú ert alveg til í að fara á fjallahjól? „Já, já, þetta er í raun annað sport, þetta er handfjallahjól.“ Þannig að þið eruð ekki af baki dottin þótt móti blási? „Nei, maður heldur sínu striki. Það er hægt að gera svo mikið, það þarf bara að aðlagast. Það þarf að hugsa í lausnum. Maður getur ekki hætt að lifa þótt maður lendi í slysi. Ég fjalla- hjólast ennþá þó að Lára hafi dottið svona óheppilega,“ segir hann. „Þetta er skrítið líf, hlutirnir gerast bara.“ Já, þetta var helvítis óheppni. „Já, það er eiginlega engin önnur leið til að orða það. En hún er að massa þetta verkefni, hún Lára, hún er ótrúleg. Hún gerir sjálf oft lítið úr því hvað hún er að gera mikið af mögn- uðum hlutum og segist stundum ekki skilja að fólk sé að hrósa henni. Henni finnst þetta bara venjulegt. Ég hef sagt við hana, það er ekki fyrir hvern sem er að sigrast á svona áskor- unum.“ Lára segir marga hafa sagt hana góða fyrir- mynd. „Ég skil ekki hvernig er hægt að vera fyrirmynd fyrir að vera bara venjuleg,“ segir Lára hógvær. „Þó að það sé bara ár síðan þú slasaðist ertu meiri útivistarkona en mjög margir aðrir,“ segir Leifur og þau hjón segjast dugleg að sækja matarboð og hitta vinina, auk ferðalag- anna. „Það hefur aldrei komið upp að við segjum; þetta er ekki í boði. Það er alltaf hægt að finna leið,“ segir Lára. „Ef það er ekki lyfta í húsi eða við erum úti í náttúrunni, þá held ég bara á henni. Maður finnur leið.“ Leifur, hefur þú náð að halda jákvæðninni í gegnum þetta allt saman? „Já, þegar maður lendir í svona fer maður að fókusa á hvað það er sem skiptir máli og hvað maður á að gera til að vera hamingju- samur í lífinu. Það er svo auðvelt að gera akk- úrat öfugt. Þannig að ég breytti viðhorfi mínu eftir að þetta gerðist. Það kom mikið af erfið- um tímum, og maður átti slæma daga og svo verri daga, og svo góða daga. Ef maður reynir að fara í gegnum þetta með jákvætt hugarfar er hægt að sigrast á öllu. Ef þú gerir það og ert góður við fólkið í kringum þig, þá rætist úr öllu. Það er þetta tvennt sem ég nota sem stoð- ir í mínu daglega lífi; að vera jákvæður og góð- ur við fólkið mitt. Það kemur manni ansi langt.“ Hvernig horfir þú til framtíðar, Lára? „Ég reyni að pæla ekkert langt fram í tímann. Ég var á tímabili að hugsa bara um einn dag í einu en nú er ég bara að halda áfram með lífið. Það er svo margt í boði og maður verður bara að gera það besta úr hlutunum. Það er ekki annað hægt. Þetta er svo mikið í hugarfarinu.“ Morgunblaðið/Ásdís Fyrir slysið voru þau hjón mikið fyrir fjallgöngur og er það eitt af því fáa sem Lára segist ekki geta í dag. Allt annað tekst hún á við með dugnaði. Lára og Leifur eru sannarlega saman í blíðu og stríðu, en þau giftu sig fyrir tveimur árum. Hjónin hafa ekki gefið ferðalög upp á bátinn og Leifur er duglegur að snara konu sinni á bakið á sér ef svo ber undir, hér í San Francisco. Lára var flugmaður hjá Icelandair fyrir slys en varð að hætta í draumastarf- inu. Hún er nú framkvæmdastjóri FIA, félags íslenskra atvinnuflugmanna.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.